Óflokkað

Vitni og sakborningar í Samherjamálinu voru yfirheyrð í sumar

Þeir sem eru undir í rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintum mútugreiðslum, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í tengslum við starfsemi samstæðunnar í Namibíu hafa sumir hverjir verið yfirheyrðir á síðustu vikum. Embættið hefur auk þess deilt umtalsverðum gögnum með yfirvöldum í Namibíu.

Yfir­heyrslur hafa staðið yfir hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara vegna Sam­herj­a­máls­ins und­an­farnar vik­ur, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans. Frá byrjun júlí hefur hluti þeirra sem hafa stöðu sak­born­ings við rann­sókn máls­ins og ein­hver vitni verið kölluð til yfir­heyrslu þar sem ýmis gögn máls­ins voru meðal ann­ars lögð fyrir þá. 

Enn á eftir að kalla fleiri úr hópi þeirra sem fengu stöðu sak­born­ings í fyrra­sumar inn til yfir­heyrslu áður en að hægt verður að draga rann­sókn máls­ins saman og taka ákvörðun um hvort ákært verði í því eða ekki. Enn er nokkuð í að málið kom­ist á það stig og úti­lokað að það ger­ist fyrir kom­andi Alþing­is­kosn­ingar sem fram fara 25. sept­em­ber næst­kom­andi.

Þá er ekki úti­lokað að það muni fjölga í hópi þeirra sem fá stöðu sak­born­ings, en þegar voru sex með slíka stöðu eftir yfir­heyrslu­lotu sem fram fór í fyrra­sum­ar.

Slík rétt­ar­staða er til­kynnt við upp­haf yfir­heyrslu.

Sex þegar með rétt­ar­stöðu sak­born­ings

Sam­herji og lyk­il­starfs­fólk innan sam­stæðu fyr­ir­tæk­is­ins hafa verið til rann­sóknar hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara og skatt­rann­sókn­ar­stjóra frá lokum árs 2019. Hún hófst eftir að Kveikur og Stundin opin­ber­uðu að grunur væri á að Sam­herji hefði greitt mút­ur, meðal ann­ars til hátt­settra stjórn­mála­manna, til að kom­ast yfir fisk­veiði­kvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upp­lýs­ingar sem bentu til þess að Sam­herji væri mögu­lega að stunda stór­fellda skatta­snið­göngu og pen­inga­þvætt­i. 

Auglýsing

Í fyrra­sumar voru sex ein­stak­lingar boð­aðir í yfir­heyrslu hjá hér­aðs­sak­sókn­ara vegna máls­ins. Þar var þeim greint frá því að til rann­sóknar væru atvik sem tengj­ast Sam­herja hf., Sam­herja Hold­ing ehf. (sem heldur utan um erlenda starf­semi sam­stæð­unn­ar) og öðrum félögum í sam­stæðu Sam­herja, einkum í tengslum við starf­semi í Namibíu og Angóla, á tíma­bil­inu 2011 og fram til dags­ins í dag. 

Á meðal þeirra var Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, sem var yfir­heyrður í byrjun júlí 2020. Hinir fimm sem kölluð voru inn til yfir­heyrslu sum­arið 2020 og fengu þá  rétt­ar­stöðu sak­born­ings eru Ingvar Júl­í­us­son, fjár­mála­stjóri Sam­herja á Kýp­ur, Arna McClure, lög­fræð­ingur hjá Sam­herja og fyrr­ver­andi ræð­is­maður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árna­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namib­íu, Aðal­steinn Helga­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namib­íu, og Jóhannes Stef­áns­son.

Við yfir­heyrsl­urnar var fólk­inu greint frá því að til rann­sóknar væru meintar mútu­greiðslur starfs­manna og fyr­ir­svars­manna Sam­herja til opin­berra starfs­manna í Namibíu og Angóla, eða til ann­arra sem gátu haft áhrif á ákvörð­un­ar­töku slíkra manna, í tengslum við úthlutun á fisk­veiði­kvóta í Namibíu og Angóla.

Grunur um stór­felldar mútu­greiðslur

Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin varða 109. og 264. grein almennra hegn­ing­ar­laga um mút­ur. Í fyrr­nefndu grein­inni segir að hver sem gef­ur, lofar eða býður opin­berum starfs­manni, gjöf eða annan ávinn­ing, sem hann á ekki til­kall til, í þágu hans eða ann­arra, til að fá hann til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert sem teng­ist opin­berum skyldum hans skal sæta fang­elsi allt að fimm árum eða sektum ef máls­bætur eru fyrir hendi. „Sömu refs­ingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opin­berum starfs­manni, erlendum kvið­dóm­anda, erlendum gerð­ar­manni, manni sem á sæti á erlendu full­trúa­þingi sem hefur stjórn­sýslu með hönd­um, starfs­manni alþjóða­stofn­un­ar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofn­unar eða á opin­beru lög­gjaf­ar­þingi í erlendu ríki, dóm­ara sem á sæti í alþjóð­legum dóm­stóli eða starfs­manni við slíkan dóm­stól, í því skyni að fá hann til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert sem teng­ist opin­berum skyldum hans.“

Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn í málinu, er einn þeirra sem er með réttarstöðu sakbornings í málinu.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinn­ings af broti á hegn­ing­ar­lögum eða af refsi­verðu broti á öðrum lög­um, eða umbreytir slíkum ávinn­ingi, flytur hann, send­ir, geym­ir, aðstoðar við afhend­ingu hans, leynir honum eða upp­lýs­ingum um upp­runa hans, eðli, stað­setn­ingu eða ráð­stöfun ávinn­ings skuli sæta fang­elsi allt að sex árum.

Þá eru einnig til rann­sóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegn­ing­ar­lög­um, sem fjalla um auðg­un­ar­brot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fang­els­is­refs­ing sem getur verið allt að þrjú til sex ár. 

Auglýsing

Emb­ætti skatt­rann­sókn­ar­stjóra, sem verður lagt niður í núver­andi mynd fyrr á þessu ári og varð eftir það deild innan Skatts­ins, er síðan að rann­saka hvort raun­veru­legt eign­ar­hald á allri Sam­herj­a­sam­stæð­unni sé hér­lendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta ann­ars­staðar en hér sé þar með stór­felld skatta­snið­ganga.  

Fengu dulkóðað drif með tölvu­póstum

Sam­herj­a­málið er einnig til rann­sóknar í Namib­íu. Þar er ferlið mun lengra komið en Sacky Shang­hala, fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra Namib­íu, Bern­hard Esau, fyrr­ver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra Namib­íu, og Tam­son Hatuikulipi, tengda­sonur Esau, hafa ásamt fjórum öðrum setið í gæslu­varð­haldi frá því 2019 á meðan namibísk yfir­­völd rann­saka mál þeirra. Þeir eru grun­aðir um að hafa þegið mútur frá Sam­herja í skiptum fyrir kvóta. 

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, var fyrst yfirheyrður í málinu í júlí í fyrra. Hann fékk þá réttarstöðu sakbornings.
Mynd: Skjáskot/Samherji

Namibísk stjórn­völd hafa sent gagn­beiðnir hingað til lands vegna rann­sókn­ar­innar og sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans hefur sam­starf milli land­anna gengið vel. 

Kjarn­inn greindi til að mynda frá því 6. ágúst síð­ast­lið­inn að emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara hafi látið namibískum lög­reglu­yf­ir­völdum í té dulkóðað USB-drif með tölvu­póstum innan úr Sam­herja. Í þeim tölvu­póstum kemur meðal ann­ars fram að Aðal­steinn Helga­son, sem er fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Kötlu Seafood á Kanarí­eyjum og var lyk­il­maður hjá Sam­herja á fyrstu árum inn­reiðar fyr­ir­tæk­is­ins í namibískan sjáv­ar­út­veg, hafi sagt við Jóhannes Stef­áns­son og Ingvar Júl­í­us­son, fjár­mála­stjóra Sam­herja á Kýpur og í Afr­íku, þann 16. des­em­ber árið 2011, að á ein­hverjum tíma­punkti gæti það farið að skipta máli „að múta einum af leið­togum þess­ara manna.“

Tölvupóstur frá Aðalsteini Helgasyni til Jóhannesar Stefánssonar og Ingvars Júlíussonar sem sendu r var 16. desember 2011.
Mynd: Birt opinberlega af namibískum lögregluyfirvöldum

Degi síð­ar, 17. des­em­ber 2011, sagði Jóhannes svo í tölvu­pósti til Aðal­steins og Ingv­ars að til stæði að skrifa undir sam­komu­lag við Tam­son Hatuikulipi, tengda­son Bern­hards Esau sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra, um vænt­an­lega sam­vinnu þeirra.

Með mikið magn gagna

Umtals­verð gagna­öflun hefur átt sér stað af hendi þeirra sem rann­saka mál­efni Sam­herja. Þar er um að ræða þau gögn sem umfjöllun Kveiks, Stund­ar­inn­ar, Al Jazeera og Wiki­Leaks í nóv­em­ber 2019 byggði á auk ýmissa gagna sem rann­sókn­ar­að­ilar hafa fengið frá yfir­völdum í Namibíu og fleiri lönd­um. 

Auk þess var KPMG, sem sá um bók­hald Sam­herja árum saman og þar til í fyrra, skyldað af dóm­stólum í des­em­ber til þess að aflétta þeim trún­aði sem ríkir milli end­ur­skoð­enda og við­skipta­vina þeirra, en kveðið er á um þagn­ar­skyldu end­ur­skoð­enda í lögum og láta emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara í té upp­lýs­ingar og gögn varð­andi bók­hald og reikn­ings­skil allra félaga Sam­herj­a­sam­stæð­unnar á árunum 2011 til 2020. Einnig þurfti fyr­ir­tækið að láta hér­aðs­sak­sókn­ara hafa upp­lýs­ingar og gögn sem varða áður­nefnda skýrslu sem KPMG vann um starf­semi Sam­herja á árunum 2013 og 2014.

Þrátt fyrir miklar mót­bárur Sam­herja, jafn tækni­legar og efn­is­leg­ar, þá var þeirri ákvörðun ekki hnekkt. 

Auglýsing

Í sumar var svo birtur úrskurður Per­sónu­verndar um kvörtun Þor­steins Más, sem hann lagði fram í októ­ber 2020, vegna vinnslu per­sónu­upp­lýs­inga um hann. Þar kemur fram að gögnin sem Þor­steinn er ósáttur með með­ferð­ina á eru þrír diskar, með sam­tals um sex þús­und gíga­bæti af gögn­um, sem lagt var hald á við hús­leit gjald­eyr­is­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands í höf­uð­stöðvum Sam­herja árið 2012. 

Þor­steinn Már taldi að eyða hefði átt gögn­unum eftir að mála­rekstri Seðla­bank­ans gegn Sam­herja lauk, en lesa má um þau mála­lok hér. Gögn­unum var hins vegar ekki eytt. Þvert á móti voru þau borin undir hann í skýrslu­töku hjá emb­ætti skatt­rann­sókn­ar­stjóra og þar upp­lýst um að þeirra hefði verið aflað frá hér­aðs­sak­sókn­ara sem hafði fengið þau frá Seðla­banka Íslands.

Hér­aðs­sak­sókn­ari fékk gögnin eftir að hafa lagt fram beiðni um afhend­ingu á grund­velli laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka vegna þess að emb­ættið mat það sem svo „að gögnin gætu haft sönn­un­ar­gildi við yfir­stand­andi rann­sókn.“

Í úrskurði Per­sónu­verndar kemur fram að stofn­unin telur að miðlun per­sónu­upp­lýs­inga um Þor­stein Má til emb­ættis hér­aðs­sak­sókn­ara hafi sam­rýmst lög­um. Á meðal gagna sem þarna um ræðir eru tölvu­póstar, upp­lýs­ingar um fjár­mál Þor­steins og ýmis­legt fleira.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar