Hlutafé í Þórsmörk, eiganda útgáfufélagsins Árvakurs sem heldur úti Morgunblaðinu, mbl.is og K100, var aukið um 100 milljónir króna þann 31. janúar síðastliðinn. Í þeim gögnum sem skilað hefur verið inn til fyrirtækjaskrár vegna aukningarinnar kemur ekki fram hver greiddi fyrir hlutafjáraukninguna og breytingar á eignarhaldi hafa ekki verið tilkynntar til fjölmiðlanefndar líkt og lög gera ráð fyrir.
Upplýsingar um eignarhald útgáfufélagsins sem eru þar aðgengilegar voru síðast uppfærðar 17. júlí 2020. Í lögum um fjölmiðla segir að við sölu á hlut í fjölmiðli beri að tilkynna um hana „innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings“. Sá frestur rann fyrir fyrir rúmum mánuði.
Þetta er í þriðja sinn frá árinu 2019 sem nýtt hlutafé er sett inn í rekstur fjölmiðlasamsteypunnar til að mæta taprekstri hennar. Í byrjun árs 2019 var hlutaféð aukið um 200 milljónir króna. Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirrar aukningar. Sumarið 2020 var hlutaféð aukið um 300 milljónir króna og kom allt féð frá þeim eigendahópi sem var þegar til staðar. Að viðbættri þeirri hlutafjáraukningu sem ráðist var í í upphafi árs hefur móðurfélagi Árvakurs því verið lagt til 600 milljónir króna á þremur árum.
Kaupin sögð á viðskiptalegum grunni
Árvakur var tæknilega gjaldþrota fyrirtæki eftir bankahrunið og í nokkurs konar gjörgæslu nýstofnaðs Íslandsbanka. Um jólin 2008 fékk hluti eftirstandandi starfsmanna til að mynda ekki laun fyrr en langt var liðið að jólum og eftir að bankinn ákvað að veita útgáfufélaginu, sem var gríðarlega skuldsett, viðbótarfyrirgreiðslu.
Frá þessum tíma og til loka árs 2020 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.
Milljarðar afskrifaðir
Viðskiptabanki Árvakurs, Íslandsbanki, afskrifaði um 3,5 milljarða króna af skuldum félagsins í aðdraganda þess að félagið var selt nýjum eigendahópi. Síðari lota afskrifta af skuldum Árvakurs við bankann átti sér svo stað árið 2011 og var upp á einn milljarð króna.
Í maí 2019 var ákveðið að lækka hlutafé í Þórsmörk um einn milljarð króna. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar var það gert til jöfnunar á tapi.
Við það lækkaði hlutafé Þórsmerkur úr 1,6 milljarði króna í 606,6 milljónir króna. Það þýddi að eigendur félagsins hafa afskrifað milljarð af því fjármagni sem þeir settu inn í félagið. Síðan þá hefur hlutaféð verið aukið um samtals 400 milljónir króna til að mæta áframhaldandi taprekstri.
Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Árvakurs, fyrir árið 2020, var rekstrartap félagsins 210,3 milljónir króna á því ári. Það er aðeins minna rekstrartap en árið áður þegar það var 245,3 milljónir króna.
Óvissa um rekstrarhæfi Árvakurs
Sá munur var á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla árið 2020 miðað við árið 2019 að á fyrrnefnda árinu ákvað Alþingi að veita rekstrarstuðning til þess að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldursins, og studdi við fyrirtæki með ýmsum öðrum hætti.
Rekstrarstyrkurinn sem Árvakur fékk nam alls 99,9 milljónum króna, en eitt hundrað milljóna króna þak var á styrkjum til hvers fjölmiðlafyrirtækis. Því má ætla að rekstrartapið hafi verið yfir 300 milljónir króna ef ekki hefði verið fyrir rekstrarstyrkinn.
Í ársreikningi Árvakurs fyrir árið 2020 sagði að á því ári hafi verið „unnið að hagræðingaraðgerðum í rekstri félagsins til að mæta þeim rekstrarvanda sem einkareknir fjölmiðlar hér á landi búa við og mun verða haldið áfram á þeirri vegferð til að ná jafnvægi í rekstri þess, en hvenær það næst er erfitt að meta með áreiðanlegum hætti. Það er mat stjórnenda félagsins að ekki sé vafi á rekstrarhæfi félagsins eins og staða þess er í dag. En gangi áætlanir stjórnenda ekki eftir ríkir ákveðin óvissa um rekstrarhæfi félagsins til lengri tíma.“
Lestur meira en helmingi minni en þegar nýir ritstjórar tóku við
Um haustið 2009 var Ólafur Stephensen rekinn sem ritstjóri Morgunblaðsins og tveir ráðnir í hans stað, þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen. Þeir stýra enn blaðinu og eru langlaunahæstu fjölmiðlamenn landsins. Samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í ágúst í fyrra var Davíð með tæpar 5,5 milljónir króna á mánuði í laun árið 2020. Þess má geta að hluti launa Davíðs eru eftirlaun frá því hann var ráðherra og þingmaður. Eftirlaun Davíðs eru 80 prósent af launum forsætisráðherra en hann fær einnig eftirlaun vegna starfa sinna sem seðlabankastjóri eftir að hann hætti á þingi. Haraldur, sem er líka framkvæmdastjóri Árvakurs, var með rúmar 3,2 milljónir króna í laun á mánuði.
Þegar nýju eigendurnir tóku við rekstrinum var Morgunblaðið, flaggskip útgáfunnar, lesið af rúmlega 40 prósent þjóðarinnar. Í síðustu birtu mælingu Gallup á lestri prentmiðla var sá lestur kominn niður í 18,6 prósent og hefur aldrei mælst lægri. Vefur útgáfunnar, Mbl.is, var lengi vel mest lesni vefur landsins en á síðustu misseri hefur Vísir.is, vefur í eigu Sýnar, stöðugt mælst með fleiri notendur.
Eignarhlutur færður til borgarfulltrúa
Líkt og áður sagði hafa orðið breytingar á eigendahópnum á undanförnum árum. Stærsti eigandinn fyrir síðustu hlutafjáraukningu voru Guðbjörg Matthíasdóttir og börn hennar, í gegnum félögin Hlyn A og Ísfélag Vestmannaeyja. Samanlagt átti sá hópur 25,5 prósent hlut. Næst stærsti eigandinn eru Íslenskar Sjávarafurðir, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, með 19,4 prósent eignarhlut.
Samherji, Síldarvinnslan og Vísir seldu sína hluti í Árvakri árið 2017 til Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Alls var um að ræða 26,62 prósent eignarhlut. Stærsti bitinn var 18,43 prósent hlutur sem Eyþór keypti af félagi Samherja, sem ber nafnið Kattanef ehf. Eyþór lagði ekkert út fyrir kaupunum heldur veitti seljandinn honum seljendalán.
Lánið féll á gjalddaga árið 2020 og Kattarnef hefur afskrifað það að fullu. Í ársreikningi félags Eyþórs, Ramses ehf, kom fram að gjaldfallnar afborganir félagsins hafi numið alls 386,8 milljónum króna í árslok 2020. Í fyrra náðist svo samkomulag á milli félagsins Ramses II, sem er í fullri eigu Eyþórs, og félagsins Kattarnefs um að annað félag í eigu Eyþórs, sem heitir Ramses, keypti kröfuna sem Kattarnef átti á Ramses II. Virði hennar var, líkt og áður sagði, krónur núll í bókum Kattanefs.
Hlutur Eyþórs í Árvakri hefur rýrnað vegna ítrekaðra hlutafjárinnspýtinga annarra hluthafa og fyrir nýjustu aukninguna var Eyþór eigandi 13,41 prósents hlutar í útgáfufélaginu. Sá eignarhlutur var metinn á 82,4 milljónir króna í lok árs 2020 og hefur lækkað um meira en 100 milljónir króna í virði frá árslokum 2017.
Samkeppniseftirlitið hefur opinberlega gert athugasemdir við þróun eignarhalds á stærri fjölmiðlafyrirtækjum landsins. Í umsögn um frumvarp um rekstrarstyrki til fjölmiðla, sem skilað var inn til Alþingis í byrjun árs 2020, sagði að „eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur í vaxandi mæli þróast á þann veg að eignarhaldið hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að ljá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang.“