Fólk með lágar tekjur kýs helst Pírata en stuðningur við Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu og Framsóknarflokk er mestur hjá hátekjuhópum samfélagsins. Vinstri grænir og Framsóknarflokkur sækja þorra síns fylgis á landsbyggðina á meðan að Samfylkingin er miklu sterkari á höfuðborgarsvæðinu en á öðrum svæðum landsins. Ungt fólk styður Pírata, Vinstri græn eða Bjarta framtíð en fylgi við Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu og Framsóknarflokk er mun meira hjá eldra fólki en því sem yngra er. Þetta er meðal þess sem kemur þegar fylgi stjórnmálaflokka samkvæmt könnunum MMR er greint eftir hópum.
Könnun fyrirtækisins, sem birt var í gær, sýndi Pírata með 32,7 prósent fylgi, Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna með fylgi á pari við það sem flokkarnir fengu í verstu kosningunum sínum frá upphafi, Framsókn með lægsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með frá því að skipt var um formann snemma árs 2009 og að Björt framtíð er áfram í frjálsu falli.
Ungir kjósa Pírata, gamlir stjórnarflokkanna
Það kemur kannski fæstum á óvart að Píratar, sem mælast nú þriðju könnunina í röð sem langstærsti flokkur landsins, sækja mest af sínu fylgi til ungs fólks. Í aldurshópnum 18-29 ára segjast 44,5 prósent kjósa þá ef gengið yrði að kjörborðinu í dag. Það vekur samt sem áður athygli að stuðningur við Pírata er umtalsverður í eldri aldurshópum líka. Um 24 prósent fólks yfir 50 ára aldri segist styðja flokkinn.
Einu flokkarnir utan Pírata sem mælast með meira fylgi hjá ungu fólki en því sem eldra er eru Vinstri græn og Björt framtíð. Hvorugur flokkurinn getur þó verið ánægður með heildarfylgi sitt um þessar mundir.
Þrír rótgrónustu flokkar landsins eiga hins vegar augljóslega við mikinn vanda að stríða. Þeir höfða ekki til ungra kjósenda. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hjá fólki á aldrinum 18-29 ára mælist til að mynda einungis 12,5 prósent. Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni hjá flokki sem alltaf hefur lagt upp með öflugt flokkastarf og starfrækt mjög öflugar ungliðahreyfingar.
Þorri fylgis Sjálfstæðisflokksins kemur frá fólki yfir fimmtugu. Þar segist um 30 prósent aðspurðra ætla að kjósa flokkinn.
Þótt skilin séu ekki jafn skörp hjá Samfylkingunni er vandamálið hins vegar það sama þegar horft er á aldursdreifingu kjósenda. Í aldurshópnum 18-29 ára er flokkurinn jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn, með 12,5 prósent fylgi. Mest fylgi sækir Samfylkingin hins vegar í aldurshópinn 68 ára og eldri. Þar nýtur flokkurinn 18,6 prósent fylgis.
Framsóknarflokkurinn mælist nú með lægsta fylgi sem hann hefur haft síðan að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók við formennsku í flokknum, eða 8,6 prósent. Af tölum MMR að dæma þá er enginn flokkur sem glímir við jafn hraða úreldingu og hann.
Framsóknarflokkurinn er langvinsælastur hjá þeim kjósendum sem eru yfir 68 ára aldri, 13,5 prósent þeirra segjast myndu kjósa flokkinn.
Þegar horft er á skiptingu fylgis milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins eru mestu öfgarnar hjá annars vegar Samfylkingu og hins vegar Framsóknarflokki. Þ.e. Samfylkingin sækir langstærstan hluta síns fylgis til höfuðborgarsvæðisins en Framsóknarflokkurinn er miklu sterkari á landsbyggðinni en í þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins.
Enginn í lægsta tekjuhóp kýs Bjarta framtíð, milljónafólkið styður stjórnina
MMR greinir líka fylgi flokka eftir tekjuhópum. Þar kemur í ljós að Píratar höfða mjög sterkt til þeirra sem eru með lægstu tekjurnar. Alls segjast 53,1 prósent þeirra sem eru með heimilistekjur undir 250 þúsund krónum á mánuði að þeir myndu kjósa Pírata og um 40 prósent þeirra sem eru með tekjur á bilinu 250 til 600 þúsund krónur.
Ein mest sláandi breytan í nýjustu könnun MMR, sem alls 932 einstaklingar svöruðu, er sú að enginn, ekki einn aðspurður, sem hefur heimilistekjur undir 250 þúsund krónum myndi kjósa Bjarta framtíð. Flokkurinn mælist með 0,0 prósent fylgi í hópnum. Um fimmti hver í þessum tekjuhópi myndi kjósa ríkisstjórnarflokkanna og fjórði hver sem er með tekjur á bilinu 250 til 399 þúsund krónur. Það blasir því við að lægstu tekjuhóparnir deila ekki þeirri skoðun ríkisstjórnarinnar að Íslendingar hafi aldrei haft það jafn gott og nákvæmlega núna.
Eini flokkurinn sem er með nokkuð normaldreift fylgi eftir tekjuhópum eru Vinstri grænir. Sjálfstæðisflokkurinn sækir þorra síns fylgis til þeirra sem eru með yfir 800 þúsund krónur í mánaðartekjur. Raunar er flokkurinn sá eini sem nýtur alltaf vaxandi fylgis eftir því sem tekjur hækka og eini tekjuhópurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins hjá er sá sem er með yfir eina milljón króna í mánaðartekjur.
Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, er með jafnara fylgi á milli tekjuhópa en það vekur þó athygli að flokkurinn er með langmest fylgi annars vegar hjá hópnum sem er með á milli 800 til 999 þúsund krónur á mánuði (20,1 prósent) og þeim sem þéna yfir milljón krónur á mánuði (13,6 prósent). Þessar tölur gefa staðalímyndinni um elítu-jafnaðarmennina eða „Epal-kommann“ sem séu úr tengslum við grasrót verkalýðsins byr undir báða vængi.
Ef Framsóknarflokkurinn telur sig vera að bjóða upp á stefnu sem á að höfða til lág- og millitekjuhópa þá endurspeglast það ekki í fylgi flokksins. Það er langlægst hjá þeim hópum sem eru með á milli 250 og 599 þúsund krónur í mánaðartekjur og undir heildarfylgi hjá þeim lægstlaunuðustu.
Fylgið rýkur hins vegar upp þegar fylgispekt hæst launuðustu hópanna er skoðuð. Mest mælist fylgið við Framsókn hjá þeim sem eru með yfir milljón krónur í mánaðarlaun, eða 12,6 prósent. Það er heilum fjórum prósentustigum yfir heildarfylginu.
Kjósendur flýja Framsókn og Bjarta framtíð
En hvaðan er allt þetta fylgi Pírata að koma? Hvaða kjósendur eru það sem mynda þennan 32,7 prósent stofn sem vill nú kjósa flokkinn? Í stuttu máli þá kemur fylgið frá öllum hinum, auk þess sem nánast allir sem kusu Pírata síðast ætla að kjósa þá aftur núna. Rúmlega helmingur þeirra sem kusu Bjarta framtíð í síðustu alþingiskosningum ætlar nú að kjósa Pírata og um þriðjungur þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn.
Þeir flokkar sem eru að upplifa mestan fylgisflótta frá síðustu kosningum eru einmitt þessir tveir flokkar. Einungis 43,1 prósent þeirra sem kusu Framsókn þá myndu kjósa flokkinn nú. Hjá Bjartri framtíð er staðan enn verri, sérstaklega þegar horft er til þess að flokkurinn er í stjórnarandstöðu. 35,3 prósent þeirra sem kusu flokkinn vorið 2013 myndu gera það í dag.