Velta í framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni hérlendis var nánast jafn mikil á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 og hún var allt árið 2011. Hún hefur vaxið gríðarlega síðastliðinn ár eftir að endurgreiðslur hins opinbera til þeirra sem ákveða að taka upp kvikmyndir, myndbönd eða sjónvarpsefni á Íslandi var hækkuð í 20 prósent af framleiðslukostnaði. Þetta kemur fram í tölum yfir veltu í skattflokki þessarar starfsemi sem Hagstofan birtir.
Endurgreiðslur skipta miklu máli
Íslenska ríkið endurgreiðir 20 prósent af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hérlendis. Þessu aðstoðarkerfi var komið á árið 1999 og var endurgreiðslan upprunalega tólf present, var síðan hækkuð í fjórtán prósent og loks upp í 20 prósent 2009.Í sinni núverandi mynd gilda lög um endurgreiðslur til ársins 2016.
Ástæða þess að þau eru einungis látin gilda til nokkurra ára í senn er sú að þá gefst yfirvöldum svigrúm til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um lögmæti endurgreiðslnanna. Svona endurgreiðslur eru nefnilega ríkisstyrkur til tiltekinnar atvinnustarfsemi og slíkur er almennt bannaður innan Evrópska Efnahagssvæðisins (EES).
Hin gríðarvinsæla þáttaröð Game of Thrones hefur að hluta til verið tekin upp á Íslandi. Þær upptökur höfðu veruleg áhrif á veltu iðnaðarins hérlendis og sköpuðu fjölmörg störf fyrir fólk í honum.
Ekki bara á Íslandi
Það eru alls ekki bara Íslendingar sem endurgreiða framleiðslukostnað með þessu móti til að lokka erlenda framleiðendur til að taka upp sitt efni hérlendis, og letja innlenda framleiðendur frá því að taka sitt efni upp erlendis. Þvert á móti er þetta gert víða um heim, meðal annars í öðrum löndum sem eru aðilar að Evrópusambandinu og þar af leiðandi hluti af EES-samningnum.
Ein ástæða þess að ESA gerir ekki athugasemdir við fyrirkomulagið eins og það er núna er sú að það eru ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla til að hljóta hana.
Ein ástæða þess að ESA gerir ekki athugasemdir við fyrirkomulagið eins og það er núna er sú að það eru ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla til að hljóta hana. Sú helsta er að endurgreiðslan sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands og náttúru eða að viðkomandi sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.
Veltan tæplega fjórfaldast
Hækkun á endurgreiðslum hefur heldur betur aukið veltu kvikmyndaiðnaðarins undanfarin ár. Árið 2008, ári áður en að endurgreiðsluhlutfallið var hækkað í 20 prósent, var heildarvelta framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni tæpir 4,5 milljarðar króna. Árið 2012 var sú velta komin upp í 13,5 milljarða króna. Hún hafði því þrefaldast á fjórum árum.
Á fyrri helmingi ársins 2014 er veltan 8,2 milljarðar króna. Eg hún yrði jafnmikil á seinni hluta þessa árs myndi veltan í ár verða 16,4 milljarðar króna, eða tæplega fjórum sinnum meiri en hún var fyrir sex árum síðan. Veltan á fyrri helmingi árs er auk þess nánast jafnmikil og hún var allt árið 2011.
Veltan á fyrri helmingi árs er auk þess nánast jafnmikil og hún var allt árið 2011.
Þessi gríðarlega aukning á veltu er að stóru leyti tilkomin vegna erlendra verkefna. Það sem af er árinu 2014 eru 83 prósent þeirra verkefna sem hafa fengið endurgreiðslu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Tölurnar hér að ofan eru allar teknar af vef Hagstofunar, sem byrjaði í ár að gefa reglulega út tölur yfir veltu í skattflokknum 59.11, sem nær yfir skattgreiðslur á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni.
„Ég hitti Illuga og við áttum ákveðnar viðræður upp á vestfirsku. Hann gerði athugasemdir við ræðuna mína, hann hefur jú málfrelsi eins og ég hef málfrelsi. Eru stjórnmálamenn ekki annars með harðan skráp?,“ sagði Benedikt Erlingsson í samtali við Kjarnann eftir að hafa gagnrýnt stjórnvöld í ræðu sinni þegar mynd hans hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
Gagnrýndi íslensk stjórnvöld harkalega
Þrátt fyrir þennan mikla uppgang í greininni ákváðu íslensk stjórnvöld að skera niður fjárframlög til kvikmyndagerðar á þessu ári um 42 prósent. Talsmenn kvikmyndaiðnaðarins hafa verið mjög opinskáir með þá skoðun sína að þessi niðurskurður geti, að þeirra mati, eyðilagt það mikla uppbyggingarstarf sem hefur átt sér stað innan hans undanfarin ár.
Benedikt Erlingsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Hross í oss, vandaði íslenskum stjórnvöldum ekki kveðjurnar þegar hann tók við kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs í vikunni. Þar hvatti hann aðra norræna ráðamenn til að nýta fokdýra eftirpartíið eftir verðlaunaafhendinguna til að útskýra fyrir íslenskum kollegum sínum, sem sátu í salnum, mikilvægi þess að standa fast að baki menningu. Ræðan fór fyrir brjóstið á Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, sem fór baksviðs eftir hana og átti orðaskipti við Benedikt.