Sigurbjörn Þorgrímsson, eða Bjössi Biogen eins og flestir þekktu hann sem, var einn af frumkvöðlum íslenskrar raftónlistar á árunum 1992 til 2011 og hafði mikil áhrif á íslensku raftónlistarsenuna. Fjölskylda hans og vinir stefna nú að því að gefa út safnskífu með verkum hans.
1. Út á hvað gengur verkefnið ‘Selected Biogens works’?
Þetta verkefni gengur út á það að endurútgefa tónlist Sigurbjörn Þorgrímssonar, betur þekktur sem Biogen - en tónlistin hans er að mörgu leyti ófáanleg í dag. Sigurbjörn hafði ómetanleg áhrif á íslensku raftónlistarsenuna. Hann var lærifaðir og vinur margra – en hann lést langt fyrir aldur fram árið 2011 og brottför hans skilur eftir sig ófyllanlega gjá í tónlistarsenunni. Fjölskylda hans og við vinir hans stefna nú að því að gefa út safnskífu með helstu verkum hans.
2. Segðu mér aðeins frá Biogen.
Ég gæti skrifað margt um Bjössa Biogen. Margt myndi bara vera persónulegt þvaður. Hann hafði t.d. ómetanleg áhrif á mig sem tónlistarmann - og ferill minn sem Futuregrapher (sem spinnur nú margar plötur og mörg ár) hefði aldrei orðið að veruleika nema út af því að hann trúði á mig og mitt verkefni. Hann sagði mér að halda áfram. Hann hjálpaði mér að gefa út. Ég verð honum óendanlega þakklátur. En Bjössi sjálfur var tónlistarsnillingur. Hann var með Þórhalli Skúlasyni í Ajax. Hann var einn af þeim sem stofnuðu Thule Records. Hann var með Tanyu Pollock í Weirdcore. Hann var tónlistarmaður sem samdi töff tónlist og líka fallega tónlist. Hann var svalur - og hann var umfram allt; góður vinur. Margt af þessu dóti sem hann samdi og gaf út - var sjálfútgefið. Eins og plöturnar Mutylin og You Are Strange. Þetta dót er ófáanlegt í dag í góðum gæðum. Flest allt dótið sem hann gerði sem Biogen er líka mjög erfitt að finna. Þannig að það var kominn tími á þetta. Bjössi hefði svo orðið 40 ára á næsta ári - þannig að þetta er bara allt saman mjög fallegt og viðeigandi.
3. Er einhvern rauðan þráð að finna í lagavalinu?
Við sem komum að verkefninu erum búin að vera hlusta yfir þetta allt saman - og ég get ekki alveg sagt að það sé einhvern ‘rauðan þráð að finna í lagavalinu’, því hérna erum við með alla litina. Þetta er allur regnboginn og meira til. Biogen kunni þetta. Ég lofa góðri útgáfu.
Verkefnið er að finna hér.