Íbúðalánasjóður hefur einungis lánað út tæpa 4,3 milljarða króna það sem af er þessu ári í almenn útlán. Á sama tíma nema uppgreiðslur á lánum sjóðsins 24,2 milljörðum króna. Samtals nema uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs frá byrjun árs 2009 og út nóvember 2014 99,4 milljörðum króna.
Þetta er hægt að sjá með því að skoða mánaðarskýrslur Íbúðalánasjóðs á tímabilinu. Í þeim er upplýst um hver almenn útlán sjóðsins voru í hverjum mánuði fyrir sig og hversu háar uppgreiðslur á lánum sjóðsins voru.
Hefur kostað ríkið 53,5 milljarða króna frá 2009
Vandamál Íbúðalánasjóðs hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarin ár. Frá árinu 2009 hefur ríkið þurft að leggja Íbúðalánasjóði til 53,5 milljarða króna til að halda honum gagnandi. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um nýsamþykkt fjárlög fyrir árið 2015 er vakin athygli á því að gert sé ráð fyrir að árlegt tap sjóðsins verði um eða yfir þrír milljarðar króna næstu fimm árin, eða samtals um 15 milljarðar króna hið minnsta.
Þar segir einnig að allt stefni í að heildarlánveitingar Íbúðalánasjóðs nemi einungis sjö milljörðum króna á árinu á meðan að uppgreiðslur eldri lána hafi verið um 27 milljarðar króna. „Sjóðurinn veitti einungis 246 almenn íbúðalán á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 en slík lán voru 468 á sama tímabili 2013. Þessi þróun bendir til þess að hlutverk sjóðsins á íslenskum húsnæðismarkaði fari hratt minnkandi,“ segir enn fremur í álitinu.
Íbúðalánasjóður hefur einungis lánað 4,3 milljarða króna í almenn útlán það sem af er ári. Uppgreiðslur lána nema 24,2 milljörðum króna.
Einn tíundi af lánum ársins 2008
Íbúðalánasjóður lánar bæði húsnæðislán, sem eru svokölluð almenn íbúðarlán, og til byggingaframkvæmda. Í skýrslum sem sjóðurinn birtir á heimasíðu sinni mánaðarlega er rakið hversu mikið hann lánar út í hverjum mánuði og hversu háa fjárhæð skuldarar hans hafa ákveðið að greiða upp meðal annars vegna þess að þeir eru að taka ný húsnæðislán hjá viðskiptabanka og þar af leiðandi að hætta í viðskiptum við Íbúðalánasjóð.
Kjarninn tók saman almenn útlán Íbúðalánasjóðs frá árinu 2008 og fram til dagsins í dag. Þar kemur í ljós að á hrunárinu 2008 lánaði sjóðurinn alls út 48,8 milljarða króna í almenn íbúðalán. Það sem af er árinu 2014 hefur hann lánað tæpa 4,3 milljarða króna, eða tæplega einn tíunda af því sem hann lánaði árið 2008. Frá byrjun árs 2011 og út nóvember síðastliðinn lánaði Íbúðalánasjóður 41,8 milljarð króna í almenn útlán. Það þýðir að á fjögurra ára tímabili lánaði sjö milljörðum krónum minna en hann gerði á árinu 2008. Umfang almennra lána hefur líka farið hríðlækkandi. Í nóvember lánaði sjóðurinn aðeins 339 milljónir króna í almenn útlán. Nóvember var samt sjötti besti mánuður ársins ef mælt er eftir umfangi útlána.
Uppgreiðslur mikið vandamál
Minnkandi eftirspurn eftir lánum Íbúðalánasjóð er vandamál. En stærra, og kostnaðarsamara vandamál, eru griðarlegar uppgreiðslur lána. Á árinu 2004 var nefnilega gerð breyting á fjármögnun Íbúðalánasjóðs. Í henni fólst að sjóðurinn var látinn gefa út skuldabréf til að fjármagna útlán sín. Um mitt þetta ár var umfang þeirrar útgáfu 820 milljarðar króna. Kaupendur þessarra skuldabréfa, sem eru að stórum hluta íslenskir lífeyrissjóðir, fá síðan greidda verðtryggða vexti af skuldabréfunum. Í staðinn á Íbúðalánasjóður að endurlána peninganna sem greiddir eru fyrir skuldabréfin til húsnæðiskaupenda á hærri vöxtum og búa með þeim hætti til hagnað. Þegar breytingarnar voru gerðar árið 2004 var ákveðið að skuldabréf Íbúðalánasjóðs ættu ekki að vera innkallanleg. Það þýðir að Íbúðalánasjóður má ekki greiða þau upp fyrir lokagjalddaga þeirra.
Með öðrum orðum þá borgar Íbúðalánasjóður fyrir fjármagnið sem hann sýslar með, en græðir ekki neitt á stórum hluta þess.Vandamálið í þessari útlánakeðju er að lánin sem Íbúðalánasjóður lánar viðskiptavinum sínum eru uppgreiðanleg. Þegar viðskiptavinirnir ákveða að greiða þau upp í stórum stíl, líkt og gerst hefur á undanförnum árum, þá hættir Íbúðalánasjóður að hafa vaxtatekjur af fjármagninu sem hann sótti með skuldabréfaútgáfu en er áfram með vaxtakostnað vegna hennar. Með öðrum orðum þá borgar Íbúðalánasjóður fyrir fjármagnið sem hann sýslar með, en græðir ekki neitt á stórum hluta þess. Þannig tapar hann háum summum ár frá ári og ríkið, sem er eigandi sjóðsins og ber ábyrgð á honum, þarf að stíga inn og halda honum á floti með skattfé. Að minnsta kosti þar til annað er ákveðið á hinu pólitíska sviði.
90 milljarðar í uppgreiðslu frá 2010
Uppgreiðslur á almennum lánum hafa verið hraðar á undanförnum árum. Frá árinu 2010 hafa alls 90 milljarðar króna komið inn í Íbúðalánasjóð vegna uppgreiðslu lána. Á sama tíma nema útlán sjóðsins 66,3 milljörðum króna. Munurinn er 23,7 milljarðar króna.
Verst hefur ástandið verið í ár, 2014. Þá hafa viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs greitt upp lán fyrir 24,2 milljarða króna á sama tíma og sjóðurinn hefur einungis lánað út 4,3 milljarða króna í almenn íbúðalán. Munurinn er um 20 milljarðar króna. Fá teikn virðast vera á lofti um að árið 2015 verði gjöfulla fyrir Íbúðalánasjóð þar sem flestir húsnæðiskaupendur virðast leita til annarra lánveitenda, viðskiptabanka og lífeyrissjóða, til að fjármagna íbúðakaup sín.
Eygló Harðardóttir,
félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur tilkynnt að frumvarp um framtíðarskipan húsnæðismála verði lagt fram í nánustu framtíð.
Verður Íbúðalánasjóður lagður niður?
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála sem skilaði tillögum fyrr á þessu ári. Í þeim var meðal annars lagt til að Íbúðalánasjóður yrði lagður niður í núverandi og nýtt fyrirkomulag tekið upp. Til stóð að leggja fram frumvarp um málið á haustþingi en af því varð ekki, enda sumar tillögur verkefnastjórnarinnar mjög umdeildar innan stjórnarflokkanna.
Búist er við því að frumvarpið verði lagt fram á vorþingi.
Í vikunni bættist svo enn ein röddin í gagnrýnishóp Íbúðalánasjóðs þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til að stjórnvöld myndu huga að því að leysa upp sjóðinn til að lágmarka kostnað ríkisins og þá kerfisáhættu sem hlýst af sjóðnum.