Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar mun Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra leggja fram frumvarp strax í nóvember næstkomandi um svokölluð flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu. Lítið hefur heyrst af útfærslu þessara gjalda, sem eiga þó að fjármagna helminginn af öllum þeim samgönguframkvæmdum sem framundan eru á höfuðborgarsvæðinu næsta rúma áratuginn.
„Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag gjaldtöku í formi flýti- og umferðargjalda á höfuðborgarsvæðinu með gildistöku hinn 1. janúar 2024,“ segir í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, en þar kemur einnig fram að markmið frumvarpsins sé að standa „standa straum af stofnframkvæmdum samgöngumannvirkja, fjármögnun og afleiddum kostnaði slíkrar uppbyggingar.“
„Gjöldunum er ætlað að tryggja nauðsynlega fjármögnun um leið og þeim er ætlað að stuðla að því að markmiðum Samgöngusáttmála ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði náð,“ segir í þingmálaskránni.
Umferðargjöld eiga að skila 60 milljörðum króna til framkvæmda
Þegar ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sömdu um 120 milljarða fjárfestingu í samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 var boðað að ríkið kæmi með 45 milljarða að borðinu, að meðtöldu söluverðmæti Keldnalandsins, og sveitarfélögin 15 milljarða. Þá stóðu eftir 60 milljarðar, sem boðað var að innheimta skyldi með sérstökum flýti- og umferðargjöldum.
Sem áður segir hefur hins vegar lítið heyrst af áformum yfirvalda hvað þennan síðasta lið varðar. Félagið Betri samgöngur ohf., sem ríkið og sveitafélög höfuðborgarsvæðisins stofnuðu og eiga í sameiningu, mun hins vegar hafa það á sínum herðum að innheimta þessi nýju gjöld lögum samkvæmt.
Það er hins vegar stjórnmálamanna að útfæra gjöldin, setja fram og fá samþykkt lagafrumvarp sem heimilar gjaldtökuna á Alþingi.
Í erindi sem Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna hélt á fundi hjá Vegagerðinni snemma á árinu sagði hann frá því að samtal væri hafið milli sveitarfélaga, ríkisins og Betri samgangna um útfærslu þessara gjalda.
Sjálfvirk gjaldtaka í Fossvogsdal og við Elliðaárósa rýnd
Í kjölfarið óskaði Kjarninn eftir því að fá frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu öll fyrirliggjandi gögn sem tengdust mögulegri álagningu gjalda af þessu tagi á akandi umferð á höfuðborgarsvæðinu.
Í febrúar greindi Kjarninn svo frá því að Betri samgöngur hefðu þegar um haustið 2021 lagt fram tillögur til ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að hafist yrði handa við að útfæra gjöldin, með það fyrir augum að þau yrði lögð á frá 1. janúar 2023.
Minnisblaðið sem Betri samgöngur sendu ríkinu og sveitarfélögunum má nálgast hér, en í því er meðal annars dregin upp gróf mynd af því hversu há veggjöldin þyrftu að vera á annatímum og utan þeirra til þess að nægt fé innheimtist árlega.
Fimmtíukall á hverja ferð myndi skila 5,1 milljarði í tekjur á ári
Fjármögnunaráætlun samgöngusáttmálans frá 2019 gerði ráð fyrir því að 5 milljarðar yrðu innheimtir árlega á 12 ára tímabili með þessum gjöldum, alls 60 milljarðar sem áður segir.
Í minnisblaðinu voru settir fram grófir útreikningar um það hve mikið þyrfti að rukka fyrir akstur í gegnum tollahlið sem sett væru upp við akstursleiðir inn að miðsvæði höfuðborgarinnar, í Fossvogsdal og svo á bæði Miklubraut og Reykjanesbraut við ósa Elliðaráa, en Betri samgöngur fengu verkfræðistofuna Eflu til þess að vinna skýrslu um uppsetningu tollahliða á þeim stöðum.
Þar kom fram að ef allar ferðir í gegnum tollahliðin myndu kosta 50 krónur og sama gjaldið væri rukkað allan sólarhringinn myndi það skila 5,1 milljarði í árlegar tekjur, ef gengið væri út frá því að daglegar ferðir um í gegnum tollahliðin væru 250 þúsund talsins.
Einnig var farið yfir það hvernig gjöldum af þessu tagi er beitt í öðrum borgum á Norðurlöndunum til þess að létta á bílaumferð á háannatímum.
Í minnisblaði Betri samgangna sagði að minnsta kosti þrenns konar hvata væri hægt að innifela í gjaldskrá.
- I. Hvata til að nýta aðra ferðamáta og draga þannig úr umferðartöfum og umhverfisáhrifum samgangna í heild.
- II. Hvata til að aka utan annatíma virka daga og draga þannig úr umferðartöfum og umhverfisáhrifum bílaumferðar.
- III. Hvata til vistvænnar endurnýjunar bifreiðaflotans og að draga þannig úr umhverfisáhrifum bílaumferðar
Hærri gjöld til að fjármagna rekstur almenningssamgangna?
Í minnisblaðinu frá stjórn Betri samgangna, sem leidd er af Árna Mathiesen fyrrverandi ráðherra, sagði að af fyrirliggjandi gögnum mætti ráða að flýti- og umferðargjöld gætu verið góður kostur til að ná settum markmiðum samgöngusáttmálans og að það ættu ekki að vera tæknilegar hindranir í innleiðingu þeirra á höfuðborgarsvæðinu.
Hins vegar sagði að til að sátt yrði um gjaldtökuna væri ljóst að svara þyrfti fjölmörgum spurningum til viðbótar, til dæmis hvort það væri „æskilegt og sanngjarnt að taka gjald af umferð víðar“ en einungis við helstu stofnæðir inn á og út af miðsvæði Reykjavíkurborgar, eins og horft var til í þeim greiningum sem Betri samgöngur fólu verkfræðistofunni Eflu að framkvæma.
„Þá þarf að greina greiðsluvilja vegfarenda, meta hver upphæð gjalda þarf að vera á annatímum og utan annatíma til að bæta umferðarflæði, minnka tafir og mengun. Þá er mikilvægt að ræða hvort innheimta eigi hærri gjöld og nýta eigi hluta þeirra í rekstur almenningssamgangna til að auka tíðni og þjónustu þeirra og bæta valkosti vegfarenda um leið og gjöldin verði innleidd,“ sagði í minnisblaði Betri samgangna.
Þetta mun væntanlega allt verða til umræðu á Alþingi síðar á árinu, ef fjármálaráðherra leggur fram fyrirhugað frumvarp sitt eins og gert er ráð fyrir í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.