Vitni og sakborningar í Samherjamálinu voru yfirheyrð í sumar
Þeir sem eru undir í rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintum mútugreiðslum, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í tengslum við starfsemi samstæðunnar í Namibíu hafa sumir hverjir verið yfirheyrðir á síðustu vikum. Embættið hefur auk þess deilt umtalsverðum gögnum með yfirvöldum í Namibíu.
Yfirheyrslur hafa staðið yfir hjá embætti héraðssaksóknara vegna Samherjamálsins undanfarnar vikur, samkvæmt heimildum Kjarnans. Frá byrjun júlí hefur hluti þeirra sem hafa stöðu sakbornings við rannsókn málsins og einhver vitni verið kölluð til yfirheyrslu þar sem ýmis gögn málsins voru meðal annars lögð fyrir þá.
Enn á eftir að kalla fleiri úr hópi þeirra sem fengu stöðu sakbornings í fyrrasumar inn til yfirheyrslu áður en að hægt verður að draga rannsókn málsins saman og taka ákvörðun um hvort ákært verði í því eða ekki. Enn er nokkuð í að málið komist á það stig og útilokað að það gerist fyrir komandi Alþingiskosningar sem fram fara 25. september næstkomandi.
Þá er ekki útilokað að það muni fjölga í hópi þeirra sem fá stöðu sakbornings, en þegar voru sex með slíka stöðu eftir yfirheyrslulotu sem fram fór í fyrrasumar.
Slík réttarstaða er tilkynnt við upphaf yfirheyrslu.
Sex þegar með réttarstöðu sakbornings
Samherji og lykilstarfsfólk innan samstæðu fyrirtækisins hafa verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra frá lokum árs 2019. Hún hófst eftir að Kveikur og Stundin opinberuðu að grunur væri á að Samherji hefði greitt mútur, meðal annars til háttsettra stjórnmálamanna, til að komast yfir fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upplýsingar sem bentu til þess að Samherji væri mögulega að stunda stórfellda skattasniðgöngu og peningaþvætti.
Í fyrrasumar voru sex einstaklingar boðaðir í yfirheyrslu hjá héraðssaksóknara vegna málsins. Þar var þeim greint frá því að til rannsóknar væru atvik sem tengjast Samherja hf., Samherja Holding ehf. (sem heldur utan um erlenda starfsemi samstæðunnar) og öðrum félögum í samstæðu Samherja, einkum í tengslum við starfsemi í Namibíu og Angóla, á tímabilinu 2011 og fram til dagsins í dag.
Á meðal þeirra var Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem var yfirheyrður í byrjun júlí 2020. Hinir fimm sem kölluð voru inn til yfirheyrslu sumarið 2020 og fengu þá réttarstöðu sakbornings eru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, lögfræðingur hjá Samherja og fyrrverandi ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, og Jóhannes Stefánsson.
Við yfirheyrslurnar var fólkinu greint frá því að til rannsóknar væru meintar mútugreiðslur starfsmanna og fyrirsvarsmanna Samherja til opinberra starfsmanna í Namibíu og Angóla, eða til annarra sem gátu haft áhrif á ákvörðunartöku slíkra manna, í tengslum við úthlutun á fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla.
Grunur um stórfelldar mútugreiðslur
Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin varða 109. og 264. grein almennra hegningarlaga um mútur. Í fyrrnefndu greininni segir að hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að fimm árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi. „Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.“
Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.
Þá eru einnig til rannsóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegningarlögum, sem fjalla um auðgunarbrot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fangelsisrefsing sem getur verið allt að þrjú til sex ár.
Embætti skattrannsóknarstjóra, sem verður lagt niður í núverandi mynd fyrr á þessu ári og varð eftir það deild innan Skattsins, er síðan að rannsaka hvort raunverulegt eignarhald á allri Samherjasamstæðunni sé hérlendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta annarsstaðar en hér sé þar með stórfelld skattasniðganga.
Fengu dulkóðað drif með tölvupóstum
Samherjamálið er einnig til rannsóknar í Namibíu. Þar er ferlið mun lengra komið en Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Esau, hafa ásamt fjórum öðrum setið í gæsluvarðhaldi frá því 2019 á meðan namibísk yfirvöld rannsaka mál þeirra. Þeir eru grunaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja í skiptum fyrir kvóta.
Namibísk stjórnvöld hafa sent gagnbeiðnir hingað til lands vegna rannsóknarinnar og samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur samstarf milli landanna gengið vel.
Kjarninn greindi til að mynda frá því 6. ágúst síðastliðinn að embætti héraðssaksóknara hafi látið namibískum lögregluyfirvöldum í té dulkóðað USB-drif með tölvupóstum innan úr Samherja. Í þeim tölvupóstum kemur meðal annars fram að Aðalsteinn Helgason, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Kötlu Seafood á Kanaríeyjum og var lykilmaður hjá Samherja á fyrstu árum innreiðar fyrirtækisins í namibískan sjávarútveg, hafi sagt við Jóhannes Stefánsson og Ingvar Júlíusson, fjármálastjóra Samherja á Kýpur og í Afríku, þann 16. desember árið 2011, að á einhverjum tímapunkti gæti það farið að skipta máli „að múta einum af leiðtogum þessara manna.“
Degi síðar, 17. desember 2011, sagði Jóhannes svo í tölvupósti til Aðalsteins og Ingvars að til stæði að skrifa undir samkomulag við Tamson Hatuikulipi, tengdason Bernhards Esau sjávarútvegsráðherra, um væntanlega samvinnu þeirra.
Með mikið magn gagna
Umtalsverð gagnaöflun hefur átt sér stað af hendi þeirra sem rannsaka málefni Samherja. Þar er um að ræða þau gögn sem umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og WikiLeaks í nóvember 2019 byggði á auk ýmissa gagna sem rannsóknaraðilar hafa fengið frá yfirvöldum í Namibíu og fleiri löndum.
Auk þess var KPMG, sem sá um bókhald Samherja árum saman og þar til í fyrra, skyldað af dómstólum í desember til þess að aflétta þeim trúnaði sem ríkir milli endurskoðenda og viðskiptavina þeirra, en kveðið er á um þagnarskyldu endurskoðenda í lögum og láta embætti héraðssaksóknara í té upplýsingar og gögn varðandi bókhald og reikningsskil allra félaga Samherjasamstæðunnar á árunum 2011 til 2020. Einnig þurfti fyrirtækið að láta héraðssaksóknara hafa upplýsingar og gögn sem varða áðurnefnda skýrslu sem KPMG vann um starfsemi Samherja á árunum 2013 og 2014.
Þrátt fyrir miklar mótbárur Samherja, jafn tæknilegar og efnislegar, þá var þeirri ákvörðun ekki hnekkt.
Í sumar var svo birtur úrskurður Persónuverndar um kvörtun Þorsteins Más, sem hann lagði fram í október 2020, vegna vinnslu persónuupplýsinga um hann. Þar kemur fram að gögnin sem Þorsteinn er ósáttur með meðferðina á eru þrír diskar, með samtals um sex þúsund gígabæti af gögnum, sem lagt var hald á við húsleit gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands í höfuðstöðvum Samherja árið 2012.
Þorsteinn Már taldi að eyða hefði átt gögnunum eftir að málarekstri Seðlabankans gegn Samherja lauk, en lesa má um þau málalok hér. Gögnunum var hins vegar ekki eytt. Þvert á móti voru þau borin undir hann í skýrslutöku hjá embætti skattrannsóknarstjóra og þar upplýst um að þeirra hefði verið aflað frá héraðssaksóknara sem hafði fengið þau frá Seðlabanka Íslands.
Héraðssaksóknari fékk gögnin eftir að hafa lagt fram beiðni um afhendingu á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna þess að embættið mat það sem svo „að gögnin gætu haft sönnunargildi við yfirstandandi rannsókn.“
Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að stofnunin telur að miðlun persónuupplýsinga um Þorstein Má til embættis héraðssaksóknara hafi samrýmst lögum. Á meðal gagna sem þarna um ræðir eru tölvupóstar, upplýsingar um fjármál Þorsteins og ýmislegt fleira.