55 MW rafafl mun þurfa til að knýja áformaða verksmiðju Swiss Green Gas International við Reykjanesvirkjun á Reykjanesi. Í verksmiðjunni yrði framleitt vetni með rafgreiningu sem yrði síðan, ásamt koldíoxíði úr útblæstri frá jarðvarmavirkjunum HS Orku, nýtt til að framleiða metangas. Rafgreiningarferli þetta, þegar vatni er skipt í vetni og súrefni, er þekkt en hefur til þessa lítið verið notað við vetnisframleiðslu á borð við þá sem svissneska fyrirtækið fyrirhugar.
Til að setja þessa orkuþörf í samhengi má minna á að Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi, sem dótturfélag HS Orku, Vesturverk, hefur haft á teikniborðinu í fleiri ár, er einmitt áætluð 55 MW. Hvalárvirkjun er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar og var ekki hreyft við þeirri flokkun, þrátt fyrir að þessi virkjunaráform í víðernum Vestfjarða séu mjög umdeild, í meðförum þingsins síðasta vor.
Í matsáætlun Swiss Green Gas International, sem er nú kynnt á vef Skipulagsstofnunar, sem þýðir að umhverfismatsferli framkvæmdarinnar er hafið, segir að verksmiðjan yrði beintengd við Reykjanesvirkjun sem HS Orka rekur. Verið er að stækka þá virkjun og auka afl hennar um 30 MW enda margvísleg uppbygging áformuð á þessum slóðum, m.a. landeldi og frekari uppbygging Auðlindagarðs HS Orku.
Til framleiðslu í verksmiðju Svisslendinganna stendur til að nota um 60 þúsund tonn af koldíoxíð á ári sem vinna á úr afgasi jarðvarmavirkjana í Svartsengi og Reykjanesi, gasi sem nú er losað óhindrað út í andrúmsloftið. Gasið frá Svartsengi yrði leitt að verksmiðjunni með gaslögn og er því haldið fram í matsáætlun að sú framkvæmd yrði á hendi HS Orku og að taka þurfi sérstaka ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum hennar. Áformað er að leiðslan verði lögð í jörðu, meðfram háspennukapli sem nú þegar liggur milli virkjananna. „Samtal er hafið milli HS Orku og Grindavíkur- og Reykjanesbæjar vegna þessa.“
Að auki þarf til framleiðslunnar um 135.000 tonn af vatni á ári sem yrði fengið úr ferskvatnsholum HS Orku í Sýrfelli. Verksmiðjan myndi skila, segir framkvæmdaaðilinn, um 14.000 tonnum af vökvagerðu metani (LSNG) árlega.
Verksmiðjan yrði að mestu leyti sjálfvirk. Að staðaldri myndu aðeins einn til tveir starfsmenn vinna í henni.
Swiss Green Gas International Ltd. (SGGI) er hlutafélag sem stofnað var af stórum aðilum í svissneska orkuiðnaðinum. Stærstu hluthafar SGGI eru Axpo Holding AG, sem er stærsta raforkufyrirtæki í Sviss, og Holdigaz SA.
Frá Reykjanesi um Rín
Fljótandi endurnýjanlegt gas, líkt og það er kallað, er metangas sem hefur verið þjappað og ofur kælt niður í mínus 162°C. Við það hitastig fer gasið af loftkenndu formi yfir á vökvaform. Rúmmál gassins á vökvaformi er 600 falt minna en það rúmmál sem það fyllir sem lofttegund. Það er því hagkvæmara að flytja gasið á fljótandi formi um langa vegu, segir í matsáætluninni.
Þessi lokaafurð, hið fljótandi metangas, yrði sett í þar tilgerða gáma og flutt frá verksmiðjunni til hafnar, sem ekki liggur fyrir hver verður, en hafnir í Helguvík, Þorlákshöfn og Reykjavík eru sagðar koma til greina. Þaðan yrði gasið flutt til Rotterdam í Hollandi og áfram með ánni Rín til Basel í Sviss og loks, á áfangastað, inn í gaskerfi landsins. Einnig er talað um að selja hluta þess á íslenskum markaði fyrir samgöngur.
Helsta markmiðið er loftslagsmarkmið
Í matsáætluninni er tekið fram að „helsta markmið framkvæmdarinnar“ sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þá helst CO2 „með framleiðslu á metangasi úr vetni sem framleitt er með grænni raforku í stað jarðefnaolíu“. Önnur markmið eru sögð þau að „auka framboð á endurnýjanlegri orku fyrir svissneskan markað ásamt því að bjóða íslenskum markaði upp á rafeldsneyti í samgöngur.“ Forsendur verkefnisins eru „gott framboð og samkeppnishæft verð á endurnýjanlegri raforku á Íslandi ásamt góðu aðgengi að koldíoxíði sem eru helstu aðföng framleiðslunnar“.
Vetnis- og metanverksmiðjan yrði reist, að því er framkvæmdaaðili segir, á skilgreindu iðnaðarsvæði sem alfarið er í eigu HS Orku og innan svonefnds Auðlindagarðs fyrirtækisins yst á Reykjanesskaga.
Þegar raskað svæði en útivist vinsæl
Tekið er fram að svæðið sé nú þegar talsvert raskað vegna Reykjanesvirkjunar og annarra umsvifa á svæðinu. Það er í um 11 kílómetra fjarlægð frá byggð í Höfnum og í u.þ.b. sömu fjarlægð frá byggð í Grindavík. Þéttbýli í Reykjanesbæ er í tæplega 16 kílómetra fjarlægð. Hverasvæði er sunnan framkvæmdasvæðisins, oftast kennt við Gunnuhver og er vinsæll áfangastaður útivistarfólks og ferðamanna.
Helstu mannvirki verksmiðjunnar eru rafgreiningarstöð, CO2 hreinsistöð, metanstöð og gasþjöppun/kælistöð. Hæstu mannvirkin eru turnar í koldíoxíð-hreinsistöð, um 25 metrar á hæð, en hæstu byggingar yrðu 18 metrar.
Ráðgert er að hefja framkvæmdir þegar byggingarleyfi liggur fyrir. Áætlað er að það verði í byrjun árs 2024 og gert er ráð fyrir að verksmiðjan verði gangsett í kringum áramótin 2025/2026.
Þangað til eru þrjú ár.
Þetta er ekki eina verksmiðjan sem Swiss Green Gas International hefur verið með á prjónunum á Íslandi. Í maí á þessu ári tók skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings fyrir erindi þar sem fyrirtækið (undir hatti dótturfélagsins Nordur Renewables Iceland ehf.) óskaði eftir vilyrði fyrir lóðum undir rafeldsneytisverksmiðju á Bakka við Húsavík. Ráðið lýsti ánægju með sýndan áhuga og sagði verkefnið áhugavert „og virðist sniðið að þeim ramma sem sveitarfélagið hyggst setja utan um þróun græns iðngarðs á Bakka“. Vildi ráðið hins vegar fá upplýsingar um hvernig fyrirtækin hygðust tryggja sér raforku til verkefnisins. Málið hefur ekki verið tekið aftur fyrir innan stjórnsýslunnar í sveitarfélaginu.
Árið 2020 lagði þetta sama dóttur félag, Nordur Renewables Iceland ehf., fram matsáætlun vegna vetnis- og metanverksmiðju við Hellisheiðarvirkjun. Sú verksmiðja átti að nýta 25 MW. Álit Skipulagsstofnunar lá fyrir þetta sama ár en lengra hefur verkefnið ekki farið í umhverfismati.
Að sama skapi er verksmiðja SGGI ekki sú eina sem keppir um hjarta stjórnenda HS Orku. Þannig náðu orkufyrirtækið og Hydrogen Ventures Limited (H2V) samkomulagi um orkuverð og aðra skilmála vegna fyrirhugaðrar vetnisframleiðslu á Reykjanesi nú í lok ágúst. Vetnið úr verksmiðju á að nýta til framleiðslu á metanóli. Sem er enn einn framtíðarorkugjafinn sem kynntur hefur verið til leiks. Sérstaklega er hann sagður koma til greina í sjóflutningum og sjávarútvegi, að því er fram kom í tilkynningu HS Orku um málið. „Ef afrakstur framleiðslunnar yrði nýttur innanlands myndi verkefnið því færa Ísland mun nær markmiði sínu um að ná kolefnishlutleysi árið 2040,“ sagði í tilkynningunni.
Verksmiðja H2V þyrfti 60 MW sem myndi, að því er haft var eftir Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra HS Orku, koma frá virkjunum fyrirtækisins. Og nýta til framleiðslunnar, rétt eins og SGGI er áfram um, meirihluta þess koldíoxíðs sem losnar frá vinnslusvæðunum.
Mikil orku- og vatnsþörf
Samanlögð orkuþörf þessara tveggja verkefna er 115 MW. Hvort þau verði bæði að veruleika er hins vegar alls óvíst enda aðföng sem þarf til framleiðslu á borð við þessa, gríðarleg orka, ferskvatn og koldíoxíð, háð takmörkunum.
„Ísland er auðugt af uppsprettum endurnýjanlegrar orku,“ segir á vef Nordur Renewables Iceland ehf., dótturfélagsins sem áformar framleiðslu rafeldsneytis bæði á Íslandi og í Noregi. „Með vatnsafli og jarðvarma er framleidd í landinu miklu meiri raforka en þar er notuð. En þar sem þetta er eyja án tengsla við hið alþjóðlega raforkukerfi þá getur Ísland ekki flutt út endurnýjanlegt rafmagn. Þess vegna liggur megináhersla Nordur Renewables Iceland ehf. í „orku til gasverkefna“ – við breytum endurnýjanlegu rafmagni og koltvíoxíð í grænt gas.“
Það er fullljóst að kapphlaup erlendra fyrirtækja um íslensku orkuna, þessa sem sífellt er nú tuggið á að sé „endurnýjanleg“, „umhverfisvæn“ og „græn“ (sem vissulega eru ekki tíðindi í okkar íslensku eyrum), er hafið fyrir alvöru.