Hvernig gerðist það að umfang höfuðborgarsvæðisins óx um fjórðung á árunum 2002 til 2008, að samanlögð lengd hraðbrauta óx um 60 kílómetra, annarra gatna um 163 kílómetra, að mislægum gatnamótum fjölgaði um níu, að risavaxnar íþróttahallir risu víðsvegar, að verslunarrými óx gífurlega á sama tíma og netverslun gerir byggingu verslunarhúsnæðis æ úreltari, en hjólastígar lagðir á tímabilinu voru samalagt einungis þrír kílómetrar þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á bensíni hafi hækkað skarpt allt tímabilið?
Þessum spurningum er reynt að svara í bókinni „Hörgull í allsnægtum- Hið byggða umhverfi og hrunið á Íslandi“ (Scarcity in Excess – The Built Environment and the Economic Crisis in Iceland), sem kom út á dögunum. Þar er einnig velt upp fjölmörgum hugmyndum að lausnum á þeim vanda sem slæmt skipulag og hagvaxtadrifin uppbygging húsnæðis, innviða og mannvirkja skapaði.
Bókin, sem er á ensku, tekur saman greinar, verk og myndir yfir 60 manns. Höfundar þeirra eru bæði íslenskir og erlendir en ritstjórar eru Arna Mathiesen, frá Apríl Arkitektum í Osló, Dr. Giambattista Zaccariotto frá Arkitektarskólanum í Osló og prófessor Thomas Forget frá háskólanum í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hægt er að kaupa bókina í Reykjavík, en hún er í alþjóðlegri dreifingu.
Áhrif bankabólu á byggingar- og skipulagsmál
Bókin bætir úr skorti á umfjöllun á áhrifum bankabólunnar á byggingar- og skipulagsmál, en hún var blásin upp á Íslandi á árunum 2002 til 2008, og sprakk loks með látum. Í inngangi hennar segir að þótt Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis, sem er um 2.400 blaðsíður að lengd, sé mjög góður vitnisburður um það sem átti sér stað á Íslandi, þá sé þar ekkert fjallað um þá miklu uppbyggingu húsnæðis og mannvirkja sem átti sér stað „þrátt fyrir að bankarnir hafi verið aðaleikendur í byggingarbólunni, sem örlátur lánveitandi fjár til byggingarframkvæmda og sem fjármögnunaraðili byggingarfyrirtækja , sem sum hver voru meira að segja rekinn úr bækistöðvum banka. Mörg byggingarfyrirtæki urðu gjaldþrota samhliða bönkunum og sum þeirra hafa nú hafið starfsemi að nýju á nýjum kennitölum og án skulda“.
Á myndinni sjást allir þeir vegir sem voru á höfuðborgarsvæðinu í lok tímabilsins. Samanlögð lengd þeirra var 136 kílómetrar. Samanlögð lengd hjólastíga á sama svæði var þrír kílómetrar.
Í fyrsta kafla bókarinnar kemur fram að höfuðborgarsvæðið, sem nær yfir Reykjavík og sex nágrannasveitarfélög hennar, hafi stækkað um 24 prósent að flatamáli á þessu sex ára tímabili. Gríðarleg uppbygging á húsnæði, atvinnuhúsnæði, mannvirkjum, opinberum byggingum, innviðum, íþróttamannvirkjum og einu stykki fjármálahverfi í Borgartúni (sem er nánast jafn stórt og allt miðbæjarsvæði Reykajvíkur) eru fyrir þessari miklu útþennslu. Til að undirstrika þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað er vísað í tölur Reykjavíkurborgar sem sýna að á á fimmta áratug síðustu aldar hafi verið um 120 íbúar á hvern hektara í Reykjavík en sú tala hafi verið komin niður í 36 árið 2005.
Áhrif á heimili og allt of mikið af verslunarhúsnæði
Áhrif byggingarbólunnar á stöðu heimilanna eru líka rakin og vísað til þeirra rannsókna sem fyrirliggja nú sex árum eftir hrun. Hlutfall heimila sem voru með neikvætt eigið fé í húsnæði sínu var sex prósent árið 2007, en eftir að bólan sprakk fór það hlutfall hæst upp í 37 prósent, í lok árs 2010. Auk þess hafa margir ekki átt fyrir afborgunum af húsnæðislánum. Tölurnar sýna bersýnilega að heimilin tóku há íbúðarlán til að kaupa nýbyggingarnar sem ráðist var í, en sátu síðan uppi með stór fjáhagsleg vandamál, að minnsta kosti tímabundið, þegar góðærinu lauk.
Á myndinni má sjá allt það verslunarhúsnæðis sem byggt var upp á Íslandi á tímabilinu 2002 til 2008.Í lok þess var verslunarrými orðið 4,26 fermetrar á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Það var líka mikið kappsmál að byggja upp stórt verslunarhúsnæði á þessum árum. Stórir verslunarkjarnar, í námunda við fjölfarnar umferðaræðar, spruttu upp eins og gorkúlur. Á meðal þeirra minnistæðustu eru Korputorg, Holtagarðar og Smáralind og svæðið í kringum þá verslunarmiðstöð. Þessi mikla uppbygging hefur skilað því að verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var orðið 4,26 fermetrar á hvern íbúa, meðan verslun á heimsvísu fer æ meira fram á netinu og krefst æ minna húsnæðis.
Vildu skilja það sem hafði gerst
Arna Mathiesen, einn ritstjóra bókarinnar, segir að tilgangur hennar hafi verið að reyna að skilja hvað hafi gerst á Íslandi sem hafi orsakað þessa stöðu og reyna að koma með uppbyggilegar tillögur til úrbóta. Fyrst sé mikilvægt sé að kortleggja þá þróun sem hafi átt sér stað á tímabilinu sem um ræðir, sérstaklega til að koma í veg fyrir að hún geti átt sér stað aftur. „Hvernig var þetta hægt? Bólgin bólgnaði út, í andstöðu við öll viðmið sjálfbærar þróunar. Niðurstaða okkar er sú að hagvöxtur og byggingarmagnið virðast hanga saman. Bankarnir, sem í einhverjum tilfelllum áttu byggingarfyrirtækin sjálfir, vildu verða stærri. Og til þess að ná því markmiði lánuðu þeir mjög mikið til margra byggingafyrirtækja sem á móti byggðu byggingar og innviði sem hentuðu þeim markmiðum, óháð þörfum íbúanna. Skipulagsdeildir sveitarfélaga sáu svo um að skipulagið hefði pláss fyrir allt þetta byggingarmagn, óháð íbúafjölgun. Því hærri lán sem bankarnir veittu til dýrra byggingaframkvæmda, bæði vegna framkvæmda við innviði og húsnæði, því stærri urðu þeir. Þetta slóg ryki í augun á fólki, sem hélt að það væri gróðavænlegt fyrir það sjálft að lána og byggja fyrst að fyrirtæki og bankar gerðu það."
Það var ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu sem Íslendingar fóru fram úr sér í framkvæmdum. Hér sést loftmynd af ætlaðri búgarðabyggð í Flóanum. Fyrir framan hvern ætlaðan búgarð var búið að malbika hringtorg.
Sami hvati og að baki draugaborgunum í Kína
Að mati Örnu skipti líka máli að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru í samkeppni sín á milli um verslun, fólk og byggingar. „Það hjálpaði til að skapa þetta ástand. Það fyrsta sem verður að gera til að þetta endurtaki sig ekki er að sameina sveitarfélögin. Það hefur ekkert uppá sig að spyrja sveitarfélögin hvort þau vilji þetta, þar eru of margir eiginhagsmunir á ferð. Þetta hlýtur einfaldlega að vera þjóðhagsleg nauðsyn sem þarf að gerast á æðra stjórnstigi, á Alþingi. Svo eru önnur stórmál sem alþingi hefur algerlega vanrækt. Í fyrsta lagi þarf að sjá til þess að bankar eigi ekki fyrirtæki í samkeppnisrekstri í byggingageiranum. Borgin getur einnig gert sitt í að koma í veg fyrir frekari skaða með því að taka prófmál á deiliskipulagið sem leiðir til að í hvert skipti sem byggingaráform eru í miðborg hefjist ferli sem minnir á samningaviðræður við einhverja mafíu. Svo er náttúrulega gríðarmikilvægt að efla neytendur til að láta ekki bjóða sér uppá hvað sem er, og að þeir séu gerðir meðvitaðri um gildi góðrar hönnunar og hvernig hún geti bætt samfélagið.“
Einhverjir myndu segja að Kínverska dæmið sé miklu ýktara, en á sinn hátt er íslenska dæmið alveg jafn alvarlegt. Við erum nú einu sinni að tala um gífurlegar fjárfestingar í einum fjórða hluta höfuðborgarsvæðis þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa.
Aðspurð hvort hún viti til þess að sambærileg þróun hafi átt sér stað annars staðar í heiminum segir Arna að þar nefna megi Kína. „Þar er verið að byggja stórar draugaborgir þar sem enginn býr, einungis til að búa til hagvöxt. held að þessi skipulagsslys sem urðu á Íslandi hafi fyrst og fremst verið til að fóðra aukin hagvöxt. Það eru því ákveðin líkindi þarna á milli að því leytinu til. Einhverjir myndu segja að Kínverska dæmið sé miklu ýktara, en á sinn hátt er íslenska dæmið alveg jafn alvarlegt. Við erum nú einu sinni að tala um gífurlegar fjárfestingar í einum fjórða hluta höfuðborgarsvæðis þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa.“