Þegar haldið er austur í Mývatnssveit frá Akureyri eftir þjóðvegi eitt, hringveginum, er m.a. ekið um lítinn og látlausan dal, Reykjadal. Þar búa á bæ einum hjónin Cornelia og Aðalsteinn sem allt fram á síðasta haust störfuðu sem grunnskólakennarar í sveitarfélaginu. Þegar ákveðið var að loka annarri af tveimur grunnskóladeildum Þingeyjarskóla sl. vor þurfti að skera niður þrjár kennarastöður og var þeim hjónum tilkynnt að til stæði að segja þeim báðum upp. Í svipaðri stöðu hefði margur sjálfsagt upplifað sterka höfnun samfélagsins og valið að flytja annað en ekki Cornelia og Aðalsteinn. Þau ákváðu að búa áfram á sinni jörð og þar sem lítið var um atvinnuframboð í sveitinni tóku þau á það ráð að breyta heimili sínu í gistiheimili og kyrrðarmiðstöð. Kjarninn rakst á fjármögnunarverkefni þeirra hjóna á Karolina Fund og lék forvitni á að kynnast þessum hjónum og hugmyndum þeirra betur.
Hvers vegna ákváðuð þið að búa hérna áfram? Eruð þið Þingeyingar í þaula með djúpar rætur hér í sýslunni?
„Nei. Við erum reyndar svoddan aðskotadýr hérna. Annars vegar frá Akureyri en hins vegar alla leið frá Þýskalandi. Okkur líður samt sem áður bara mjög vel hérna. Það á mun betur við okkur að búa í sveit en í bæ eða borg og þannig er t.d. eitt af aðal áhugamálunum okkar skógrækt og hér höfum við tækifæri til þess að stússast í henni. Svo býr hér líka bara margt alveg ágætis fólk. Þó svo að það sé eitthvað sjúklega brenglað ástand í sveitapólitíkinni þá þýðir ekkert að láta það hafa einhver áhrif á sig. Við vorum náttúrulega dugleg við að benda á meinbugana í allri hugsun og ákvarðanatöku í aðdraganda þessara breytinga í skólamálum svo það má vel vera að það hafi vakað fyrir einhverjum að hrekja okkur í burtu. Við erum bara ekkert að velta okkur upp úr slíku. Hér viljum við vera þrátt fyrir að hlutirnir séu ekki allir eins og þeir eiga að vera. Við höfum ekki gert neitt sem við þurfum að skammast okkar fyrir og teljum reyndar að flestir eigi nú eftir að sjá að hér voru gerð mikil mistök sem reynast munu samfélaginu dýrkeypt. Þess verður vonandi ekki of langs að bíða að menn fari að vinda ofan af vitleysunni.“
En þá að ykkar áformum. Hvernig kom það til að þið fenguð þá hugmynd að fara út í rekstur heimagistingar?
„Það er sjálfsagt margt sem kemur til. Fyrst auðvitað sú staðreynd að við vorum jú bæði orðin atvinnulaus og sáum engin atvinnutækifæri í hendi hér í okkar nánasta umhverfi. Nú svo erum við náttúrulega bara þrjú í heimili í dag en vorum sex áður. Svo það segir sig sjálft að aðeins hefur nú rýmkað um okkur. Síðan má auðvitað ekki neita því að það hefur nú ekki farið framhjá manni sá mikli uppgangur sem er í þjónustu við ferðamenn um þessar mundir. Þannig hafa á síðustu árum bara hér í Reykjadal bæst við á annan tug aðila sem bjóða gistingu – og þau sem farið hafa af stað með slíkt bera því vel söguna. Við fengum strax mikla hvatningu frá þessum aðilum hér í kringum okkur um að bætast endilega í hópinn.“
Þið segist á Karolina fund leggja áherslu á það að gistingin eigi jafnframt að vera miðstöð kyrrðar, til andlegrar endurnýjunar. Hvers vegna?
„Okkur finnst við upplifa mikla kyrrð hér á Hjalla, í þessum litla og látlausa dal, og það er líka upplifun margra sem heimsækja okkur. En kyrrð er auðvitað ekki síður viðhorf en umhverfi og það eru slík viðhorf sem við viljum miðla áfram. Við sjáum vaxandi þörf meðal stór hóps af fólki til þess að stíga til hliðar og útúr því krefjandi umhverfi sem það lifir og hrærist í alla daga inn í einfalt og afslappað umhverfi. Alltof margir eru undir svo miklu álagi alla daga að þeim gefst ekki tækifæri til þess að slaka á, fara yfir líf sitt í huganum og leggja mat á það hvar þeir eru staddir í lífinu. Þetta er okkar helsti markhópur og draumurinn er að geta boðið þeim aðilum sem það vilja hagnýtar ráðleggingar og hjálp til þess að koma kyrrð á hugsanir sínar, sem er forsenda þess að fá skírari sýn á lífsins gátur. Ætlunin er þó alls ekki að fara að þröngva neinu upp á fólk og við auglýsum líka auðvitað bara eins og önnur gistiheimili laus herbergi á netinu þar sem hver sem er getur pantað hjá okkur hvort sem hann er að sækjast eitthvað sérstaklega eftir kyrrð eða bara stað til að halla sér yfir nótt á sinni hraðferð um landið.“
Þið settuð það markmið að safna yfir tveimur milljónum króna á Karolina Fund á sex vikum. Nú eru eingöngu um tvær vikur eftir og þið hafið ekki náð að safna nema litlum hluta af þeirri fjárhæð. Eru þetta ekki óraunhæfar væntingar hjá ykkur? Eruð þið ekki hrædd um að ykkur mistakist?
„Já og nei. Þetta er auðvitað sjálfsagt alveg galin hugmynd en við erum nú ekkert hrædd við mistök. Við vonumst auðvitað innilega til að okkur takist að ná settu marki en þó svo að svo fari að það náist ekki, sem þýðir að við fáum engan pening inn í verkefnið okkar eftir þessari leið, þá myndum við aldrei líta svo á að verkefnið hafi mistekist. Allt ferlið hefur bara verið svo lærdómsríkt og viðbrögð þeirra sem hafa þó tekið þátt svo gefandi. Svona hópfjármögnunarsíða er auðvitað svo nýlegt fyrirbrigði og sú hugsun sem þarna liggur að baki ennþá svo framandi fyrir marga. Sjálfum finnst okkur þetta alveg meiriháttar magnað tæki og hugmyndafræðin að baki svo falleg. Hér áður fyrr, þegar veröldin var stór og fæstir þekktu aðra en þá sem bjuggu í innan við 100 km fjarlægð frá þeim sjálfum, þótti samhjálpin svo sjálfsögð. Ef einhver þurfti í stórátak komu aðrir og hjálpuðu til, lögðu hönd á plóg. Lífið er orðið svo miklu flóknara í dag og fæst okkar hafa tækifæri til þess að sinna þessum mannlega þætti á sama hátt og áður. Við erum öll föst á vinnumarkaðnum og getum ekki bara stokkið af stað þegar okkur dettur það í hug, fest á okkur smíðasvuntu og hjálpast þannig að. Þarna kemur Karolina Fund inn í dæmið. Í stað þess að hjálpa náunganum aðeins með höndunum eins og áður fyrr sendum við hvert öðru smá hjálp í formi peninga. Mörgum finnst sú tilhugsun reyndar sjálfsagt á einhvern hátt skrítin eða óþægileg. Viðhorf okkar til peninga getur oft verið á margan hátt svo þvingað. Flestum finnst samt í dag ekkert mál að taka þátt í fjársöfnunum fyrir þá sem eiga bágt eða þegar eitthvað bjátar á en það er auðvitað alls ekki það sama og að nota peninga í að hjálpa öðrum sem er ekkert í einhverri stórri neyð eða brýnni þörf. Ef það sem Karolina Fund er að gera getur hjálpað okkur öllum að læra að vera örlátari í að láta peninga vera til góðs þá væri það alveg stórkostlegt. Það hefur gefið okkur svo ótrúlega mikið að upplifa stuðning frá ólíku fólki úr öllum áttum. Þetta er bara svo magnað.“