„Háseta vantar á bát“ var ein þeirra tilkynninga sem iðulega mátti heyra á árum áður í Ríkisútvarpinu og er einskonar samnefnari íslenskra atvinnuauglýsinga, ásamt kannski „Ráðskona óskast í sveit“. Auglýsingar af þessu tagi heyrast vart lengur í útvarpinu, nú er það netið og atvinnusíður dagblaðanna (sem líka eru á netinu) sem fólk í atvinnuleit skoðar.
Í Danmörku er ekki hefð fyrir atvinnuauglýsingum á ljósvakanum, enda engar auglýsingar í flestum slíkum miðlum þar í landi. Öðru máli gegnir um dagblöðin. Mörg þeirra birta atvinnuauglýsingar í sérstökum aukablöðum, gjarna um helgar. Í þessum aukablöðum birtast auglýsingar frá fyrirtækjum, sem vantar fólk, og sömuleiðis frá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í mannaráðningum. Þetta er svipað fyrirkomulag og við þekkjum hér á landi.
Skin og skúrir
Í Danmörku hafa skipst á skin og skúrir í atvinnumálum. Í heimskreppunni í kringum 1930 var mikið atvinnuleysi, mest 24.8 prósent árið 1932. Á 6. áratug síðustu aldar var mikið atvinnuleysi um tíma en síðan dró úr því. Jókst talsvert á árunum 1974 og 1975 og aftur upp úr 1980.
Eins og í mörgum löndum jókst atvinnuleysi á „hrunárunum“ svonefndu eftir 2008 og fram til ársins 2013. Eftir það lá leiðin upp á við, fram að heimsfaraldrinum svonefnda.
Tugþúsundir fóru til heimalandsins
Þegar heimsfaraldurinn dundi yfir heimsbyggðina misstu tugþúsundir erlendra ríkisborgara sem starfað höfðu í Danmörku, einkum á veitingastöðum, hótelum og ýmsu tengt ferðaþjónustu og verslun ásamt byggingariðnaði skyndilega vinnuna og ákváðu að snúa til heimalandsins. Það sem iðulega er nefnt „hjól atvinnulífsins“ snerust allt í einu á hálfum hraða eða í sumum tilvikum mun hægar.
Svo reis landið á ný
Vorið 2021 birti til. Eins og hendi væri veifað fór flest í fullan gang. Ferðafólk flykktist til Danmerkur á nýjan leik og hótelin höfðu vart undan að taka á móti pöntunum, byggingaiðnaðurinn kipptist við, pantanir eftir alls kyns varningi, allt frá vindmyllum til vasaúra streymdu inn, veitingastaðirnir lifnuðu við, göngugötur og verslanir fylltust af fólki. Blaðamaður Berlingske lýsti þessu þannig að Danmörk væri laust úr viðjum. Bætti við að þessi lýsing væri ekki bundin við Danmörku, hún ætti við stærstan hluta heimsins. Uppsveiflan kallaði á fleira fólk til starfa, margt fólk. Tugþúsundir.
Atvinnurekendur áhyggjufullir
Um miðjan júní árið 2021 greindi dagblaðið Berlingske frá könnun sem blaðið hafði gert meðal 150 danskra fyrirtækja. Viðkomandi voru öll meðal 1000 stærstu fyrirtækja landsins. Rúmlega 20 prósent þeirra sem tóku þátt í þessari könnun sögðust á undanförnum mánuðum hafa orðið að segja nei við pöntunum vegna skorts á starfsfólki. Af sömu ástæðu sögðust 27 prósent til viðbótar sjá fram á að geta ekki afgreitt allar pantanir sem bærust. Til viðbótar sögðust 32 prósent óttast skort á starfsfólki þótt þetta slyppi, eins og það var orðað, í augnablikinu.
Hvað er til ráða?
Þeir Danir sem eru að svipast um eftir atvinnu hafa úr mörgu að velja. Um þessar mundir vantar tugþúsundir fólks í öll möguleg störf. Nánast sama hvert litið er, það vantar alls staðar fólk nema í bankastarfsemi.
Um það bil 100 þúsund manns eru nú á atvinnuleysisskrá. Sú tala hefur ekki verið lægri í 12 ár. Þótt hver einasta manneskja úr þessum hópi (sem er ekki raunhæfur möguleiki) færi út á vinnumarkaðinn hrykki það ekki til, og vantar mikið á.
Í viðtali fyrr í þessum mánuði sagði Brian Mikkelsen, fyrrverandi ráðherra og núverandi framkvæmdastjóri Dansk Erhverv (eitt fjölmargra samtaka atvinnurekenda) að fyrirtæki innan samtakanna vanti nú 53 þúsund starfsmenn. Hann vildi ekki giska á hve mörg laus störf væru í boði í landinu öllu en sagðist telja að þau væru vel á annað hundrað þúsund. „Hvernig er hægt að bæta úr þessu?“ spurði Brian Mikkelsen og svaraði spurningunni sjálfur „með því að ráða útlendinga til starfa“. Hann sagði jafnframt að ríkisstjórn Mette Frederiksen hefði blandað saman atvinnupólitík og útlendingapólitík. Stjórnin hefur ekki þorað að segja að erlent vinnuafl skipti miklu fyrir Danmörku, því hún óttast að verða sökuð um linkind í útlendingamálum. „Við eigum ekki að loka landinu, við eigum að opna landið enn frekar en nú er. Hvað gerir framleiðslufyrirtæki sem annar ekki eftirspurn og fær ekki starfsfólk? Það flytur til útlanda.“ Brian Mikkelsen benti á að í Evrópu eru nú um 14 milljónir atvinnulausra.