Undanfarnar vikur hefur umræða um fyrirtækið „Kanina ehf.“ og kanínurækt á Íslandi farið fram víðar í fjölmiðlum landsins. Umræðan hefur aukist í tengslum við fjáröflunarátak sem er í gangi hjá Karolina Fund með það að markmiði að tryggja framtíðarrekstur fyrirtækisins og hjálpa eiganda við að komast í gegnum erfiðleika sem blasa við þessa stundina.
Kanina ehf. er lítið sprotafyrirtæki og einstakt í landbúnaðarflóru Íslands í dag. Á bak við fyrirtækið stendur Birgit Kositzke. Hún er Landslags- og náttúruskipulagsfræðingur að mennt frá Háskólanum í Rostock í Þýskalandi. Í nokkur ár hefur hún unnið sem flokksstjóri í heimalandi sínu við að græða upp námur og endurheimta landslag sem varð fyrir skakkaföllum eftir áralanga námuvinnslu. Árið 2007 tók hún ákvörðun um að flytja frá Þýskalands til Íslands eftir að hafa kynnst landi og þjóð fyrst sem ferðamaður, og seinna í gegnum ýmis störf í landbúnaði og ferðaþjónustu. Kjarninn hitti Birgit og tók hana tali.
1. Er þetta fyrsta bú sinnar tegundar á Íslandi?
„Já, þetta er fyrsta og eina búið sem stendur og er með leyfi til kanínuræktunar til manneldis. Hugmyndin spratt upp árið 2011 og ekkert sambærilegt bú er til á Íslandi. Þetta hófst með smáu sniði með aðeins 4 kanínur, þrjú kvendýr og svo karlinn hann „Daddy Cool“. Á þessum stofni er búið byggt upp en telur í dag um 98 kvendýr og 8 karldýr, og með afkvæmum um 450 lífdýr á fæti. Eftir 5-6 mánuði eru afkvæmin komin í slátursstærð. Slátrun á sér stað einu sinni í mánuði í sláturhúsi SKVH á Hvammstanga sem er eina sláturhúsið á landinu með leyfi til kanínuslátrunar.“
2. Hvernig verður aðbúnaðurinn fyrir kanínurnar?
„Skilyrði til kanínurætunar á Íslandi eru mjög góð. Hér er hæfilega kalt, ekkert er um skordýr eða sníkjudýr sem gætu valdið usla í búinu, og loft og vatn eru með besta móti. Einnig er hey og annað fóður alveg fyrirtaks. Hvað varðar aðbúnað þá er hugsað um kanínurnar af natni. Eldisdýr (mæðurnar) eiga einskonar varpkassa sem þær klæða sjálfar fiðu og gera hreiður í heyinu. Unglingar eru í svokölluðum leikskólum og njóta félagsskaps hvors annars. Loks eru það sláturdýrin, en þau eru einnig saman í rúmgóðum búrum við leik. Allt húsið á Kárastöðum er vel loftræst, enginn raki er að myndast, vatnið úr brunni í nágrenni er ferskt og hreint, og lagt er áhersla á besta fóðri sem völ er á, mest allt úr héraði. Engin lyfjagjöf eru nauðsynleg undir þessum kringstæðum.“
3. Hvernig verður hægt að nálgast afurðirnar frá ykkur?
„Nokkur vel valin veitingahús bjóða upp á kanínurétti, þar á meðal Kolabraut í Hörpunni, Sjávarborg á Hvammstanga og veitingastaðurinn „Berg“ í Icelandairhóteli Vík í Mýrdal. Fyrir þá sem vilja elda sjálfir er hægt að kaupa kjöt í „Matarbúrinu“, Grandavegi 29 í Reykjavík og einnig í „Löngubúð“ á Akureyri. Feldurinn er einnig nýttur og hinn landsþekkti Kalli Bjarnason í „Lóðskinn" á Sauðárkróki sútar kanínuskinn af einstakri list. Handverksfólk bæði hérlendis og erlendis hefur sýnt mikinn áhuga á að nota skinninn í fatahönnun og fatagerð.“
4. Kanntu einhverjar góðar uppskriftir að kanínuréttum?
„Já, uppáhalds uppskriftin mín er Kanari kanína.“
Kanari kanína
Efni:
1 kanína, um 1,6 kíló
100 g smjör
2 gulrætur, saxaðar
½ sellerírót, söxuð
1 blaðlaukur, meðalstór, skórinn í hringi
1 hvítlauksgeiri, pressaður
3 dl hvítvín (ekki sætt)
2,5 dl sýrður rjómi
1 knippi steinselja, söxuð
salt og pipar eftir smekk
e.t.v. kartöflumjöl eða sósubindari
Aðferð:
Hreinsið kanínuna og bútið hana niður í sex parta með beittum hníf. Saltið og piprið. Hitið smjörið í stórri pönnu og steikið kjötið með grænmetinu unz það er ljósbrúnt. Hellið hvítvínið í pönnuna og bætið hvítlaukinn við. Setið lokið á og látið malla í um 1,5 klukkutíma. Af og til verður að athuga hvort nægilegur vökvi er í pottinum, og e.t.v. verður að bæta vatn við.
Takið kjötið upp úr sósunni og geymið á heitum stað. E.t.v. þarf að bæta sjóðandi vatn í pönnuna til að fá það magn af sósu sem þykir æskilegt. Látið suðuna koma upp. Maukið grænmetið. Bindið sósuna, hrærið rjómann undir og smakkið til.
Sáldrið steinseljunni yfir kjötið.
Meðlæti: Sósa að eigin uppskrift, bökunarkartöflur og salat.
Skammtar: 5
Eldunaraðferð: hella
Undirbúningstími: 2 klukkustundir
Fleiri uppskriftir er hægt að finna í uppskriftabæklingi frá Kanínu ehf. sem hægt er að panta á info@kanina.is og í Matarbúrið í Reykjavík.