Fyrra verðtryggingarmálið sem EFTA-dómstóllinn veitti ráðgefandi álit um verður tekið fyrir í Hæstarétti 4. maí næstkomandi. Því ætti niðurstaða þess máls, þar sem tekist er á um hvort verðtrygging neytendalána sé lögmæt, að liggja fyrir síðari hluta maí mánaðar.
EFTA-dómstólinn skilaði ráðgefandi áliti sínu í málinu í ágúst 2014 og héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í því í febrúar. Nú fer málið fyrir Hæstarétt sem kveður endanlega á um niðurstöðu þess.
Tekist á um lögmæti verðtryggingar
Málið sem um ræðir, Gunnar V. Engilbertsson gegn Íslandsbanka , snýst um hvort verðtryggingarákvæði í 4,4 milljóna króna skuldabréfi sem Glitnir, sem Íslandsbanki er reistur á, gaf út í maí 2007 vegna fasteignakaupa Gunnars sé lögmætt. Fyrir héraðsdómi Reykjavíkur hélt Gunnar því fram að verðtryggingarákvæðið væri óréttmætur skilmáli og sem slíkur andstæður tilskipun 93/13/EBE í samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið (EES).
Héraðsdómur beindi fimm spurningum til EFTA-dómstólsins og bað um ráðgefandi áliti dómstólsins á þeim. Þar var málið tekið fyrir í apríl 2014 og dómstólinn skilaði áliti sínu þan 28. ágúst síðastliðinn. Niðurstaðan var sú að verðtrygging neytendalána væri ekki í bága við Evróputilskipunina. Það væri íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort lánasamningur Gunnars væri sanngjarn.
Einar Páll Tamimi.
Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti síðan í byrjun febrúar síðastliðins þá ákvörðun sýslumanns Reykjavíkur í máli Gunnars að gera fjárnám í heimili hans vegan lánsins, en Gunnar hafði krafist þess að fjárnámið yrði afturkallað vegna þess að hann taldi verðtrygginguna ólögmæta.
Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar og nú hefur Kjarninn fengið það staðfest að aðilum málsins hafi verið tilkynnt að munnlegur málflutningur í því fari fram 4. maí næstkomandi. Því ætti að fást niðurstaða Hæstaréttar við þessari stóru spurningu um lögmæti verðtryggingarinnar í maímánuði.
Einar Páll Tamimi, lögmaður Gunnars, segir að þar sem um úrskurð sé að ræða, sem var kærður til Hæstaréttar, þá sé óvenjulegt að málið sé flutt munnlega. Vanalega sé byggt á skriflegum greinargerðum aðila málsins. Hæstiréttur hafi hins vegar heimild til þess að heimila að málið sé flutt munnlega en það en slíkt sé einungis gert í allra stærstu kærumálum. Nú hafi hann ákveðið að það verði gert í þessu máli.
Enn liggur ekki fyrir hverjir muni dæma í þessu mikla hagsmunamáli né hversu margir dómarar það verða.
Hitt málið enn eftir
Þrátt fyrir að niðurstaða sé væntanleg í þessu máli verður verðtryggingaróvissunni ekki að öllu leyti eytt. En á eftir að klára mál Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum vegna verðtryggðs neytendaláns sem hann tók haustið 2008 fyrir íslenskum dómstólum.
Því máli var einnig vísað til EFTA-dómstólsins. Í því var sömu fimm spurningunum beint til EFTA-dómstólsins en einni bætt við. Hún snýst tilskipun um hlutfallstölu kostnaðar. Á mannamáli þýðir það að þegar einhver er að taka lán þá á að koma fram hver kostnaður vegna lánsins verður. Í Evrópu myndi slík tala samanstanda af vöxtum og lántökugjaldi. Þegar íslensku bankarnir og Íbúðalánasjóður hafa verið að reikna þessa hlutfallstölu þá hefur verðtryggingin verið undanskilin, þrátt fyrir að hún hafi sannarlega áhrif á hver kostnaður lánsins verður. Við útreikningu kostnaðar hefur einfaldlega bara verið miðað við að verðbólgan sé 0 prósent.
EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í lok nóvember 2014 að það sé ekki heimilt að miða við 0 prósent verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði ef verðbólgan er hærri eða lægri en sú tala.
EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í lok nóvember 2014 að það sé ekki heimilt að miða við 0 prósent verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði ef verðbólgan er hærri eða lægri en sú tala.
Í niðurstöðunni segir einnig að það sé landsdómstóls að meta hvaða áhrif það hafi að gefa rangar uppýsingar um heildarlántökukostnað og hvaða úrræðum sé hægt að beita til að bæta fyrir þær upplýsingar.
Þessi niðurstaða gæti haft ótrúlega víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Hæstiréttur Íslands hefur tvo valkosti í málinu: annað hvort horfir hann til fyrstu málsgreinar 14. greinar gömlu laganna okkar um neytendamál. Þá verða öll verðtryggð neytendalán ólögmæt og verðbætur vegna þeirra þarf þá væntanlega að endurgreiðast. Það þýðir að lánveitendur þurfa að borga til baka allar verðbætur vegna fasteignalána, bílalána, yfirdrátta og annarra verðtryggðra neytendalána sem tekin hafa verið frá því að tilskipun Evrópusambandsins var innleidd. Hæstiréttur getur líka horft til þriðju málsgreinar sömu laga og komist að þeirri niðurstöðu að verðtryggð lán séu ekki ólögmæt.