Hallinn á íslenska lífeyriskerfinu verður yfir eitt þúsund milljarðar króna á næsta ári, þegar byrjað verður að reikna auknar ævilíkur Íslendinga inn í stöðu þess. Það þýðir að það vanti rúmlega eitt þúsund milljarða króna til þess að kerfið geti staðið undir þeim skuldbindingum sem það hefur heitið sjóðsfélögum sínum, landsmönnum öllum.
Íslenska ríkið „skuldar“ lífeyrissjóðunum stærstan hluta þessarrar upphæðar vegna ábyrgðar sem það er í vegna lífeyrissjóðsgreiðslna opinberra starfsmanna. Ekki hefur verið gripið til neinna beinna aðgerða til að taka á þessum vanda undanfarin ár, hvorki af hálfu síðustu ríkisstjórn né þeirri sem nú situr. Því eykst vandinn ár frá ári.
Tvö kerfi
Lífeyrissjóðir landsins eru tvennskonar. Annars vegar eru þeir sem teljast til almenna kerfisins og hins vegar eru þeir sem eru með ábyrgð opinbera aðila, ríkis eða sveitarfélaga. Þegar horft er á alla sjóðina, bæði opinbera og almenna, þá voru skuldbindingar þeirra um 2.933 milljarðar króna í lok síðasta árs.
Kjarninn greindi frá því í gær að skuldbindingar íslenskra lífeyrissjóða muni aukast um 10-15 prósent á næsta ári þegar byrjað verður að reikna með auknum ævilíkum Íslendinga við útreikninga á skuldbindingum þeirra.
Miðað við það munu skuldbindingarnar hækka um 293 til 440 milljarða króna á einu bretti með þessum breyttu reikningsaðferðum.
Miðað við það munu skuldbindingarnar hækka um 293 til 440 milljarða króna á einu bretti með þessum breyttu reikningsaðferðum. Lífeyrissjóðirnir hafa út næsta ár til að bregðast við þessari stöðu. Það munu þeir þurfa að gera með því að hækka eftirlaunaaldur, hækka iðgjöld sem við borgum til þeirra um hver mánaðarmót og breyta dreifingu réttinda.
Allt að 1.100 milljarða mun vantar í sjóðina
Í lok síðasta árs vantaði 664 milljarða króna inn í íslensku lífeyrissjóðina til að þeir gætu staðið við þessar skuldbindingar. Við breytingu á reikningsaðferð mun sá halli aukast í 957 til 1.104 milljarða króna miðað við stöðuna í árslok í fyrra. Það mun, með öðrum orðum, vanta í besta falli tæplega eitt þúsund milljarða króna til að sjóðirnir geti borgað út það sem þeir hafa skuldbundið sig til.
Vandi kerfanna, hins almenna annars vegar og hins opinbera hins vegar, er mjög misjafn. Um síðustu áramót vantaði 596 milljarða króna inn í opinberu sjóðina. Þeir eru um það bil 40 prósent af kerfinu í heild og því má ætla að 117 til 176 milljarðar króna bætist við þá hít sem ríki og sveitarfélög skulda inn í lífeyriskerfið sem þau bera ábyrgð á. Samtals er hallinn á því kerfi, sem vex ár frá ári, því orðin 713 til 772 milljarðar króna. Langstærsti hluti þessarrar skuldar er við B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
Fjöldi Íslendinga sem eru yfir 67 ára aldri mun þrefaldast á næstu 45 árum. Hagstofa Íslands spáir því að árið 2060 verði þeir 97 þúsund.
Almenna kerfið er í betri málum, þótt það þurfi sannarlega að bregðast við þeim breytta veruleika sem síaukið langlífi skapar lífeyrissjóðunum. Halli þess var um 68 milljarðar króna í lok síðasta árs. Við breytinguna á reikningsaðferðum á stöðu sjóðanna munu 176 til 264 milljarðar króna bætast við skuldbindingar þeirra.
Þessu verður óhjákvæmilega mætt með því að hækka eftirlaunaaldur í allt að 70 ár, með því að hækka iðgjöldin sem við borgum til sjóðanna um hver mánaðarmót og með einhverskonar skerðingu réttinda, til dæmis með því að dreifa töku lífeyris á fleiri ár.
Lögum breytt til í stað þess að taka á vandanum
Þessar aðferðir duga hins vegar ekki opinbera kerfinu einar og sér. Þar þarf líka að greiða inn í kerfið til að brúa þann gríðarlega halla sem skapast hefur á B-deildum opinberu sjóðanna vegna sinnuleysis stjórnvalda undanfarin ár. Á árunum fyrir hrun var reyndar byrjað að takast á við hallann og frá árinu 1999 fram að hruni voru nokkrir milljarðar króna greiddir árlega til að minnka gatið. Því var snarlega hætt eftir hrun og engin þeirra ríkisstjórna sem setið hafa síðan þá hefur séð tilefni til að byrja á slíkum greiðslum aftur. Á meðan stækkar gatið dag frá degi.
Í stað þess að taka á vandamálinu er hins vegar lagt fram nýtt lagafrumvarp árlega sem heimilar opinberu sjóðunum að safna meiri halla.
Vandamálið liggur þó ekki bara hjá B-deildunum, heldur líka hjá A-deildum sjóðanna. Sá halli sem er á þeim er beinleiðis ólöglegur. Í stað þess að taka á vandamálinu er hins vegar lagt fram nýtt lagafrumvarp árlega sem heimilar opinberu sjóðunum að safna meiri halla.
Nú síðast var það lagt fram í september síðastliðnum . Samkvæmt lögum mátti ekki reka A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og sömu deild innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríksins með meira en 11 prósent halla. Sveitafélagasjóðurinn var rekinn með 12,5 prósent halla og A-deild LSR með 11,7 prósent halla árið 2013. Til að takast á við þessa stöðu var svigrúmið einfaldlega hækkað upp í 13 prósent með nýju lagafrumvarpi og sá tími sem heimilt er að reka sjóðinayfir 10 prósent halla lengdur úr sex árum í sjö. Árið í ár er því sjöunda árið í röð sem A-deild sjóðsins er neikvæð. Haldi þetta áfram verður sjóðurinn auðvitað á endanum tómur.
Séreignakerfi verður húsnæðissparnaður
Það virðist samt vera að Íslendingar séu ekkert mikið að hugsa um þessi mál. Þessi grafalvarlega staða lífeyrissjóðakerfisins nær vart inn í hið pólitíska svið og lítill þrýstingur virðist vera um úrbætur í opinberri umræðu, nema frá lífeyrissjóðunum sjálfum.
Þess utan virðast ekki margir vera að átta sig á hversu mikil kjaraskerðing fylgir því að fara á eftirlaun. Hún ýtir mörgum undir lágmarksframfærsluviðmið, sem eru í dag um 290 þúsund krónur samkvæmt velferðarráðuneytinu.
Til Íslendingar gætu átt í sig og á í ellinni var séreignarlífeyrissparnaðarkerfi því ýtt úr vör. Þar varð mikil eignarmyndun allt þar til að síðasta ríkisstjórn ákvaða að heimila fólki að taka út séreignarsparnaðinn sinn til að eyða í skammtímavandamál. Þessi leið var líka tekjuöflunarleið fyrir ríkið, sem skattleggur útgreiðslurnar.
Vegna þess höfðu um 100 milljarðar króna flætt út úr séreignarkerfinu um síðustu áramót. eftir sátu rúmlega 400 milljarðar króna.
Vegna þess höfðu um 100 milljarðar króna flætt út úr séreignarkerfinu um síðustu áramót. eftir sátu rúmlega 400 milljarðar króna. Til viðbótar er sitjandi ríkisstjórn að bjóða fólki hið ómótstæðilega tilboð að láta séreignarsparnaðinn sinn renna í að borga niður húsnæðislán sín, skattfrjálst. Upphaflega átti þessi leið að vera til fjögurra ára en mikill pólitískur vilji er til að hún verði framlengd.
Ljóst er að ef af því verður mun sú stjórnvaldsákvörðun að breyta séreignarsparnaði flestra í húsnæðissparnað ganga mjög nærri séreignarkerfinu. Þá er eins gott að allir geti fengið gott verð fyrir húsin sín þegar þeir eru komnir á eftirlaun og geti þá notað ágóðan til að brúa bilið frá lífeyri og upp að lágmarksframfærslu.