Hluthafar í þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem veitt hafa makríl í íslenskri lögsögu á undanförnum árum bíða nú spenntir eftir því hvort sjávarútvegsráðherra kvótasetji makrílinn varanlega. Ákvörðun um þetta gæti komið fram í vetur. Fram að þessu hefur makrílkvótanum einungis verið úthlutað til eins árs í senn - að vori fyrir komandi vertíð sem stendur venjulega frá júní og fram í september. Þessi „skammtímaúthlutun“ hefur breyst nokkuð á síðustu árum. Að vísu hafa uppsjávarskipin sem hafa mestu aflareynsluna alltaf fengið hlutfallslega mest en þó hefur hlutdeild smábátaflotans aukist nokkuð, sérstaklega jókst hún í ár. Í ár var makrílkvótinn sem Ísland úthlutaði sér tæp 168 þús tonn. Uppsjávarskipin sem hafa mesta aflareynslu fengu 69,8% af kvótanum, frystitogarar fengu 20,8%, ísfiskskip fengu 5,4% og smábátar 4,1%.
Ekkert samkomulag í N-Atlantshafi
Þjóðirnar sem veiða makríl í N-Atlantshafi hafa ekki getað komið sér saman um skiptingu á makrílkvótanum. Það hefur leitt til þess að heildaraflinn hefur verið talsvert umfram ráðgjöf ICES. Á meðan enn er ósamið um makrílkvótann þykir mörgum eðlilegt að hann sé ekki settur varanlega inní kvótakerfið. Á hinn bóginn hefur aflareynsla vegið þungt þegar nýjar tegundir eru kvótasettar innan fiskveiðistjórnunarkerfisins á Íslandi. Yfirleitt hefur það verið gert án sérstaks endurgjalds. Nýlegt dæmi er úthlutun í varanlega kerfið á blálöngukvóta. Þar nutu útgerðir á Suður- og Vesturlandi þess að sú tegund veiddist að mestu leyti úti fyrir Suður- og Vesturlandi fyrstu árin þótt útbreiðslan hafi aukist á síðari árum. Í því tilfelli þurftu þær útgerðir sem fengu kvóta úthlutaðan ekki að greiða neitt sérstakt gjald heldur nutu aflareynslu áranna á undan.
Makrílúthlutun
[table file="https://docs.google.com/spreadsheets/d/1fm7q_XSgaaBa1Aj8FBqJoJ3RiU1apL6Fskflcd6mx5s/export?format=csv"][/table]
Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi þegar kemur að makrílnum. Tegundin er verðmæt og má segja að stóru uppsjávarfyrirtækin sem hafa mestu aflareynsluna við veiðar á makríl hafi hagnast mikið á síðustu árum með tilkomu hans inn í lögsöguna. Með tilkomu makrílsins hefur verkefnastaða uppsjávarskipa aukist til muna. Mikil fjárfesting hefur einnig átt sér stað innan fyrirtækjanna til að getað búið til sem mest verðmæti úr aflanum.
Ýmsar leiðir eru til staðar við úthlutun makrílskvótans hjá nágrannaþjóðum. Þannig hafa stjórnvöld í sumum nágrannaríkjum okkar ákveðið að leggja á sérstakt leigugjald á hvert tonn sem er veitt af makríl. Það gerðu t.a.m. Grænlendingar í ár og höfðu nokkuð miklar tekjur af því. Færeysk stjórnvöld hafa boðið út hluta kvótans í upphafi hverrar vertíðar til hæstbjóðanda og þannig tryggt sér tekjur af veiðunum.
Kvótinn gríðarlega verðmætur
Erfitt er að meta virði íslenska makrílkvótans. Líklegt er að hann sé ekki síður verðmætur heldur en kvóti í öðrum tegundum við Ísland. Í ár veiddu Íslendingar óvenju mikið en búast má við því að kvótinn gæti minnkað á komandi árum. Það fer þó allt eftir ástandi stofnsins og einnig hvort við náum samningum við nágrannaþjóðir okkar um skiptingu hans. Ljóst er þó að virði kvótans hleypur á tugum milljarða, sumir segja hann jafnvel yfir 100 milljarða virði. Það er því mikið í húfi. Besta niðurstaðan fyrir hluthafana í þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem mesta reynsluna hafa væri sú að þeir fengju einfaldlega makrílkvótanum úthlutað endurgjaldslaust byggt á aflareynslu síðustu ára. Ef þetta yrði niðurstaðan kæmu hluthafar í fyrirtækjum á borð við HB Granda, Síldarvinnslunni, Ísfélagi Vestmannaeyja, Samherja, Vinnslustöðinni, Skinney-Þinganess, Eskju og Gjögur vel út.
Stór ákvörðun
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra þarf að skoða ýmsa þætti málsins gaumgæfilega áður en hann tekur þá stóru ákvörðun hvernig eða þá hvort hann mun úthluta makrílkvótanum varanlega . Hugsanlega vill hann skoða aðferðir Grænlendinga og Færeyinga sem hafa lagt áherslu á að ríkissjóður fái hlutdeild í arðinum sem skapast hefur með tilkomu makrílsins. Kæmi til greina að fresta varanlegri úthlutun og bjóða einfaldlega hluta kvótans upp til árs í senn líkt og Færeyingar gera? Eða jafnvel bjóða upp kvótann til nokkurra ára í senn?
Eitt er víst að spennandi verður að fylgjast með því hvaða leið sjávarútvegsráðherra velur við úthlutun þessarar verðmætu tegundar sem svo óvænt byrjaði að veiðast innan lögsögunnar fyrir tiltölulega fáum árum.