Vincent Tchenguiz, bresk-íranskur fjárfestir sem höfðað hefur mál gegn slitabúi Kaupþings, sótti á föstudag um heimild hjá áfrýjunardómstóli í Bretlandi til að áfrýja skaðabótakröfu sinni gegn búinu. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá ráðgjöfum Tchenguiz. Samþykki dómari að leyfa Tchenguiz að áfrýja gæti það sett nauðasamning Kaupþings í algjört uppnám og tafið slit búsins um allt að tvö ár. Það myndi þýða að nauðasamningur muni ekki geta klárast fyrir áramót og því leggist 39 prósent stöðugleikaskattur á eignir þess, samkvæmt áætlun stjórnvalda um losun hafta sem kynnt var í byrjun júní.
Kaupþing hefur þegar samið við íslensk stjórnvöld um að mæta þeim stöðugleikaskilyrðum sem sett voru fram í áætlun þeirra um losun hafta. Tillögur að því samkomulagi voru lagðar fram áður en að áætlunin var kynnt með látum í Hörpu í byrjun júní. Samkvæmt útreikningum Kjarnans, sem sérfræðingar hafa farið yfir, fela þeir samningar í sér að Kaupþing greiði íslenska ríkinu ríflega 100 milljarða króna í stöðugleikaframlag, miðað við að söluandvirði Arion banka sé 80 prósent af bókfærðu virði eigin fjár hans í dag.
Bókfært virði eigna Kaupþings í lok árs 2014 var hins vegar 799,9 milljarðar króna. Ef 39 prósent stöðugleikaskattur yrði lagður á þær allar þá myndi hann skila íslenska ríkinu yfir 300 milljörðum króna.
Kjarninn leitaði eftir viðbrögðum frá slitastjórn Kaupþings vegna mögulegrar áfrýjunar Tchenguiz fyrir helgi og hvort málareksturinn setji nauðasamning búsins í uppnám. Svar hennar var einfalt: „Slitastjórn Kaupþings hyggst ekki tjá sig um þetta“.
Tilkynnt var um aðgerðaráætlun stjórnvalda við losun hafta í byrjun júní síðastliðinn. Kynning á aðgerðunum for fram í Hörpu og var sýnd i beinni útsendingu.
Vill fá 460 milljarða króna
Tchenguiz stefndi Grant Thornton í Bretlandi og tveimur starfsmönnum fyrirtækisins, Kaupþingi og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, sem situr í slitastjórn búsins, fyrir að hafa lagt á ráðin um, haft frumkvæði að og tekið þátt í, rannsókn bresku efnahagsbrotadeildarinnar Special Fraud Office (SFO), á honum og fyrirtækjum í hans eigu. Þetta hafi leitt til þess að hann var handtekinn á heimili sínu í mars 2011 og leitað var á skrifstofu hans og í fyrirtækjum í hans eigu. Hann vill fá 2,2 milljarða punda, um 460 milljarða króna, í bætur vegna þessa.
Tilgangurinn, að sögn Vincent Tchenguiz, var sá að nota rannsókn SFO á meintum glæpum hans til að knýja hann til að semja um málefni sinna félaga gagnvart Kaupþingi, afla gagna frá SFO, sem embættið gerði upptækt í húsleit hjá Vincent, sem Kaupþing hefði ella ekki getað aflað og síðan misnota þau gögn í samskiptum sínum við Vincent Tchenguiz. Hann telur að með þessu hafi Kaupþing viljað komast yfir eignir hans og fyrirtæki sem honum tengdust. Þetta átti að skila Kaupþingi auknum eignum og Grant Thornton í Bretlandi auknum greiðslum, þar sem starfsmenn fyrirtækisins myndu sjá um skipti á þeim eignum sem teknar yrðu yfir.
Engin efnisleg niðurstaða liggur fyrir
Í lok júní hafnaði breskur undirdómstól málatilbúnaði Jóhannesar Rúnars um að þarlendir dómstólar hafi ekki lögsögu í málinu gegn honum. Jóhannes Rúnar vildi að málið yrði tekið fyrir á Íslandi þar sem einungis íslenskir dómstólar hefðu lögsögu yfir uppgjöri slitabús Kaupþings, en af því verður ekki. Kjarninn hefur óskað eftir upplýsingum hjá slitabúi Kaupþings um hver það er sem greiðir fyrir málsvörn Jóhannesar Rúnars í málinu en það hefur ekki viljað veita upplýsingar um það.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson situr í slitastjórn Kaupþings.
Kjarninn hefur dóminn undir höndum og það er vert að taka fram að í honum er ekki tekin nein efnisleg afstaða til efnisatriða málsins heldur einungis hvort dómstóllinn hafi lögsögu yfir þeim sem stefnt var. Þetta var sérstaklega tekið fram í niðurstöðu dómarans.
Dómstóllinn taldi málið hins vegar varða atburði sem áttu sér stað á breskri grundu og því verði þeir teknir fyrir af bresku réttarkerfi. Hins vegar var viðurkennt að breskir dómstólar hafi ekki lögsögu yfir slitabúi Kaupþings enda geri íslensk gjaldþrotalög ráð fyrir því að íslenskir dómstólar hafi einir lögsögu yfir þeim. Þeirri ákvörðun gat Tchenguiz mögulega áfrýjað.
Stór hluti eigna búsins gæti endað hjá Tchenguiz vinni hann málið
Tchenguiz sótti um leyfi til að gera nákvæmlega það, að áfrýja málinu, á föstudag. Dómari mun nú þurfa að taka ákvörðun um hvort Tchenguiz fái að gera það. Ef það leyfi fæst, og málið fer aftur fyrir dómstóla, áætla ráðgjafar Tchenguiz að málareksturinn geti tekið allt að tvö ár. Og að slit Kaupþings tefjist um þann tíma.
Ástæðan er einfaldlega sú að eignir slitabús Kaupþings voru um síðustu áramót, líkt og áður sagði, um 800 milljarðar króna. Ef krafa Tchenguiz, sem er upp á 460 milljarða króna, helst lifandi er ljóst að stór hluti eigna búsins verði bundinn vegna hennar.