Sérstakur saksóknari telur hæfilegt að Hannes Smárason verði dæmdur í tveggja til þriggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt í Sterling-málinu, en munnlegum málflutningi í málinu lauk fyrir héraðsdómi í morgun. Verjandi Hannesar sakaði Helga Magnús Gunnarsson, fyrrum saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og núverandi vararíkissaksóknara, um að hafa lekið gögnum í málinu til þriðja aðila. Þau gögn hafi síðan ratað til fjölmiðla. Tilgangurinn hafi verið að skapa „réttu stemmninguna“ í kringum málið. Verjandinn, Gísli Guðni Hall, líkti þessu við lekamálið svokallaða og sagði að um skýrt lögbrot hafi verið að ræða. Með þessu hafi ákæruvaldið haft óeðlileg áhrif á rannsókn málsins. Frá þessu er greint á vef Vísis.is. Hann byggir vörn Hannesar á að ekki hafi verið sýnt fram á að bindandi fyrirmæli hafi verið gefin um millifærsluna eða ekki. Hannes sagðist sjálfur vera saklaus af ákærunni og að ekkert benti til þess að millifærslan hefði yfir höfuð átt sér stað.
Gísli Guðni Hall minntist einnig á fréttaskýringu sem birtist í hér, hér og hér.
Hannes Smárason kærði Valtý Sigurðsson, þáverandi ríkissaksóknara, og Helga Magnús Gunnarsson fyrir brot á þagnarskyldu í opinberu starfi vegna þess að gögnin voru afhent fyrrverandi hluthafa í FL Group. Málið var fellt niður sumarið 2011. Lögreglurannsókn fór auk þess fram á því hvernig gögnin rötuðu í fjölmiðla og var greinarhöfundur meðal annars beðinn um að upplýsa um hver hefði látið hann fá gögnin. Þeirri beiðni var neitað.
Millifærslan sem Hannes er sakaður um að hafa fyrirskipað á að hafa verið notuð til að borga fyrir danska flugfélagið Sterling.
Millifærsla á tæpum þremur milljörðum króna
Hannes, sem er fyrrum forstjóri og stjórnarformaður FL Group, var í lok október 2013 ákærður fyrir fjárdrátt fyrir að láta millifæra tæplega þrjá milljarða króna af bankareikningi FL Group í útibúi Danske Bank í New York og inn á nýjan bankareikning FL Group hjá Kaupþingi í Lúxemborg sem Hannes hafði látið stofna fimm dögum áður. Samkvæmt sérstöku umboði hafði Hannes fullt og ótakmarkað umboð til ráðstafana á fjármunum félagsins á þeim bankareikning.
Fjármunirnir voru sama dag færðir frá nýja bankareikningnum yfir á bankareikning Fons eignarhaldsfélags, í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Þar var fjárhæðinni skipt í danskar krónur og í kjölfarið lagðar inn á félagið Fred. Olsen & Co., þáverandi eiganda flugfélagsins Sterling Airlines. Milljarðarnir þrír mynduðu því stóran hluta af þeim fjórum milljörðum króna sem Fons greiddi fyrir kaup á Sterling á þessum tíma.
Kjarninn fór yfir málið í fréttaskýringu sem birtist á mánudag.
Segir ekki sýnt fram á að millifærslan hafi átt sér stað
Samkvæmt frétt mbl.is af málflutningnum byggir verjandi Hannesar vörn hans á að ekki hafi verið sýnt fram á að millifærslan hafi raunverluega átt sér stað. Til þess að svo hefði verið hefðu ýmis skjöl þurft að liggja fyrir lögum samkvæmt. Þau skjöl hafa aldrei fundist.
Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari vill að Hannes verði dæmdur í 2-3 ára fangelsi og sagði í munnlegum málflutningi sínum að sekt Hannesar væri óyggjandi. Alveg ljóst væri að millifærslan hefði átt sér stað og að Hannes hafi haft forræði á því máli og verið drifkrafturinn að baki þess. „Starfsmenn Kaupþings í Lúxemburg hafi staðfest það og starfsmenn og stjórnendur FL Group sem reynt hafi að fá upplýsingar um reikninginn og stöðu hans hafi verið neitað um þær með vísan í bankaleynd og að sá eini sem hefði rétt á þeim væri Hannes,“ er haft eftir Finni í frétt mbl.is.