Óflokkað

Vitni og sakborningar í Samherjamálinu voru yfirheyrð í sumar

Þeir sem eru undir í rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintum mútugreiðslum, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í tengslum við starfsemi samstæðunnar í Namibíu hafa sumir hverjir verið yfirheyrðir á síðustu vikum. Embættið hefur auk þess deilt umtalsverðum gögnum með yfirvöldum í Namibíu.

Yfir­heyrslur hafa staðið yfir hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara vegna Sam­herj­a­máls­ins und­an­farnar vik­ur, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans. Frá byrjun júlí hefur hluti þeirra sem hafa stöðu sak­born­ings við rann­sókn máls­ins og ein­hver vitni verið kölluð til yfir­heyrslu þar sem ýmis gögn máls­ins voru meðal ann­ars lögð fyrir þá. 

Enn á eftir að kalla fleiri úr hópi þeirra sem fengu stöðu sak­born­ings í fyrra­sumar inn til yfir­heyrslu áður en að hægt verður að draga rann­sókn máls­ins saman og taka ákvörðun um hvort ákært verði í því eða ekki. Enn er nokkuð í að málið kom­ist á það stig og úti­lokað að það ger­ist fyrir kom­andi Alþing­is­kosn­ingar sem fram fara 25. sept­em­ber næst­kom­andi.

Þá er ekki úti­lokað að það muni fjölga í hópi þeirra sem fá stöðu sak­born­ings, en þegar voru sex með slíka stöðu eftir yfir­heyrslu­lotu sem fram fór í fyrra­sum­ar.

Slík rétt­ar­staða er til­kynnt við upp­haf yfir­heyrslu.

Sex þegar með rétt­ar­stöðu sak­born­ings

Sam­herji og lyk­il­starfs­fólk innan sam­stæðu fyr­ir­tæk­is­ins hafa verið til rann­sóknar hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara og skatt­rann­sókn­ar­stjóra frá lokum árs 2019. Hún hófst eftir að Kveikur og Stundin opin­ber­uðu að grunur væri á að Sam­herji hefði greitt mút­ur, meðal ann­ars til hátt­settra stjórn­mála­manna, til að kom­ast yfir fisk­veiði­kvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upp­lýs­ingar sem bentu til þess að Sam­herji væri mögu­lega að stunda stór­fellda skatta­snið­göngu og pen­inga­þvætt­i. 

Auglýsing

Í fyrra­sumar voru sex ein­stak­lingar boð­aðir í yfir­heyrslu hjá hér­aðs­sak­sókn­ara vegna máls­ins. Þar var þeim greint frá því að til rann­sóknar væru atvik sem tengj­ast Sam­herja hf., Sam­herja Hold­ing ehf. (sem heldur utan um erlenda starf­semi sam­stæð­unn­ar) og öðrum félögum í sam­stæðu Sam­herja, einkum í tengslum við starf­semi í Namibíu og Angóla, á tíma­bil­inu 2011 og fram til dags­ins í dag. 

Á meðal þeirra var Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, sem var yfir­heyrður í byrjun júlí 2020. Hinir fimm sem kölluð voru inn til yfir­heyrslu sum­arið 2020 og fengu þá  rétt­ar­stöðu sak­born­ings eru Ingvar Júl­í­us­son, fjár­mála­stjóri Sam­herja á Kýp­ur, Arna McClure, lög­fræð­ingur hjá Sam­herja og fyrr­ver­andi ræð­is­maður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árna­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namib­íu, Aðal­steinn Helga­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namib­íu, og Jóhannes Stef­áns­son.

Við yfir­heyrsl­urnar var fólk­inu greint frá því að til rann­sóknar væru meintar mútu­greiðslur starfs­manna og fyr­ir­svars­manna Sam­herja til opin­berra starfs­manna í Namibíu og Angóla, eða til ann­arra sem gátu haft áhrif á ákvörð­un­ar­töku slíkra manna, í tengslum við úthlutun á fisk­veiði­kvóta í Namibíu og Angóla.

Grunur um stór­felldar mútu­greiðslur

Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin varða 109. og 264. grein almennra hegn­ing­ar­laga um mút­ur. Í fyrr­nefndu grein­inni segir að hver sem gef­ur, lofar eða býður opin­berum starfs­manni, gjöf eða annan ávinn­ing, sem hann á ekki til­kall til, í þágu hans eða ann­arra, til að fá hann til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert sem teng­ist opin­berum skyldum hans skal sæta fang­elsi allt að fimm árum eða sektum ef máls­bætur eru fyrir hendi. „Sömu refs­ingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opin­berum starfs­manni, erlendum kvið­dóm­anda, erlendum gerð­ar­manni, manni sem á sæti á erlendu full­trúa­þingi sem hefur stjórn­sýslu með hönd­um, starfs­manni alþjóða­stofn­un­ar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofn­unar eða á opin­beru lög­gjaf­ar­þingi í erlendu ríki, dóm­ara sem á sæti í alþjóð­legum dóm­stóli eða starfs­manni við slíkan dóm­stól, í því skyni að fá hann til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert sem teng­ist opin­berum skyldum hans.“

Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn í málinu, er einn þeirra sem er með réttarstöðu sakbornings í málinu.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinn­ings af broti á hegn­ing­ar­lögum eða af refsi­verðu broti á öðrum lög­um, eða umbreytir slíkum ávinn­ingi, flytur hann, send­ir, geym­ir, aðstoðar við afhend­ingu hans, leynir honum eða upp­lýs­ingum um upp­runa hans, eðli, stað­setn­ingu eða ráð­stöfun ávinn­ings skuli sæta fang­elsi allt að sex árum.

Þá eru einnig til rann­sóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegn­ing­ar­lög­um, sem fjalla um auðg­un­ar­brot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fang­els­is­refs­ing sem getur verið allt að þrjú til sex ár. 

Auglýsing

Emb­ætti skatt­rann­sókn­ar­stjóra, sem verður lagt niður í núver­andi mynd fyrr á þessu ári og varð eftir það deild innan Skatts­ins, er síðan að rann­saka hvort raun­veru­legt eign­ar­hald á allri Sam­herj­a­sam­stæð­unni sé hér­lendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta ann­ars­staðar en hér sé þar með stór­felld skatta­snið­ganga.  

Fengu dulkóðað drif með tölvu­póstum

Sam­herj­a­málið er einnig til rann­sóknar í Namib­íu. Þar er ferlið mun lengra komið en Sacky Shang­hala, fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra Namib­íu, Bern­hard Esau, fyrr­ver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra Namib­íu, og Tam­son Hatuikulipi, tengda­sonur Esau, hafa ásamt fjórum öðrum setið í gæslu­varð­haldi frá því 2019 á meðan namibísk yfir­­völd rann­saka mál þeirra. Þeir eru grun­aðir um að hafa þegið mútur frá Sam­herja í skiptum fyrir kvóta. 

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, var fyrst yfirheyrður í málinu í júlí í fyrra. Hann fékk þá réttarstöðu sakbornings.
Mynd: Skjáskot/Samherji

Namibísk stjórn­völd hafa sent gagn­beiðnir hingað til lands vegna rann­sókn­ar­innar og sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans hefur sam­starf milli land­anna gengið vel. 

Kjarn­inn greindi til að mynda frá því 6. ágúst síð­ast­lið­inn að emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara hafi látið namibískum lög­reglu­yf­ir­völdum í té dulkóðað USB-drif með tölvu­póstum innan úr Sam­herja. Í þeim tölvu­póstum kemur meðal ann­ars fram að Aðal­steinn Helga­son, sem er fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Kötlu Seafood á Kanarí­eyjum og var lyk­il­maður hjá Sam­herja á fyrstu árum inn­reiðar fyr­ir­tæk­is­ins í namibískan sjáv­ar­út­veg, hafi sagt við Jóhannes Stef­áns­son og Ingvar Júl­í­us­son, fjár­mála­stjóra Sam­herja á Kýpur og í Afr­íku, þann 16. des­em­ber árið 2011, að á ein­hverjum tíma­punkti gæti það farið að skipta máli „að múta einum af leið­togum þess­ara manna.“

Tölvupóstur frá Aðalsteini Helgasyni til Jóhannesar Stefánssonar og Ingvars Júlíussonar sem sendu r var 16. desember 2011.
Mynd: Birt opinberlega af namibískum lögregluyfirvöldum

Degi síð­ar, 17. des­em­ber 2011, sagði Jóhannes svo í tölvu­pósti til Aðal­steins og Ingv­ars að til stæði að skrifa undir sam­komu­lag við Tam­son Hatuikulipi, tengda­son Bern­hards Esau sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra, um vænt­an­lega sam­vinnu þeirra.

Með mikið magn gagna

Umtals­verð gagna­öflun hefur átt sér stað af hendi þeirra sem rann­saka mál­efni Sam­herja. Þar er um að ræða þau gögn sem umfjöllun Kveiks, Stund­ar­inn­ar, Al Jazeera og Wiki­Leaks í nóv­em­ber 2019 byggði á auk ýmissa gagna sem rann­sókn­ar­að­ilar hafa fengið frá yfir­völdum í Namibíu og fleiri lönd­um. 

Auk þess var KPMG, sem sá um bók­hald Sam­herja árum saman og þar til í fyrra, skyldað af dóm­stólum í des­em­ber til þess að aflétta þeim trún­aði sem ríkir milli end­ur­skoð­enda og við­skipta­vina þeirra, en kveðið er á um þagn­ar­skyldu end­ur­skoð­enda í lögum og láta emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara í té upp­lýs­ingar og gögn varð­andi bók­hald og reikn­ings­skil allra félaga Sam­herj­a­sam­stæð­unnar á árunum 2011 til 2020. Einnig þurfti fyr­ir­tækið að láta hér­aðs­sak­sókn­ara hafa upp­lýs­ingar og gögn sem varða áður­nefnda skýrslu sem KPMG vann um starf­semi Sam­herja á árunum 2013 og 2014.

Þrátt fyrir miklar mót­bárur Sam­herja, jafn tækni­legar og efn­is­leg­ar, þá var þeirri ákvörðun ekki hnekkt. 

Auglýsing

Í sumar var svo birtur úrskurður Per­sónu­verndar um kvörtun Þor­steins Más, sem hann lagði fram í októ­ber 2020, vegna vinnslu per­sónu­upp­lýs­inga um hann. Þar kemur fram að gögnin sem Þor­steinn er ósáttur með með­ferð­ina á eru þrír diskar, með sam­tals um sex þús­und gíga­bæti af gögn­um, sem lagt var hald á við hús­leit gjald­eyr­is­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands í höf­uð­stöðvum Sam­herja árið 2012. 

Þor­steinn Már taldi að eyða hefði átt gögn­unum eftir að mála­rekstri Seðla­bank­ans gegn Sam­herja lauk, en lesa má um þau mála­lok hér. Gögn­unum var hins vegar ekki eytt. Þvert á móti voru þau borin undir hann í skýrslu­töku hjá emb­ætti skatt­rann­sókn­ar­stjóra og þar upp­lýst um að þeirra hefði verið aflað frá hér­aðs­sak­sókn­ara sem hafði fengið þau frá Seðla­banka Íslands.

Hér­aðs­sak­sókn­ari fékk gögnin eftir að hafa lagt fram beiðni um afhend­ingu á grund­velli laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka vegna þess að emb­ættið mat það sem svo „að gögnin gætu haft sönn­un­ar­gildi við yfir­stand­andi rann­sókn.“

Í úrskurði Per­sónu­verndar kemur fram að stofn­unin telur að miðlun per­sónu­upp­lýs­inga um Þor­stein Má til emb­ættis hér­aðs­sak­sókn­ara hafi sam­rýmst lög­um. Á meðal gagna sem þarna um ræðir eru tölvu­póstar, upp­lýs­ingar um fjár­mál Þor­steins og ýmis­legt fleira.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar