Smásölurisinn Walmart hefur lengi stært sig af því að selja svo til allt. „Ef það fæst ekki í Walmart þá er það ekki til“ er frasi sem fyrirtækið notaði um árabil til að leggja áherslu á að Walmart væri staðurinn fyrir alla, þar væri hægt að gera svo til öll innkaup heimilisins.
Það er ekki hægt að segja annað en að þessi ímynd hafi skilað sér til neytenda. Walmart er risavaxið fyrirtæki og stærsti vinnuveitandi Norður-Ameríku, það er Bandaríkjanna og Kanada, með 2,2 milljónir starfsmanna, þar af 1,4 milljónir í Bandaríkjunum. Heildartekjur fyrirtækisins árið 2014 og fram yfir lok janúarmánaðar á þessu ári námu 482 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 62 þúsund milljörðum króna. Til samanburðar nemur árleg landsframleiðsla Íslands um tvö þúsund milljörðum, og því eru árlegar tekjur Walmart á við ríflega þrjátíufalda árlega landsframleiðslu Íslands.
Fyrirtækið heldur úti meira en ellefu þúsund verslunum og hefur stóreflt verslunarþjónustu á internetinu að undanförnu og nær hún til 28 landa.
Rétturinn til að selja...allt
Þetta rótgróna fyrirtæki, sem Sam Walton stofnaði árið 1962, hefur lengi verið umdeilt hér í Bandaríkjunum. Ekki aðeins vegna starfsmannastefnu, sem hefur falist í því að borga eins lág laun og hægt er að komast upp með, heldur ekki síður fyrir að berjast af hörku gegn öllum takmörkunum sem settar eru á verslunarþjónustu fyrirtækisins. Þetta á ekki síst við um sölu fyrirtækisins á byssum, sem nú er komin í hámæli, enn einu sinni. Ástæðan er sú að fyrirtækið ákvað, nokkuð óvænt, að taka úr sölu AR 15 riffla (Assault rifles). Walmart, líkt og Samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum (NRA), hefur til þessa ekki skilgreint AR 15 sem árásariffla heldur flokkað þá sem riffla til afþreyingar eða íþróttaiðkunar (Sporting rifles) og þá á þeirri forsendu, að byssur af þessari tegund teljist ekki með sjálfvirki hleðslu þó þær séu hálfsjálfvirkar (Semiautomatic). Þar sé línan dregin þegar komið að skilgreiningu á árásarvopnum.
Wal-Mart to stop selling AR-15, other semi-automatic rifles http://t.co/O1v8gkw1xb via @Reuters
— Debby Williams (@dwilliams1210) August 26, 2015
Samtök sem berjast gegn aðgengi almennings að hættulegum skotvopnum hafa hins vegar lagt áherslu að aðskilja ekki AR 15 riffla, og aðrar byssur sem ekki eru með sjálfvirkri hleðslu, frá árásarifflum. Í raun sé ekki hægt að taka út vopn, sem allir geti verið sammála um að sé stórhættulegt, og skilagreina það sem vopn sem nota eigi í afþreyingartilgangi. Það sé of mikil einföldun á stóra samhenginu.
Ekki af ástæðulausu
En það er ekki úr lausu lofti gripið að Walmart er að taka AR 15 rifflana úr sölu, jafnvel þó opinbera skýringin sé sú að salan hafi ekki staðið undir væntingum. Vopninu hefur verið beitt ítrekað í skotárásum, meðal annars í hrikalegri skotárás á skóla í Newton í Connecticut, þegar hinn tvítugi Adam Lanza skaut tuttugu börn til bana, 14. desember 2012. Þá notaði James Holmes vopnið í árás á bíógesti í Colorado, 20. júlí 2012. Þá voru tólf gestir á miðnætusýningu um Leðurblökumanninn, Batman: The Dark Knight, myrtir og gerði Holmes tilraun til þess að drepa sjötíu til viðbótar, áður en hann gafst upp. Í gær var Holmes formlega dæmdur til tólffaldrar ævinlangrar fangelsisvistar og sagði dómarinn, Carlos A. Samour, lögreglustjóranum sem fylgdi Holmes inn í dómsal, að fara fljótt með hann þaðan þungur á brún, eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp.
James Holmes gets 12 life sentences in Aurora shootings http://t.co/If7em9NouD pic.twitter.com/Ulun2vEjRP
— The New York Times (@nytimes) August 26, 2015
Fleiri byssur í umferð en áður
Byssuglæpir í Bandaríkjunum eru ótrúlega margir og á fjöldinn sér engin fordæmi meðal þróaðra ríkja. Fyrir hverja milljón íbúa eru 29,7 morð framin á hverju ári. Til samanburðar þykir mjög hátt í öðrum ríkjum ef hlutfallið fer fyrir tvö morð, en í Þýskalandi er meðaltalið 1,9 morð. Í Svíþjóð og Finnlandi hafa miklar áhyggjur vaknað hjá yfirvöldum á undanförnum árum, en þar fór hlutfallið upp í 4,4 morð árið 2012 í Finnlandi og 4,1 morð í Svíþjóð á sama tíma. Vissulega alltof mikið, en samt órafjarri því ógnvænlega háa hlutfalli sem er í Bandaríkjunum.
Þessi mynd birtist með umfjöllun fjölmiðlisins Vox, þegar byssumorð í Bandaríkjunum voru til umfjöllunar. Myndin sýnir fjölda morða á hverja eina milljón íbúa, hjá þróuðum ríkjum. Mynd: Vox.
Byssusala hefur aukist nokkuð í Bandaríkjunum að undanförnu og eru upplýsingar um bakgrunnseftirlit Alríkislögreglunnar (FBI) til marks um það. Í júlí á þessu ári var bakgrunnur kaupendanda skoðaður í 1,6 milljónir skipta en á sama tíma í fyrra gerðist það í 1,4 milljón skipti.
Tölur um almenna útbreiðslu skotvopna í Bandaríkjunum þykja um margt óáreiðanlegar, þar sem svarti markaðurinn með skotvopn er einnig ógnarstór. En sé horft til skráðra skotvopna þá eru Bandaríkin alveg sér á báti, nánast í sama hlutfalli og með byssuglæpina. Af ríflega 640 milljónum skráðra skotvopna í heiminum, sem eru í eigu almennra borgara, þá er um 42 prósent af þeim í eigu einstaklinga í Bandaríkjunum. Í mörgum ríkjum, einkum í miðríkjunum og einnig í suðurhluta Bandaríkjanna, þá er venja að fleira en eitt skotvopn sé á hverju heimili.
Smásalarnir geta haft mikil áhrif
Ákvörðun Walmart um að taka úr sölu AR 15 rifflana er kannski ekki stórt skref í baráttunni gegn byssuglæpum, en hún þykir táknræn fyrir þá breytingu sem orðið hefur á viðhorfum fólks til byssueignar almennings. Það sýna kannanir, og orð Barack Obama Bandaríkjaforseta frá því í sumar, um að „eitthvað væri að“ í Bandaríkjunum þegar kæmi að meðferð og útbreiðslu skotvopna, sýna líka að þetta er að ná eyrum æðstu ráðamanna landsins. Nú síðast í dag sagði Obama í viðtali við ABC, vegna skotárásar á fjölmiðlafólkið Alison Parker og Adam Ward í gær sem leiddi til dauða þeirra beggja, að þetta væri eitthvað sem hitti hann í hjartastað í hvert sinni sem sagt væri frá atvikum sem þessum. „Það sem tölurnar segja okkur er að það eru margfalt fleiri sem deyja í byssutengdum glæpum í landinu heldur vegna hryðjuverka á hverju ári,“ sagði Obama, og talaði fyrir því að umræða um byssutengda glæpi og byssueign almennings fengi jafn mikið vægi og hún ætti skilið á opinberum vettvangi. Þetta væri eitthvað sem mætti ekki líta framhjá að væri innanmein í Bandaríkjunum.
Smásalar geta haft mikil áhrif á það hversu mikil útbreiðsla á byssum í Bandaríkjunum er. Ýmsir hafa gagnrýnt að fyrirtæki eins og Walmart, sem hefur svo til allt til sölu, skuli einnig selja margar tegundir skotvopna. Viðskiptalegir hagsmunir séu ekki svo miklir í stóra samhengi hlutanna og að betur færi á því að takmarka söluna við sérhæfðari verslanir sem almenningur á ekki oft erindi í.
En þetta risavaxna fyrirtæki sem jafnfram er stærsti vinnuveitandi Bandaríkjanna hefur barist fyrir því með kjafti og klóm að lögin takmarki ekki rétt fyrirtækisins þegar kemur að sölu á skotvopnum. Það sé svo fyrirtækisins að ákveða hvað sé til sölu á hverju tíma. Kory Lundberg, talsmaður Walmart, áréttaði þennan skilning í tilkynningu frá fyrirtækinu í gær og bætti síðan við í samtali við Quartz að þessi ákvörðun, um að taka AR 15 rifflana úr sölu, byggði einungis á viðskiptahagsmunum Walmart, en vekti líklega meiri athygli vegna þess að varan væri tengd umræðu um meðferð skotvopna.
https://www.youtube.com/watch?v=YWRpvWAIV0c