Tíu árum eftir bankahrun er íslenskt samfélag enn eins og púðurtunna. Það þarf bara lítinn neista til þess að það springi upp. Tortryggnin er algjör. Traustið er lítið sem ekkert.
Þetta er ekki bundið við átök milli vinstri og hægri. Femínista og afturhaldskalla. Verkalýð og fjármagnseigendur. Þessi skotgrafahernaður er alls staðar í marglaga samfélagi og á sér stað á nánast öllum flötum tilveru okkar.
Stjórnmálalandslagið hefur gjörbreyst á örfáum árum vegna þessa. Fjórflokkurinn, sem var uppistaðan í íslenskum stjórnmálum áratugum saman og fékk að jafnaði yfir 90 prósent greiddra atkvæða, hefur hrunið. Því meira sem forystumenn hans kalla eftir að kjósendur hverfi aftur til þess stöðugleikatímabils sem þeir telja að þeir hafi boðið okkur upp á áður fyrr, því dreifðari verða atkvæðin. Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn fengu um 90 prósent atkvæða 2007 og 2009, tæplega 75 prósent 2013, 62,1 prósent 2016 og 64,9 prósent í fyrra. Í nýjustu könnun MMR mælist samanlagt fylgi þeirra 57,3 prósent.
Samt er Ísland enn púðurtunna. Sem springur við hvern neista. Það gerðist við hrunið. Það gerðist við birtingu Panamaskjalanna. Það gerðist þegar leyndarhyggjan og sérhagsmunagæslan í kringum uppreist æru-málið var opinberuð. Allt voru þetta neistar sem enginn sá fyrir. Enginn átti von á fyrr en þeir kviknuðu. Rétt eins og verður með næsta neista.
Braggi fyrir rúmlega 400 milljónir
Ástæðan fyrir þessu ástandi er margtugginn og augljós: almenningur treystir ekki stjórnmálamönnum vegna þess að þeir hafa ekki gefið honum neitt tilefni til þess að treysta sér. Stóra breytan í því vantrausti er sú staðreynd að íslenskum stjórnmálamönnum er lífsins ómögulegt að axla ábyrgð þegar þeir gera mistök.
Líkt og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sjónvarpsþætti fyrir tæpu ári: „Hér hefur auðvitað ekki verið mikil hefð fyrir því til að mynda að ráðherrar segi af sér eða eitthvað slíkt. Það hefur ekki verið hluti af menningunni. Ég held að það sé mjög erfitt að breyta því yfir nótt. Svo maður segi það alveg hreint út.“
Nýjasta hneykslismálið sem skekur þjóðina er óverjanleg framúrkeyrsla Reykjavíkurborgar við endurgerð á bragga í Nauthólsvík. Verkið átti að kosta 158 milljónir króna en kostnaður nú, þegar verkinu er ekki lokið, er kominn yfir 400 milljónir króna. Sumt í þessu verki, eins og ýmis rukkaður kostnaður hluta verktaka, er þess eðlis að þeir hafi umgengist verkið eins og matarholu sem hægt var að blóðnýta. Annað, eins og kaup á stráum frá Danmörku fyrir 757 þúsund krónur til að skapa „strandstemmningu“ er beinlínis fáránlegt. Og væri hreinlega fyndið ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að með kaupum á þessum stráum var verið að misfara með fé úr samneyslu borgaranna.
Þetta mál er ekkert öðruvísi en önnur þar sem misfarið er gróflega með almannafé: einhver á að axla pólitíska ábyrgð á því með afsögn. Á því á ekki að vera neinn afsláttur.
Löng saga bruðls með fé borgarbúa
Líklega mun þó enginn gera slíkt. Ekki frekar en fyrir rúmum áratug þegar framkvæmdir við stækkun Laugardalsvallar kostuðu borgina mörg hundruð milljónir króna meira en áætlanir sögðu til um.
Eða þegar Orkuveituhúsið, sem átti að kosta 2,3 milljarða króna í byggingu, endaði með því að kosta 8,5 milljarða króna á verðlagi ársins 2010.
Eða þegar ríki og borg undirrituðu samkomulag um að taka yfir og klára byggingu Hörpu snemma árs 2009 þar sem forsendur yfirtöku verkefnisins var að ekki þyrfti að koma til önnur framlög en gert var ráð fyrir í samningi frá árinu 2006, milli Austurhafnar-TR og Portusar. Síðan hefur komið í ljós að ef rekstrartap Hörpu, framlög ríkis og Reykjavíkurborgar vegna skulda hennar og rekstrarframlögin sem ríkið hefur reitt af hendi vegna starfseminnar eru lögð saman að uppsafnað tap Hörpu frá byrjun árs 2011 og til loka árs 2017 er um 11,5 milljarðar króna. Þetta tap lendir á eigendunum, skattgreiðendum í landinu. Til viðbótar munu að minnsta kosti bætast við um 1,5 milljarður króna vegna framlags ríkis og borgar í ár.
Bruðl með fé ríkissjóðs
Það eru ekki bara framkvæmdir í Reykjavík sem fara langt fram úr áætlunum. Skemmst er að nefna það þegar stjórnmálamenn þvert á pólitískar línur bundust höndum og ákváðu að dulbúa gerð Vaðlaheiðarganga sem einkaframkvæmd árið 2012 til að svindla henni fram fyrir á samgönguáætlun. Þá átti ríkið að lána 8,7 milljarða króna í verkið og veggjöld áttu að greiða það allt til baka. Nú er staðan sú að í fyrra var gerð úttektarskýrsla sem komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin geti ekki talist eiginleg einkaframkvæmd, heldur sé hún í raun ríkisframkvæmd, þótt hún hefði ekki verið kynnt sem slík. Já, og heildarkostnaður er nú áætlaður allt að 17 milljarðar króna.
Það má líka nefna að Héðinsfjarðargöng fóru rúmlega 2,2 milljarða króna fram úr áætlun. Og þegar ákveðið var að gera skyndilega nýjan samning við meðferðarheimili í Skagafirði sem kostaði ríkissjóð 450-500 milljónir króna þrátt fyrir að heimilið hafi að jafnaði hýst 1-3 einstakling á samningstímanum. Það var aðgerð sem þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu sagði að hefði verið „skelfileg meðferð á opinberu fé.“
Eða þegar flokksgæðingur sem ítrekað hefur lent í vandræðum með að segja satt fær gefins tíu milljónir króna til að endurskrifa söguna í skýrslu sem var jafn fyrirsjáanleg og barnaleg og lægð að hausti. Svo fátt eitt sé nefnt. Auðvitað eru dæmin mun fleiri.
Nú skal taka fram að sum verkefni sem eru illa unnin eru samt nauðsynleg. Það er til að mynda varla til betri langtímafjárfesting fyrir skattfé sem nýtist framtíðarkynslóðum en í innviðum eins og göngum og öðrum samgönguúrbótum. En það réttlætir samt ekki beitingu blekkinga og slóðaskapar með almannafé við að koma verkefnunum á koppinn.
Allt hitt
Þetta eru bara örfá dæmi um það þegar óboðleg framúrkeyrsla eða ömurleg notkun á almannafé á sér stað á ábyrgð, eða fyrir tilverknað, stjórnmálamanna. Enginn sagði af sér vegna þeirra. Engum datt það einu sinni í hug.
Þá er auðvitað ótalið öll hin tilefnin þegar stjórnmálamenn sýna af sér hegðun sem hefði átt að leiða til afleiðinga. Til dæmis þegar dómsmálaráðherra braut gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, bakaði íslenska ríkinu miskabótaskyldu og mögulega umtalsverða skaðabótaskyldu. Eða þegar ráðherrar brutu jafnréttislög.
Eða þegar ráðherra hélt vísvitandi frá almenningi tveimur skýrslum í aðdraganda snemmbúinna kosninga, sem fjölluðu annars vegar um það mál sem leiddi til kosninganna og hins vegar hvernig útfærsla á stærsta pólitíska stefnumáli fráfarandi ríkisstjórnar skilaði milljörðum króna í vasann á efnuðu fólki sem þurfti sannarlega ekki á neinni meðgjöf frá ríkissjóði að halda.
Gjörðum eiga að fylgja afleiðingar
En stjórnmálamenn á Íslandi segja ekki af sér. Það er ekki hefð fyrir því. Þegar íhalds- eða hægrimaður í valdastöðu brýtur lög eða er grunaður um að misfara með fé þá grípa miðju- og vinstrimenn andann á lofti, heimta afsagnir og rifja upp Toblerone-söguna frá Svíþjóð. Þegar miðju- eða vinstrimenn eru grunaðir um það sama rifja íhald- og hægrimenn upp sömu sögu og krefjast afsagnar.
Lausnin er einföld: þegar stjórnmálamenn verða uppvísir af óábyrgu hátterni, vitlausum ákvörðunum, leyndarhyggju, lögbrotum eða því að misfara með fé almennings þá er rétt og eðlilegt að þeir segi af sér. Enginn er svo mikill náttúrutalent, svo bráðnauðsynlegur, að við getum ekki án hans verið. Þetta er bara fólk sem getur gert mistök eins og aðrir. Þau þurfa ekkert að hafa verið gert vegna annarlegra sjónarmiða, þótt það sé vitanlega stundum þannig. Oft er einfaldlega um andvaraleysi að ræða og ekki nægilega mikla virðingu fyrir því hversu mikilvægt og vandmeðfarið það er að vera treyst fyrir því að starfa sem kjörinn fulltrúi almennings.
En íslenskir stjórnmálamenn líta ekki svona á málin. Þeir telja sig ómissandi og að persónuleg vera þeirra á valdastóli sé mikilvægari en traust almennings gagnvart valdastofnunum. Þrjóska, skilningsleysi og viljaleysi einkennir afstöðu þeirra. Og stundum gegndarlaus hroki.
Til að leysa þetta, og aftengja púðurtunnuna, þá þurfa stjórnmálamenn að hætta að kenna alltaf hvorum öðrum um og heimta afsagnir andstæðinga sinna í pólitískum hráskinnaleik. Þeir þurfa að horfa inn á við, finna getu til að viðurkenna eigin mistök og leiðir til að axla ábyrgð vegna þeirra. Þá munu stjórnmálamenn framtíðar líka vita að gjörðum þeirra fylgja afleiðingar, og vanda sig meira fyrir vikið.
Þá kannski fer þetta allt saman að lagast.