Sitjandi ríkisstjórn ákvað að endurvekja þingveisluna, nokkurs konar árshátíð þingsins, eftir að hún tók við stjórnartaumunum, en það er forseti Alþingis sem býður til veislunnar. Síðasta ríkisstjórn hafði ákveðið að sleppa viðburðinum, sem þykir frekar formlegur og yfirstéttarlegur, þar sem henni þótti hann ekki viðeigandi í eftir-hruns-ástandinu.
Veislan fór fram í Súlnasal Hótel Sögu síðastliðinn föstudag og varð heldur einkennileg þar sem þingmenn og varaþingmenn stjórnarandstöðunnar hunsuðu hana. Ástæðan var óánægja þeirra með ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að tilkynna einhliða um að aðildarviðræðum við Evrópusambandið væri lokið.
En það var dræm mæting hjá stjórnarflokkunum líka og einungis einn ráðherra tók þátt í fögnuðinum, Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindarráðherra.
Heiðursgestur samkomunnar var að venju Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og flutti hann blaðlausa hálftíma ræðu. Einn stjórnarþingmaðurinn sem kom í kaffi í bakherberginu sagði að forsetanum hafi tekist ótrúlega vel að gera súra stemmingu enn súrari. Hann sagði forsetann hafa fyrst og síðast rætt um skilningsleysi þingmanna á stjórnskipan og þingræði og vitnaði fyrst og síðast í rannsóknir eftir sjálfan sig máli sínu til stuðnings. „Hann talaði við þingmenn eins og þeir væru hálfvitar,“ sagði þingmaðurinn.
Annar gestur sagði að eini maðurinn sem virtist hafa gaman af veislunni hafi verið forsetinn, sem gerði óspart grín af því að hann væri í þingveislu einvörðungu með þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sem voru helstu pólitísku andstæðingar hans þegar Ólafur Ragnar sat á Alþingi.