„Eitt sinn voru ekki gluggar á húsum. Þegar búið var að finna þá upp var óhugsandi án þeirra að vera. Gluggalaus hús voru hús sem ekki mátti sjá inn í því þar gerðist sitthvað misjafnt. Gluggar voru augljós framför frá gluggaleysi fortíðarinnar og þeir sem vildu án þeirra vera – eða byrgðu þá – hlutu að hafa fyrir því vafasamar ástæður.“
Þær hafa svo sem ekki streymt úr pennum íslenskra höfunda, framtíðarsögurnar. Lovestar Andra Snæs sú eina sem ég man eftir án áreynslu, en auðvitað eru þær fleiri. Vafalaust ...
Reyndar er Heimska á mörkunum. Framtíðin í henni er einhvernvegin svo náin að hún er næstum ekki framtíð. Það eina sem hefur breyst er að sá hluti lífsins sem lifað er í netheimum er orðinn enn öfgafyllri og fyrirferðarmeiri á kostnað hins. En miðað við hraða og hröðun þróunarinnar finnst manni sú staða sem Eiríkur lýsir gæti verið komin upp eftir nokkra mánuði. Já og svo gæti innanlandsflugið mögulega verið flutt til Keflavíkur í bókinni þó það sé ekki sagt berum orðum. Skiljanlega ekki, alltof eldfimt.
Þessi stutta, snarpa og forvitnilega bók er ofin úr nokkrum þráðum. Kannski ekki neitt ógurlega þétt ofin, en vissulega snertast þeir á alla enda og kanta, flækjast hver fyrir öðrum og magna upp. Kynlífsstyrjöld hjónaleysanna Áka og Lenítu kannski minnst spennandi, en á móti kemur hinn kostulegi vandræðagangur með þá duttlunga örlaganna (eða hvað það nú var) sem lét þau skrifa næstum sömu skáldsöguna og skila í bókaflóðið 20XX. Gaman að það skuli enn vera jólabókaflóð. Og bókmenntaumræðan og verðlaunin á svipuðum stað. Gott ef Eiríkur Guðmundsson er ekki enn í fullu fjöri – og RÚV að því er virðist líka. Guð láti gott á vita.
Þungamiðjan er samt eftirlitið. Sjálfseftirlit fólksins sem beinlínis þrífst á að láta fylgjast með sér – jafnvel umfram það að sem fá má út úr því að kíkja inn í alla kima heima hjá hinum. Það er þessi þráður sem Eiríkur dvelur við, leggur út af, veltir fyrir sér. Það er oft spennandi og ögrandi. Og leiðir auðvitað yfir í andstæðuna: hvað gerist í þessu framandi en ískyggilega kunnuglega framtíðarsamfélagi þegar ýtt er á off-takkann? Þegar rafmagnið fer og tekur með sér öll stafrænu gægjugötin.
Það sem Eiríkur hefur um það að segja er flott og snjallt. En fyrir minn smekk of lítið. Við fyrsta lestur virkar eins og þessi þráður sé vannærður, hefði átt að taka meira pláss í blaðsíðum og mikilvægi talið. Smámyndirnar af hinum ýmsu íbúum Ísafjarðar og hvernig þeir bregðast við eru svo skemmtilegar og lýsandi að mann langar í fleiri. Og hreinlega að ástandið væri látið vara lengur og valda enn meiri usla í samfélaginu. Þetta er auðvitað græðgi og frekja. Mögulega líka rangt og maður sæi það um leið og bókin væri orðin hundrað síðum lengri með heimsslitalegri lokakafla. En svona líður mér núna.
Lokakaflinn eins og höfundur vildi hafa hann, þar sem við fáum skýringar á rafmagns- og eftirlitsleysinu og örlög helstu söguhetja ráðast að einhverju leyti, finnst mér síðan rökréttur, áhrifaríkur og sannfærandi. Og bókin í heild sinni hugsunarvekjandi, fyndin og beitt, þó hún hefði mátt vera feitari fyrir minn smekk.