Auglýsing

Fram er komið frum­varp til að styrkja rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla. Það var, væg­ast sagt, tíma­bært að ráða­menn rönk­uðu úr rot­inu og gripu í taumana ef þeir þá yfir höfuð ein­hvern áhuga á að reka hér öfl­uga, frjálsa og gagn­rýna fjöl­miðla sem vinna að því að upp­lýsa almenn­ing með því að segja satt, rann­saka og skapa sam­hengi.

Flestir einka­reknir fjöl­miðlar í þessu örsam­fé­lagi eru enda reknir í hug­sjóna­starf­semi þar sem starfs­menn og stjórn­endur leggja meira á sig en eðli­legt er til að halda hlut­unum gang­andi, en passa sig á að halda öllum kostn­aði í lág­marki til að halda óhæði og sjálf­stæði.

Svona hefur þetta verið und­an­farin ára­tug, á meðan að allt rekstr­ar­um­hverfið hefur kúvenst vegna tækni- og upp­lýs­inga­bylt­ing­ar­innar sem hefur ger­breytt neyt­enda­hegðun og gengið nán­ast frá hefð­bundnum tekju­mód­elum fjöl­miðla.

Hún leiðir af sér að færri vilja greiða fyrir fréttir og frétta­vinnslu og hefur gert það að verkum að nýjar teg­undir miðla, sér­­stak­­lega sam­­fé­lags­mið­l­­ar, eru farnir að taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til íslenskra miðla. Á sama tíma hefur mis­notkun á frels­inu sem fylgir óheftu aðgengi að umræð­unni stór­auk­ist og fleiri sjá sér hag í því að koma röngum upp­lýs­ingum á fram­færi sem stað­reynd­um.

Auglýsing
Það er stað­­reynd að atgervis­flótti og speki­­leki er úr starfs­­stétt blaða- og frétta­­manna. Fært fólk end­ist ekki í starfi vegna lélegra launa, álags og áreitni sem því fylgir að fjalla um sam­­fé­lags­­mál í örsam­­fé­lagi. Þess­ari þróun þarf að snúa við. Nær öll lönd í kringum okkur átta sig á mik­il­vægi öfl­­ugra fjöl­miðla fyrir lýð­ræðið og gera sitt til að tryggja starf­­semi og öryggi þeirra.

Þess vegna er verið að bregð­ast við með tíma­bærum til­lögum um end­ur­greiðslur á hluta af rit­stjórn­ar­kostn­aði.

Að uppi­stöðu gott frum­varp

Að uppi­stöðu er frum­varp Lilju D. Alfreðs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, gott. Það er til að mynda nauð­syn­legt að vera með skil­yrði um rekstr­ar­sögu, starfs­manna­fjölda og um hversu stórt hlut­fall birts efnis þurfi að vera rit­stjórn­ar­efni sem bygg­ist á sjálf­stæðri frétta- og heim­ilda­öfl­un. Það tryggir að end­ur­greiðsl­urnar lendi hjá þeim sem frum­vinna mest efni og miðlum sem þegar hafa sannað til­veru­rétt sinn og eft­ir­spurn með því að hafa starfað í til­tekin tíma.

Þá er það rétt­læt­is­mál að und­an­skilja alla þá fjöl­miðla sem hafa ekki greitt lög­bundin gjöld til opin­bera aðila, líf­eyr­is­sjóða og stétt­ar­fé­laga frá því að vera hæfir til að fá end­ur­greiðslu. Of margir fjöl­miðlar hafa fengið að starfa óáreittir árum saman hér­lendis á síð­ustu árum, á grund­velli ólög­legra lána frá hinu opin­bera, án þess að gripið hafi verið í taumanna. Ganga  mætti lengra að koma einnig í veg fyrir að þeir sem hafa stundað þetta geti orðið sér úti um end­ur­greiðslur með nýrri kenni­tölu og nýju nafni. Þetta atferli hefur valdið öllum þeim fjöl­miðla­fyr­ir­tækjum sem keppa heið­ar­lega og lög­lega miklum skaða.

Verði frum­varpið að lögum mun það styrkja minni miðla á Íslandi feiki­lega mik­ið. Þeir munu geta ráðið fleira fólk og bætt alla sína starfs­að­stöðu. Allt nýtt fé verður nýtt til sókn­ar. Og sam­fé­lagið mun njóta góðs af því.

Svo virð­ast í burð­ar­liðnum frek­ari skref til að bæta umhverf­ið, t.d. með því að skerða veru RÚV á aug­lýs­inga­mark­aði og skil­greina skýrar hvert hlut­verk þess mið­ils eigi að vera í gegnum end­ur­nýjun á þjón­ustu­samn­ingi, sem rennur út á næsta ári.

Auk þess blasir við að það þurfi að taka vit­ræna umræðu um bann við aug­lýs­ingum frá t.d. áfeng­is­fram­leið­endum og veð­mála­fyr­ir­tækj­um, í ljósi þess að það bann skýlir engum frá slíkum aug­lýs­ingum og hefur ein­ungis þau áhrif í alþjóða­væddum heimi að skekkja sam­keppn­is­stöðu íslenskra fjöl­miðla. Að lokum verður vænt­an­lega fundnar leiðir til að láta sam­fé­lags­miðla og aðra erlenda tekju­keppi­nauta íslenskra miðla greiða skatt hér­lendis ef þeir ætla að höggva skörð í aug­lýs­inga­tekjukök­una.

Þessi frek­ari skref munu fyrst og síð­ast gagn­ast stærstu miðlum lands­ins: Frétta­blað­inu, Morg­un­blað­inu og frétta­stofu Sýn­ar. Þessir þrír aðilar munu einnig taka til sín 43 pró­sent af þeim 350 millj­ónum króna sem end­ur­greiðsl­urnar munu dreifa út.

En þetta er ekki nóg. Tveir þeirra, Frétta­blaðið og Morg­un­blað­ið, vilja að þessir þrír fái meira. Miklu, miklu meira. Og helst allt.

Hvað er vett­vangur per­sónu­legra skoð­ana?

Ingi­björg Pálma­dótt­ir, eig­andi Frétta­blaðs­ins, og Kristín Þor­steins­dótt­ir, útgef­andi þess, skrifa saman umsögn um frum­varpið. Þar leggja þær stöllur m.a. til að stærstu þrjár frétta­stofur lands­ins fái 200 millj­ónir króna á ári úr rík­is­sjóði í beina styrki. Þá vilja þær að skil­yrði um lág­marks­stærð verði breytt þannig að fjöldi þeirra sem starfi á rit­stjórn þurfi að minnsta kosti að vera 20 til að slík telj­ist styrk­hæf, í stað þriggja eins og nú er gert ráð fyr­ir. „Öflug frétta­stofa, sem hefur ein­hverja þýð­ingu fyrir sam­fé­lagið verður aldrei rekin af þremur starfs­mönn­um. Mið­ill með svo fáa starfs­menn verður aldrei nett annað en vett­vangur per­sónu­legra skoð­ana þeirra sem þar starfa sem að mati Torgs [eign­ar­halds­fé­lags Frétta­blaðs­ins] hefur ekki þá þýð­ingu fyrir sam­fé­lagið að rétt sé að styrkja með opin­beru fé.“

Auglýsing
Haraldur Johann­essen, annar rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins og fram­kvæmda­stjóri útgáfu­fé­lags þess Árvak­urs, og Sig­ur­björn Magn­ús­son, for­maður stjórnar Árvak­urs, taka í svip­aðan streng í sinni umsögn. Þeir vilja að gólfið verið sett við 10 til 20 starfs­menn ef ráð­ist verður í end­ur­greiðsl­urnar „enda verður tæp­ast haldið úti fjöl­miðli með almennri umfjöllun með minni rit­stjórn en þetta.“ En fyrst og fremst vilja þeir að eina íviln­unin sem ráð­ist verði í sé að virð­is­auka­skattur á áskriftir verði aflagð­ur. Það kalla þeir almenna aðgerð og þing­menn hlið­hollir Morg­un­blað­inu eru þegar farnir að berj­ast fyrir þess­ari leið. Hún myndi skila Morg­un­blað­inu hund­ruð millj­óna króna á ári en öðrum einka­reknum fjöl­miðlum litlu sem engu.

Þessar umsagnir eru ekki bara til að reyna að auka hlut Frétta­blaðs­ins og Morg­un­blaðs­ins heldur einnig til þess að gera lítið úr, og reyna að hefta, starf­semi allra ann­arra einka­rek­inna miðla eins og Kjarn­ans, Stund­ar­inn­ar, Hring­braut­ar, Mann­lífs, Við­skipta­blaðs­ins, DV, Grapevine, stað­bund­inna miðla á lands­byggð­inni, tíma­rita og sér­hæfðra syllu­miðla á borð við Fót­bolt­i.­net og Túrist­i.is svo fáeinir séu nefnd­ir.

Litlu miðl­arnir hafa skarað fram úr

Ef litið er á síð­ustu rúmu fimm ár þá er hægt að tína ýmis­legt til sem sýnir mik­il­vægi slíkra miðla fyrir sam­fé­lagið allt. Kjarn­inn hefur til að mynda hlotið til­­­nefn­ingu til blaða­­manna­verð­­launa á hverju ári sem hann hefur starf­að. Árið 2015 hlaut blaða­maður hans verð­­launin fyrir fyrir rann­­­sókn­­­ar­­­blaða­­­mennsku árs­ins, vegna umfjöll­unar um sölu Lands­­­bank­ans á eign­­­ar­hlutum sínum í Borg­un. Á meðal ann­arra umfjall­ana sem Kjarn­inn hefur leitt er ýmiss konar birt­ing á leyni­gögnum sem áttu mikið erindi við almenn­ing, umfangs­miklar grein­ingar um stöðu stjórn­mála og efna­hags­mála, frétta­skýr­ingar um stærstu við­skipta­f­réttir hvers tíma, umfjöllun Kjarn­ans um Leið­rétt­ing­una, þátt­­taka okkar í úrvinnslu Pana­ma­skjal­anna og umfjöllun okkar og lyk­il­­gagna­birt­ingar í Lands­rétt­­ar­­mál­inu. Umfangs­­mikil umfjöllun um stöðu kvenna í íslensku sam­­fé­lagi (sér­stak­­lega þegar kemur að stýr­ingu á fjár­­mun­um), umfjöllun um þær gríð­­ar­­lega miklu sam­­fé­lags­breyt­ingar sem eru að eiga sér stað hér­­­lendis vegna fjölg­unar á erlendum rík­­is­­borg­­urum og umfjöllun okkar um ójöfnuð í íslensku sam­­fé­lagi. Allt eru þetta umfjall­anir sem byggja á stað­­reyndum og hag­­tölum og hafa þannig getað myndað vit­rænt gólf fyrir umræðu um þessa mik­il­vægu sam­­fé­lags­þætti. Sam­hliða hefur byggst upp mikið traust á miðl­inum og rekst­ar­leg sjálf­bærni, sem end­ur­spegl­ast best í því að Kjarn­inn var rek­inn með hagn­aði á árinu 2018. Og þetta hefur rit­stjórn með þrjá til fimm fasta starfs­menn get­að.

Eng­inn mið­ill hefur fengið fleiri til­nefn­ingar til Blaða­manna­verð­launa á und­an­förnum árum en Stund­in. Í fyrra fékk rit­stjórn hennar þau verð­laun fyrir umfjöllun um upp­reist æru, máls sem sprengdi rík­is­stjórn og leiddi af sér algera end­ur­skoðun á lög­um. Málin sem Stundin hefur komið á dag­skrá og leitt umfjöllun um skipta tugum hið minnsta.

Hring­braut er eini einka­rekni mið­ill­inn sem rekur raun­veru­legan frétta­magasín­þátt, 21, þar sem fjallað er ítar­lega um helstu atriði dags­ins í klukku­tíma á hverju virka kvöldi. Allt efni sem sýnt er á stöð­inni er íslensk fram­leiðsla og sýnir hin mörgu blæ­brigði íslensks sam­fé­lags. Hún er því ein­stök í íslenskri fjöl­miðlaflóru. Það væri hægt að halda lengi áfram.

Það þarf að vera með mjög sér­kenni­lega sýn á veru­leik­ann til að telja ofan­greinda fjöl­miðla, og fjöl­marga aðra minni og með­al­stóra miðla, ekki hafa neina þýð­ingu fyrir sam­fé­lag­ið. Eng­inn ofan­greindra fjöl­miðla mun segja allar fréttir sem verða í íslensku sam­fé­lagi. En eng­inn þeirra ætlar sér það held­ur. Heldur að ein­beita sér að þeim sviðum sem sér­hæf­ing þeirra liggur og skara fram úr þar.

Fjöl­skyldu­blaðið

Það er einmitt sú sér­kenni­lega sýn sem er ráð­andi á meðal eig­enda og stjórn­enda Frétta­blaðs­ins og Morg­un­blaðs­ins. Á rit­stjórn beggja miðla starfar margt yfir­burð­ar­fólk. Rit­stjórn Morg­un­blaðs­ins er lík­ast til öfl­ug­asta heild af slíkri sem fyr­ir­finnst á Íslandi. En hún líð­ur, líkt og rit­stjórn Frétta­blaðs­ins, fyrir van­hæfn­ina, takt­leysið og sér­hags­muna­gæsl­una sem eig­endur og stjórn­endur sýna af sér.

Lítum á nokkur dæmi. Í jan­úar fékk Frétta­blaðið áður óþekktan áhuga á minni­hluta­vernd í skráðum félögum og marg­feld­is­kosn­ingu við val í stjórn þeirra. Ástæðan var sú að Jón Ásgeir Jóhann­es­son, eig­in­maður Ingi­bjargar eig­anda og einn helsti stjórn­andi fyr­ir­tæk­is­ins, vildi kom­ast í stjórn Haga á bak­inu á litlum eign­ar­hlut eig­in­konu hans í Hög­um. Á örfáum dögum voru birtar fjöl­margar frétt­ir, skoð­anapistlar og nafn­laus skrif um mál­ið. Á meðal þeirra sem skrif­uðu frétt­irnar var annar rit­stjóri Frétta­blaðs­ins, og bróðir hennar, nán­asti sam­starfs­maður Jóns Ásgeirs, birti fimm dálka skoð­ana­grein í blað­inu. Þess má geta að móðir þeirra er útgef­andi Frétta­blaðs­ins og fyrr­ver­andi almanna­teng­ill fjöl­skyldu­fyr­ir­tækis Jóns Ásgeirs, sem sjálfur var til við­tals í nokkrum frétt­anna.

Skömmu síðar birt­ist við­tal við Ingi­björgu Pálma­dóttur í blað­inu henn­ar, merkt kynn­ing, sem eng­inn var skrif­aður fyr­ir. Þar gagn­rýndi hún alla sem fara í taug­arnar á henni – þrotabú sem þau hjón skuld­uðu pen­inga sem þau gátu ekki greitt, RÚV og ótil­greinda smá­m­iðla – og áður­nefnt stjórn­ar­kjör í Hög­um, sem skil­aði eig­in­manni hennar ekki stjórn­ar­sæt­inu sem hann þráði svo heitt.

Auglýsing
Um helg­ina var svo birt viðtal við son Ingi­bjargar sem er að opna mat­vöru­verslun og hann kynntur sem „Kaup­mað­ur­inn á horn­in­u“. Umfang þjón­ust­unnar við eig­endur minnti á það þegar ákær­urnar í Baugs­mál­inu voru birtar í sér­stökum kálfi í Frétta­blað­inu með við­hengi sak­born­inga í mál­inu, þá eig­enda blaðs­ins, þar sem þeir „út­­­skýrðu“ fyrir les­endum af hverju ákæran væri röng og í raun væri verið að brjóta á þeim.

Til við­bótar hefur Frétta­blaðið vit­an­lega beitt sér á und­an­förnum árum með víta­verðum og ótrú­lega óheið­ar­legum hætti til að reyna að draga úr til­trú á dóms­kerfið þegar það hefur sótt að þeim sem stýra fyr­ir­tæk­inu. Um það er hægt að lesa hér og hefur verið marg­stað­fest af fjöl­mörgum sem þar hafa unn­ið, bæði sem stjórn­endur og blaða­menn. Það er því rétt­mæt spurn­ing hvort sé meiri „vett­vangur per­sónu­legra skoð­ana“, Frétta­blaðið með alla sína víta­verðu afvega­leið­ingu, alla sína erinda­göngu fyrir eig­and­ann og alla sína kynn­ingu á við­skipta­æv­in­týrum helstu ætt­ingja, eða smærri miðlar sem sann­ar­lega ganga engra erinda sér­hags­muna.

Tryggja tökin á umræð­unni

Fyrir liggur að Morg­un­blaðið var keypt af útgerð­ar­fólki til þess að „fá öðru­vísi tök á umræð­unni“. Þau tök snéru í upp­hafi að því að koma í veg fyrir að Ísland gengi í Evr­ópu­sam­band­ið, að breyta takt­inum í umfjöllum um Ices­ave og að því að koma í veg fyrir breyt­ingar á skipu­lagi sjáv­ar­út­vegs­mála. Auk þess var vilji til þess að koma þáver­andi rík­is­stjórn frá, koma í veg fyrir breyt­ingar á stjórn­ar­skrá og að end­ur­skrifa sög­una um hvernig hrunið varð, af hverju og hverjum það var að kenna. Til­gang­ur­inn var að verja gam­alt valda­kerfi. Á þeim ára­tug sem lið­inn er frá yfir­tök­unni hefur þessi hópur sett 1,6 millj­arð króna inn í tap­rekst­ur­inn. Heim­ild er til þess að henda 400 millj­ónum króna í við­bót í hít­ina í ár. En það hafa þessir sömu eig­endur fengið marg­falt til baka í sam­fé­lags­legum áhrifum og bein­hörðum pen­ingum.

Til þess að stýra þessu var ráð­inn stjórn­mála­mað­ur­inn Davíð Odds­son, sem virð­ist ekki hafa neinn skiln­ing né áhuga á grund­vall­ar­at­riðum blaða­mennsku heldur eyðir öllum sínum kröftum í að upp­nefnda fólk, setja nöfn innan gæsalappa, daðra við hómó­fó­bíu eða útlend­inga­andúð, hat­ast út í Evr­ópu­sam­band­ið, mann­rétt­indi, mann­gæsku og almennt frjáls­lyndi og dásama Don­ald Trump, mann sem getur varla sagt satt og rétt frá um nokkurn hlut. Á milli þess sem hann reynir að rétta eigin hlut í sög­unni.

Fyrir þetta þiggur hann 5,9 millj­ónir króna á mán­uði, að hluta til frá skatt­greið­endum vegna óhóf­legra líf­eyr­is­rétt­inda sem hann skammt­aði sér sjálf­ur. Sam­eig­in­legur kostn­aður við tvo rit­stjóra Morg­un­blaðs­ins á mán­uði er um 10,4 millj­ónir króna á mán­uði, sem er um það bil sú upp­hæð sem Kjarn­inn getur vænst að fá á ári í end­ur­greiðslu kostn­aðar frá rík­inu verði frum­varp mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra að lög­um. Ein leið fyrir Morg­un­blaðið að auka rekstr­ar­hæfni sitt væri að reka þá báða og ráða alvöru blaða­mann í starfið fyrir brot af þess­ari upp­hæð.

Ekki verð­launa óum­hverf­is­vænt óhag­ræði

Rekstr­ar­módel Frétta­blaðs­ins og Morg­un­blaðs­ins eru fallandi. Það sést ekki ein­ungis á gríð­ar­legu tapi sem rekstur þeirra hefur skilað á und­an­förnum árum heldur líka á sífellt lækk­andi lestr­ar­tölum og hverf­andi trausti. Á tæpum níu árum hefur lestur Frétta­blaðs­ins hjá fólki undir fimm­tugu helm­ing­ast og er nú rétt yfir 30 pró­sent. Fyrir níu árum las þriðj­ungur þjóð­ar­innar í sama ald­urs­hópi Morg­un­blað­ið, en nú er það hlut­fall 14,4 pró­sent.

Það blasir við að staf­ræn miðlun frétta er ekki bara fram­tíð­in, hún er nútím­inn. Það má færa sterk rök fyrir því að hluti af vanda­máli íslensks fjöl­miðla­mark­aðar sé áfram­hald­andi uppi­hald á þessum ónýtu rekstr­ar­mód­el­um, sem gera það að verkum að hlut­fall prentaug­lýs­inga er enn miklu hærra en raun­veru­leik­inn kallar á að það sé. Ein afleið­ing þess er að Frétta­blaðið upp­fyllir ekki það skil­yrði end­ur­greiðslu að vera með að minnsta kosti 40 pró­sent af efni sínu hverju sinni rit­stjórn­ar­efni og hefur farið fram á að sá þrösk­uldur verði lækk­að­ur. Morg­un­blaðið virð­ist líka vera í vand­ræðum með að mæta skil­yrð­unum með því að vera með helm­ing síns efnis unnið af rit­stjórn. Í stað þess að verð­launa óum­hverf­is­væna, óhag­kvæma og úr sér gengna útgáfu væri nær lagi að láta Frétta­blaðið og Morg­un­blaðið (sem er frí­blað í aldreif­ingu einu sinni í viku), sem og aðra prent­miðla, greiða gjald fyrir að fylla bláu tunn­urnar hjá okkur óum­beð­ið. Urðun á þessum vágesti kostar nefni­lega borg­ar­búa nokkra tugi millj­óna króna á ári.

Auglýsing
Þessi tvö fyr­ir­tæki fá nú þegar háar upp­hæðir í óbeina styrki með því að hið opin­bera dælir á annað hund­rað millj­ónir króna í aug­lýs­inga­kaup hjá þeim á ári án þess að fyrir liggi nein sér­stök grein­ing á því að það skili betri árangri en víð­tæk­ari dreif­ing þess fjár.

Þá er ótalið að þessir tveir miðlar eru nú í raun að renna saman í eitt fyr­ir­tæki, þar sem móð­ur­fé­lög þeirra keyptu, með blessun Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins, Póst­mið­stöð­ina í fyrra. Með kaup­unum hyggj­ast þessir tveir sam­keppn­is­að­ilar sam­eina dreifi­­kerfi sín fyrir dag­blöð, tíma­­rit og fjöl­­póst. Árvakur á nú þegar öfl­ug­ustu prent­smiðju lands­ins þannig að nær öll prentun og dreif­ing verður nú í höndum þess­ara aðila.

Þið hafið val

Ef fall­ist er á vilja eig­enda og stjórn­enda Frétta­blaðs­ins og Morg­un­blaðs­ins, og ein­ungis stærstu miðlar lands­ins styrkt­ir, þá erum við að fara að horfa á fjöl­miða­lands­lag sem verður saman sett af stórum rík­is­miðli, tveimur sterkum miðlum reknum af og fyrir sér­hags­muna­öfl sem sýnt hafa af sér ein­beittan vilja til að mis­beita þeim, og nokkrum miðlum í eigu fjar­skipta­fyr­ir­tækja, sem munu eðli­lega með tíð og tíma færa sig nær afþr­ey­ingu en gagn­rýnni frétta­mennsku ein­fald­lega vegna þess að það fellur betur að við­skipta­lík­an­inu.

Það má gagn­rýna minni fjöl­miðla lands­ins fyrir að vera ekki stærri. Og það má gagn­rýna þá fyrir að vera ekki betri. En það að sníða sér stakk eftir vexti, ein­beita sér að því að segja færri fréttir en að segja þær alltaf með almanna­hags­muni að leið­ar­ljósi, og vera fyrir vikið með sjálf­bær fyr­ir­tæki með mikla innri vaxt­ar­mögu­leika, getur ekki verið rök­stuðn­ingur fyrir að dæma þá úr leik. Þar eru við­skipta­módel sem eiga sókn­ar­færi og geta vax­ið. Og þar er ríkur hug­sjóna­vilji til að nota stuðn­ing­inn sem er í boði til að verða betri. Hjá gömlu stóru sér­hags­muna­miðl­unum er ein­ungis verið að spila varn­ar­leik, að stoppa upp í risa­stór göt, fyrir rekstur sem á ekki til­veru­rétt á 21. öld­inni.

En bolt­inn hefur verið gef­inn upp. Það er ljóst hvað eig­endur Morg­un­blaðs­ins og Frétta­blaðs­ins ætla sér. Tónn­inn í umsögnum þeirra er skýr og fyr­ir­litn­ingin gagn­vart minni sam­keppn­is­að­ilum líka.

Þeir ætla að þrýsta á stjórn­mála­menn til að láta ein­ungis þá, við­skipta­fé­lag­anna sem stunda bull­andi tap­rekstur ár eftir ár, fá þann stuðn­ing sem hug­myndir eru uppi um að setja í einka­rekna fjöl­miðla. Sam­hliða vilja þeir gera út af við minni miðla sem reka sig sjálf­bært og heið­ar­lega í ótrú­lega óskamm­feilnu rekstr­ar­um­hverfi en tala upp eigið ýkta mik­il­vægi á sama tíma og við blasir öllum með augu að eig­endur og stjórn­endur miðl­anna tveggja skilja hvorki eðli­leg mörk, grund­vall­ar­reglur blaða­mennsku né hvað felst raun­veru­lega í almanna­hags­mun­um.

Nú reynir á stjórn­mála­menn að standa í lapp­irnar og standa af sér storm­inn. Nú reynir á almenn­ing að standa með þeim fjöl­miðlum sem hann telur að séu raun­veru­lega að vinna með hans hags­muni að leið­ar­ljósi. Það er til að mynda hægt að gera með því að ger­ast styrkt­ar­að­ili Kjarn­ans hér. Gæði fel­ast nefni­lega ekki í fjölda starfs­manna, heldur getu.

Von­andi ber okkur gæfa til þess að kom­ast í gegnum þessa stöðu með vit­rænt frum­varp sem styrkir lýð­ræð­is­stoðir lands­ins og fjöl­breyti­leika fjöl­miðlaflór­unn­ar.

Ef ekki þá erum við að sigla inn í sér­staka tíma.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari