Vilji kröfuhafa Glitnis stendur til þess að Íslandsbanki verði seldur til erlendra aðila og að þeir fái gjaldeyri fyrir söluna. Áhugasamur kaupendahópur er til staðar og hann hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaupin. Til stóð að kynna þann hóp til leiks í liðinni viku en ekkert varð af því. Ástæður þess eru nokkrar.
Áhugi frá Miða-Austurlöndum og Kína
Kjarninn greindi frá því í byrjun síðustu viku að til stæði að kynna til leiks erlenda fjárfesta að Íslandsbanka í þeirri viku sem var að líða. Af því varð ekki. Viðræður við nokkra hópa hafa staðið yfir um nokkurra mánaða skeið og þeir sem hafa sýnt mestan áhuga koma annars vegar frá löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er um að ræða stór fyrirtæki sem eiga þegar hluti í alþjóðlegum bönkum. Einhverjir hópanna rituðu undir viljayfirlýsingu um kaup á bankanum í febrúar síðastliðnum.
Erlent eignarhald á banka umdeilt
Ljóst er að sala á Íslandsbanka er umdeild og margir leikendur í íslensku viðskiptalífi sem sjá sér hag í að bankinn verði seldur innlendum aðilum. Íslandsbanki á gríðarlegt eigið fé (181,5 milljarða króna), er með mikla markaðshlutdeild og getu til að vaxa. Því er skiljanlegt að margir íslenskir fjárfestar horfi hýru auga til bankans.
Það hefur einnig verið pólitísk andstaða. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook daginn eftir að frétt Kjarnans birtist að honum þætti afar „einkennilegt að það geti samrýmst markmiðum um efnahagslegan stöðugleika og þjóðarhagsmuni að selja erlendum aðilum bankana“. Ástæðan væri sú að erlendur kaupandi gæti sogað hundruði milljarða króna í gjaldeyri út úr hagkerfinu í formi arðgreiðslna. Það er reyndar svo, samkvæmt samþykktri tillögu Glitnis um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda, að þau geta gert kröfu um takmarkanir á arðgreiðslum í gjaldeyri til erlendra eigenda til að verja greiðslujöfnuð.
Slitabú föllnu bankana eiga Íslandsbanka og Arion banka að mestu leiti og áforma að selja þá á þessu ári ef aðstæður...Posted by Frosti Sigurjonsson on Tuesday, June 9, 2015
Í síðustu viku gerðu Stöð 2 og Fréttablaðið skoðanakönnun um hvort almeningur vildi frekar að Íslandsbanki og Arion banki yrðu seldir til íslenskra eða erlendra fjárfesta. Stór hluti svarenda, alls 44 prósent, voru óákveðnir eða kusu að svara ekki. En á meðal þeirra sem tóku afstöðu var viljinn skýr: átta af hverju tíu vildu að innlendir aðilar myndu fá að kaupa bankana tvo en einungis tveir af hverjum tíu vildu að þeir verði í erlendri eigu.
Ánægja með samkomulag við stjórnvöld
Allt þetta hefur haft áhrif á hversu mikil áhersla verður lögð á að ljúka sölu á Íslandsbanka sem fyrst. Það er mat áhrifamanna innan kröfuhafahóps Glitnis að það þjóni ekki tilgangi að reyna að hraða sölu á Íslandsbanka strax í ljósi þess hversu umdeild hún geti orðið, bæði pólitískt og hjá almenningi. Sérstaklega í ljósi þess að töluverð ánægja er á meðal þeirra með það samkomulag sem náðst hefur við stjórnvöld um undanþágu frá höftum til að ljúka nauðasamningum. Mikil vinna er framundan við útfærslu á tillögum slitastjórnarinnar og salan á Íslandsbanka er einungis einn angi þeirrar vinnu.
Það breytir því ekki að það er fjárfestahópur sem hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á 95 prósent hlut slitastjórnar Glitnis í Íslandsbanka og það er vilji fyrir því að sá hópur nái að ljúka þeim kaupum í nánustu framtíð. Gangi þau kaup ekki eftir mun slitastjórn Glitnis reyna að skrá Íslandsbanka á markað erlendis, líklega í Svíþjóð eða Noregi, og selja bankann þannig til erlendra aðila fyrir gjaldeyri.
Vilja fá erlenda eigendur
Í erindi kröfuhafa Glitnis, sem stjórnvöld hafa samþykkt að uppfylli stöðugleikaskilyrði þeirra, kemur nefnilega mjög skýrt fram að vilji þeirra stendur til að selja Íslandsbanka til erlendra aðila. Ramminn til að selja bankann er reyndar rúmur samkvæmt erindinu, bankinn þarf að seljast fyrir árslok 2016. Heimildir Kjarnans herma hins vegar að allar áætlanir miði við að sala á bankanum verði kláruð á þessu ári.
Það er mjög arðbært fyrir bæði íslenska ríkið og kröfuhafa Glitnis ef bankinn verður seldur til erlendra aðila fyrir erlendan gjaldeyri. Í erindi kröfuhafa Glitnis segir: „Verði Íslandsbanki seldur til erlendra aðila skal 60% söluandviris renna til stjórnvalda í erlendri mynt, en þó ekki meira en sem nemur 60% af bókfærðu virði bankans.“ Auk þess er gerð krafa um að Íslandsbanki verði í erlendu eignarhaldi í að minnsta kosti fimm ár.
Það er líka áhugi hjá stjórnendum Íslandsbanka á því að fá erlenda eigendur. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í Morgunútgáfunni á RÚV á fimmtudag að það væri ágætt ef einn banki væri í erlendri eigu að hluta eða algjörlega. Hún hafi greinilega orðið var við áhuga erlendra fjárfesta á Íslandsbanka. „Ég hef kynnt bankann fyrir utan Ísland og mér finnst ótrúlega gaman að heyra að það er áhugi á eignarhaldinu frá ýmsum aðilum[...]En auðvitað er þetta alltaf spurning um verð. Við höfum náttúrulega verið að skoða hvort skráning erlendis kæmi til greina og rætt við fjárfesta tengda því. Ég held að það séu mismunandi hópar, sem hafa velt þessu fyrir sér. Það væri ágætt að einn banki væri í erlendri eigu að einhverjum hluta eða algjörlega. Það myndi auka fjölbreytnina“ .
Arðbært að selja fyrir gjaldeyri
Líkt og áður sagði er eftir miklu að slægjast verði bankinn seldur fyrir erlendan gjaldeyri. Ef söluverðið verður bókfært virði Íslandsbanka skilar það ríkissjóði 71 milljarði króna í erlendum gjaldeyri. Það er fé sem ríkið getur notað til að greiða niður skuldir sínar og lækka fjármagnskostnað. Til viðbótar verður slitabú Glitnis þegar búið að greiða ríkissjóði 37 milljarða króna arðgreiðslu til að lækka eigið fé Íslandsbanka fyrir sölu.
Verði bankinn seldur til innlendra aðila verður gefið út veðskuldabréf til ríkisins að andvirði 119 milljarðar króna. Skuldabréfið er till þriggja ára og ber 5,5 prósent vexti. Ríkið fær þriðjung þess söluhagnaðar sem verður til á bilinu 85 til 119 milljarðar króna. Upphæðin hækkar síðan eftir því sem Íslandsbanki selst fyrir meira fé. Þótt um sé að ræða hærri upphæð í krónum talið en ef Íslandsbanki verður seldur til erlendra aðila er þetta fé ekki jafn „verðmætt“ fyrir íslensk stjórnvöld vegna þess að það er ekki hægt að nota það til að greiða niður erlendar skuldir, líkt og væri hægt með gjaldeyrinn sem erlendir kaupendur myndu borga með.
Mikil vinna eftir
Þótt að mikill áhugi sé hjá þeim erlendu aðilum sem sýnt hafa Íslandsbanka áhuga er ljóst að mikil vinna er eftir áður en að hægt verður að ljúka kaupunum. Þeir eiga eftir að fara yfir gögn sem verða þeim aðgengileg í gagnaherbergi Íslandsbanka til að staðreyna stöðu bankans og framtíðarmöguleika. Þeir eiga eftir að samþykkja þær takmarkanir sem stjórnvöld munu setja á arðgreiðslur í gjaldeyri til að vernda greiðslujöfnuð og þeir eiga eftir að verða samþykktir sem hæfir eigendur af Fjármálaeftirlitinu.