Þegar kröfuhafar Glitnis lögðu fram tilboð um að mæta stöðugleikaskilyrðum íslenskra stjórnvalda, sem síðar var samþykkt, þá fól það tilboð meðal annars í sér að Íslandsbanki yrði seldur og ágóðanum skipt milli kröfuhafa Glitnis og ríkissjóðs. Mikla athygli vakti að í tilboðinu er innbyggður hvati fyrir Glitni að selja bankann til erlends aðila. Í einföldu máli þá er bókfært virði Íslandsbanka um 119 milljarðar króna og erlendir aðilar þyrftu að greiða sirka það verð fyrir hann. Innlendir aðilar þyrftu hins vegar að greiða allt að 200 milljörðum króna.
Til viðbótar er ákvæði í tilboði kröfuhafa Glitnis sem segir að erlendur kaupandi bankans megi ekki selja hann aftur til innlends aðila í fimm ár eftir að gengið verður frá kaupunum.
Þessir hvatar hafa verið harðlega gagnrýnir víða, síðast í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær af Davíð Blöndal, meðlimi í Indefence –hópnum. Gagnrýnin snýst fyrst og fremst að því að íslenskir fjárfestar, meðal annars lífeyrissjóðir, eru með þessum innbyggðu hvötum nánast útilokaðir frá því að kaupa Íslandsbanka.
En af hverju er verið að útiloka þá?
Gjaldeyri hefur meira notagildi
Ýmsar ástæður eru fyrir því að stærstu kröfuhafar Glitnis, sem komu að samningaviðræðum við íslensk stjórnvöld, settu inn hvata til að selja bankann til erlendra aðila. Í fyrsta lagi fengist með því gjaldeyrir fyrir bankann sem nýst getur til að greiða niður skuldir. Íslenska ríkið fengi til að mynda 71 milljarð króna í sinn hlut ef Íslandsbanki yrði seldur útlendingum á bókfærðu virði, og gæti notað það fé til að minnka skuldir og vaxtakostnað sinn verulega. Ef innlendir aðilar myndu kaupa bankann og nota til þess krónur væri illa hægt að nota þær krónur til að greiða niður innlendar skuldir. Það myndi auka á þenslu í hagkerfinu með tilheyrandi verðbólgu.
Tilkynnt var um aðgerðaráætlun stjórnvalda við losun hafta í byrjun júní síðastliðinn. Kynning á aðgerðunum for fram í Hörpu og var sýnd i beinni útsendingu. Skömmu áður höfðu stærstu kröfuhafar Glitnis lagt fram tilboð um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda til að sleppa við stöðugleikaskatt.
Gagnrýnendur hafa bent á að Íslendingar eigi líka gjaldeyri sem hægt væri að nota til að kaupa bankann. Þar er mest horft til eigna lífeyrissjóða erlendis. Þær eru hins vegar einungis 23,5 prósent af heildareignum sjóðanna og því varhugavert, með tilliti til áhættudreifingar í eignarsafni þeirra, að minnka það hlutfall mikið. Lífeyrissjóðirnir hafa líka verið að kalla eftir því að fá að fjárfesta meira erlendis, frekar en að koma heim með peninga.
Vilja koma í veg fyrir nýja snjóhengju
En það eru fleiri ástæður fyrir því að kröfuhafar Glitnis vilja frekar selja útlendingum en Íslendingum Íslandsbanka. Á uppgjörsfundi hjá Íslandsbanka á þriðjudag sagði Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, að ein ástæða þess að erlent eignarhald yrði bundið í fimm ár eftir sölu væri til að koma í veg fyrir að erlendur kaupandi seldi Íslandsbanka strax aftur til innlends aðila. Ef það myndi gerast þá væri strax komin ný snjóhengja upp á 119 milljarða króna. Vandamálið sem áætlun stjórnvalda um losun hafta á að leysa yrði samstundis til á ný.
En er ástæða til að óttast svona snúning? Miðað við stöðu Íslandsbanka, sem á 187 milljarða króna í eigið fé, hefur mikla möguleika til að vaxa, er með mikla markaðshlutdeild og það hversu mikil völd fylgja því að eiga banka á fákeppnismarkaði á Íslandi, er ljóst að margir innlendir aðilar gætu hugsað sér að ráðast í slíkan snúning. Og sagan sýnir okkur líka að það yrði ekki í fyrsta sinn sem erlendur aðili yrði notaður til að „leppa“ eignarhald á banka til að tryggja innlendum fjárfestum yfirráð yfir honum.
Þegar S-hópurinn vildi eignast banka
Þegar íslenska ríkið ákvað að selja hlut sinn í Búnaðarbanka Íslands árið 2002 var eitt af helstu markmiðum þess að fá erlenda fjármálastofnun til að koma þar að. Það vann því mjög með þeim bjóðendum í hlut ríkisins í bankanum ef þeir höfðu slíka í sínum hópi.
Kjarninn hefur öll gögn einkavæðingarferlisins undir höndum, þar með talið fundargerðir einkavæðingarnefndar og þau gögn sem nefndin studdist við þegar hún tók ákvörðun sína um að selja einum bjóðanda umfram annan. Sá bjóðandi sem fékk á endanum að kaupa Búnaðarbankann var hinn svokallaði S-hópur, með rík tengsl inn í Framsóknarflokkinn og leiddur af Ólafi Ólafssyni, sem nú afplánar fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins, og Finni Ingólfssyni, fyrrum varaformanns og ráðherra Framsóknarflokksins.
S-hópurinn átti ekki sérstaklega mikla peninga (kaupverðið var að stórum hluta fengið að láni) og hafði enga reynslu af því að reka banka. Það var því mjög mikilvægt fyrir hann að láta líta svo út að sterkur erlendur aðili væri með í hópnum til að gera einkavæðingarnefnd auðveldara fyrir að selja honum bankann.
Societe General verður Hauck & Aufhauser
Framan af var látið líta svo út að erlendi bankinn sem væri í slagtogi með S-hópnum væri franski bankarisinn Societe General, sem einkavæðingarnefnd þótti fýsilegt. Ljóst er á fundargerðum einkavæðingarnefndar að hún taldi nánast allan tímann að franski bankinn væri sú fjármálastofnun sem ætlaði að taka þátt í kaupunum.
Þeirri tálsýn var haldið á lofti í gegnum ferlið, þótt að aldrei fengist staðfesting á því að Societe General væri með í hópnum. Þegar leið að því að salan á Búnaðarbanka yrði kláruð komu skilaboð frá S-hópnum um að ekki væri hægt að tilkynna um hver erlendi aðilinn í hópnum væri fyrr en við undirskrift.
Búnaðarbankinn var loks seldur til S-hópsins 16. janúar 2003. Einkavæðingarnefnd fékk fyrst að vita nafn erlenda bankans sem tók þátt í kaupunum sjö dögum áður. Sá banki var þýski sveitabankinn Hauck & Aufhauser. Hann var aldrei nefndur á nafn í fundargerðum einkavæðingarnefndar.
Frétt Morgunblaðsins daginn eftir að S-hópurinn gekk frá kaupunum á Búnaðarbankanum.
Hauck & Aufhauser hafði aldrei nein afskipti af ætluðum eignarhlut sínum í Búnaðarbankanum og skipaði íslenskan starfsmann eignarhaldsfélags Ólafs Ólafssonar í stjórn Eglu, félagsins sem bankinn átti hlut sinn í gegnum. Rúmum tveimur árum eftir að Hauck & Aufhauser keypti hlut í Eglu, og þar af leiðandi í Búnarbanka, var bankinn búinn að selja hann allan til annarra aðila innan S-hópsins.
Um tveimur mánuðum eftir að S-hópurinn keypti Búnaðarbankann hófust viðræður um að sameina hann og Kaupþing. Eftir að sú sameining gekk í gegn varð sameinaður banki stærsti banki landsins og hópurinn sem stýrði honum gerði það þangað til að hann féll í október 2008, og skráði sig á spjöld sögunnar sem eitt stærsta gjaldþrot sem orðið hefur.
Mikill áhugi erlendis frá á Íslandsbanka
Töluverður áhugi hefur verið á því á meðal erlendra aðila að kaupa Íslandsbanka. Viðræður við nokkra hópa voru byrjaðar nokkuð löngu áður en að tilboð stærstu kröfuhafa Glitnis til stjórnvalda um að mæta stöðugleikaskilyrðum, og sleppa þar af leiðandi við álagningu stöðugleikaskatts upp á 39 prósent, var lagt fram í júní. Þeir sem sýnt hafa mestan áhuga eru hópar sem koma frá löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og Kína. Um er að ræða stór fyrirtæki sem eiga þegar hluti í alþjóðlegum bönkum. Einhverjir hópanna undirrituðu viljayfirlýsingu um kaup á bankanum í febrúar síðastliðnum.
Þá kemur enn til greina að skrá Íslandsbanka á markað erlendis. Miðað við tilboðið sem kröfuhafar Glitnis gerðu stjórnvöldum yrði sú skráning ekki tvíhliðaskráning á markað í öðrum landi og Íslandi, enda myndi hluti bankans þá seljast til innlendra aðila. Því verður að teljast líklegra að ef skráningarleiðin verður farin að Íslandsbanki verði alfarið skráður á markað í öðrum landi, og þá Svíþjóð eða Noregi.