Ég vissi að Star Wars var
á leiðinni til Kína. Samt kom það mér í opna skjöldu þegar sjö ára gömul dóttir
mín benti á framandi veru er virtist koma þjótandi út úr jógúrtdollunni hennar
og spurði mig hvað þetta væri nú eiginlega. Mér sýndist það vera R2-D2 um það
bil að lenda á morgunverðarborðinu okkar – en var þó ekki alveg viss. „U-þetta
er viðgerðargeimvera,“ sagði ég loks hikandi. „Í mynd sem var í bíó einu sinni.
Vinur hans er með gullbrynju.“ Mig rak í vörðurnar en dóttir mín sýndi því
skilning að þetta var eitthvað sem greinilega skipti pabba gamla máli og
hlustaði þolinmóð – jafnvel svolítið undrandi – á hann tala um þessi býsn, eins
og þau væru eðlilegur hluti af tilverunni.
Gamli sáttmáli
Síðastliðið ár var að mörgu leyti ágætt fyrir Kína: Risaáætlunin „Eitt svæði – einn vegur“ er komin á góðan skrið (samstillt innviðauppbygging Kína og aðliggjandi landa m.a. fjármöguð af Innviðafjárfestingabanka Asíu sem Ísland er stofnaðili að). Tu Youyou varð fyrsti kínverski ríkisborgarinn til að hljóta nóbelsverðlaun í vísindum (fyrir þróun lyfs gegn malaríu). Þá vann Peking réttinn til að halda vetrarólympíuleikana árið 2022. Kvennalansliðið í knattspyrnu komst í áttaliða úrslit á HM í Kanada. Og strákarnir í Guanzhou Evergrande gerðu sér lítið fyrir og unnu meistaradeild Asíu 2015. (Mínir menn Peking-varðliðarnir lentu í 4. sæti í kínversku úrvalsdeildinni. Hef trú á að þeir taki þetta á næsta tímabili.)
Xi Jinping forseti Kína nefndi ýmislegt af þessu í sjónvarpsávarpi sínu til þjóðarinnar á nýársdag. Athygli mín beindist samt ekki að því sem heyra mátti heldur fremur að því er við augum blasti í útsendingunni, við og við þegar sjónarhorninu var breytt: Xi hélt áfram að tala inn í myndavél eitt en áhorfendum var gert kleyft að læðst að honum frá hlið með myndavél tvö og gægjast aðeins lengra inn í hin helgu vé en þeir hafa átt að venjast. „Allar þessar staðreyndir,“ heyrði ég að forsetinn klikkti út með í upptalningunni á sigrum ársins „sýna að draumar okkar munu að lokum rætast ef við bara höldum áfram og gefumst ekki upp“. Ég horfði rannsakandi í kring um mig inni á forsetakontórnum: „Svona er þá inni hjá honum. Hvað ætli sé í hillunum? Skyldi eitthvað vera þarna um fótbolta? Eitthvað sem útskýrir hvers vegna þróun kínversku knattspyrnunnar er eitt af þeim málum sem hann hefur sett á oddinn?“
„Enn eru samt mörg vandamál og erfiðleikar er fólk mætir í daglega lífi,“ heldur Xi áfram, án þess þó að vera mjög konkret á þessu stigi ræðunnar. Nefnir ekki mengunina sem er að gera út af við borgarbúa, skuldafen ríkisfyrirtækjanna, offjárfestingarnar, minnkandi hagvöxt, vísbendingar um aukin átök á vinnumarkaði, o.s.frv. Hvað þá gagnrýni og viðvaranir utan frá um að núverandi hagvaxtarmódel sé e.t.v. komið af fótum fram. Þvert á móti vill hann greinilega fremur peppa landsmenn upp en draga úr þeim kjarkinn: „Horfurnar eru góðar þó svo að hamingjan falli að sjálfsögðu ekki af himnum ofan ...,“ segir hann. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að sitjandi valdhafi geri lítið úr vandamálunum og fegri framtíðarmyndina. Íslenskir ráðamenn voru ekki beinlínis að mála skrattann á vegginn í aðdraganda Hrunsins. Og jafnvel þó að samfélagið okkar væri opið og lýðræðislegt mátti gagnrýni á efnahagsstefnuna sín lítils þá. Sem þjóð gengum við nánast í einum takti fram af hengifluginu. – En stöldrum aðeins við. Reynum að sjá fyrir okkur samfélagslegar afleiðingar þeirra efnahagserfiðleika sem nú steðja að Kína.
Rót vandans er skuldafen fyrirtækjanna. Byrjað var að dæla lánsfé inn í þau árið 2008 sem lið í mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna minnkandi eftirspurnar í heiminum í kjölfar fjármálakreppunnar. Rann það m.a. til atvinnusköpunar í byggingageiranum en var einnig notað til að halda á floti útflutningsfyrirtækjunum. Skuldirnar hafa hrannast upp jafnt og þétt og eru nú metnar á um 250% af vergri landsframleiðslu (sambærilegt hlutfall á Íslandi fór upp í um 500% árið 2008). Margt bendir til að þær vaxi nú hraðar en getan til að borga af þeim. Að lokum verður samt að gera þær upp. Hér koma samfélagslegu áhrifin inn í: Einhver þarf að taka á sig skellinn. Ef ekki lánadrottnar þá heimilin (í gegnum verðbólgu) eða verkamenn (í gegn um atvinnuleysi). Það má vera að málfrelsið hafi ekki forðað okkur Íslendingum frá hruninu sjálfu en sennilega var það okkur fremur til framdráttar í endurreisninni en hitt. Við höfðum opið pólitískt kerfi til að takast á um skiptingu birgðanna. Þannig kerfi er hins vegar ekki til í Kína. Í besta falli er hægt að tala um óformlegan friðarsáttmála milli Flokks og samfélags, þar sem almenningur afsalaði sér pólitískum réttindum í skiptum fyrir ört batnandi kjör. Slíkur sáttmáli er ekki líklegur til að auðvelda uppgjörið sem framundan er.
Nýji sáttmáli
Ég er búinn að ná því núna. Auðvitað var það ekki R2-D2 sem verið var að kynna til leiks utan á umbúðum jógúrtsins frá Yili-samsteypunni á dögunum. Nei, þetta var einhver sem heitir BB-8 og er í nýjustu Star Wars myndinni Episode VII: The Force Awakens. Það er annars merkilegt að hugsa til þess að þar til nú hefur þessi mikla Hollywood-epík nánast algerlega farið fram hjá Kínverjum. Þegar fyrsta syrpan var sýnd á Vesturlöndum undir lok áttunda áratugar síðustu aldar var Kína rétt að byrja að fikra sig út úr einangrun og sárri fátækt. Þá voru einfaldlega ekki samfélagslegar forsendur fyrir því að almenningur gæti skilið eða haft gaman af tæknibrellu-hlöðnum sci-fi ævintýrum. Lengi vel var Rambó ein af fáum vestrænum stórmyndum í umferð eystra. Ég man sjálfur eftir því veturinn 1988/89 þegar ég fór í fyrsta skipti í bíó í Peking hvað First Blood stakk geisilega í stúf við annað efni sem var verið að sýna. Skelltu margir upp úr er Stallone tók að mæla á kínverska tungu.
Í dag er allt breytt. Ungir Kínverjar vilja popp. Aðeins í Bandaríkjunum er velta kvikmyndageirans meiri en í Kína. Þegar framleiðendur í Hollywood vilja búa til stórmynd neyðast þeir til að taka þennan nýja risamarkað með í reikninginn. Ef myndin nær ekki vinsældum þar mun hún aldrei slá út myndir á borð við Avatar og Titanic (sem báðar nutu mikillar hylli Kínverja). Eftir að Walt Disney yfirtók Lucasfilm árið 2012, og öðlaðist þar með réttinn til að framleiða Star Wars, kom því ekki annað til greina hjá fyrirtækinu en að taka Kína með áhlaupi. Var hinn elskaði Lu Han (svar austursins við Justin Bieber) þegar í stað útnefndur sendiherra stjörnustríðanna og fenginn til að leiða kínverska áhorfendur inn í sögusviðið með söng og dansi. Í aðdraganda frumsýningarinnar á Episode VII nú um áramótin var síðan efnt til kvikmyndahátíðar þar sem allar fyrri myndirnar í bálknum voru sýndar með pompi og pragt. Viti menn: Einn kaldan vetrarmorgunn höfðu hundruð stormtrooperar tekið sér stöðu á sjálfum Kínamúrnum, hinu helga tákni ósigranleikans. „Innrásin“ var hafin.
En það væri misskilningur að halda að Kína sé viljalaust verkfæri er gín við tilbúnum réttum vestrænnar neyslumenningar. Þvert á móti hefur það verið opinber stefna stjórnvalda um nokkurt skeið að stórefla menningar- og afþreyingariðnaðinn og gera hann að einum af undirstöðuatvinnuvegunum í endurskipulögðu hagkerfi landsins (sjá t.d. hér og hér). Auðvitað er lausnin á þeim efnahagsvanda sem Kína stendur frammi fyrir flóknari en svo að hann verði leystur með því einu að fara að fókusera á afþreyingariðnaðinn. Nýjar atvinnugreinar munu ekki vaxa upp ef sparnaður landsmanna fer að stórum hluta í að greiða niður skuldirnar sem hrannast hafa upp í gömlu atvinnuvegunum og vikið var að hér að framan. Að því gefnu hins vegar að stjórnvöldum takist hreinsa upp skuldafenið og lagfæra þá undirliggjandi kerfisþætti sem upphaflega orsökuðu það þá er eins víst að afþreyingariðnaður og þekkingargeirinn almennt getur orðið mikill drifkraftur áframhaldandi framfara í landinu. Ef Kína lærir að búa til „bolta og popp“ eins og Bretland og „bíó og NBA“ eins og Ameríka þá er víst að hjólin fara að snúast.
En er þetta líklegt? Skoðum það aðeins. Síðustu mánuði hefur mátt lesa um það í málgögnum Flokksins og víðar að mikilvæg stefnubreyting sé að eiga sér stað í Peking um þessar mundir. Það hefur nánast verið viðurkennt opinberlega að efnahagsstefna síðustu ára virki ekki, að minnsta kosti ekki lengur. Í stað þess að örva hagvöxt með stuðningi við útflutning, fjárfestingar og neyslu þurfi að huga betur að framboðshlið hagkerfisins: Loka verksmiðjum sem brenna upp sparnað. Hreinsa til í efnahagsreikningum ríkisfyrirtækja. Skrúfa fyrir pólitískar lánveitingar. Lækka skatta og álögur á atvinnulífið. Huga betur að mannauðnum. Afnema einbirnisstefnuna. Styðja nýsköpun og einkaframtak ... Já, það glittir í útlínur nýss sáttmála sem Flokkurinn otar að landsmönnum: „Við getum hreinsað til. Við getum lagað kerfið.“ Þetta er, held ég, kjarninn í því sem Xi Jinping forseti er að segja þegar hann á hátíðarstundu talar um „kínverska drauminn“ en varar við því um leið að „hamingjan falli ekki af himnum ofan“ (landsmenn þurfi að venjast „nýja norminu“). „Draumurinn“ felur í sér loforð um neyslu, lífsgæði og menningu á hærra stigi en áður hefur þekkst. „Nýja normið“ er hins vegar ákall um skilning og þolinmæði því hagvöxtur mun óhjákvæmilega minnka meðan fyrirhugaðar kerfisbreytingar ganga yfir, atvinnuleysi aukast tímabundið og ýmsir kvillar hrjá samfélagið.
Mjúka valdið
En Xi Jinping þarf ekki aðeins „skilning og þolinmæði“ eigin þjóðar. Kína er ekki sérlega auðugt af náttúruauðlindum. Til að vaxa verður að afla orku og annarra aðfanga um víða veröld. Lega landsins gerir það hins vegar að verkum að aðdrættir eru síður en svo auðveldir. Til vesturs og norðurs eru efnahagslega lítt þróuð og /eða pólitískt óútreiknanleg lönd Mið-Asíu, Austur-Evrópu og norðurskautsins. Til austurs og suðurs hafsvæði og sund sem fjöldi ríkja gerir tilkall um lögsögu yfir. Það er algert lykilatriði fyrir leiðtoga Kína að geta tryggt hagvöxt heima fyrir án þess að umsvifin sem því fylgja veki totryggni þessara nágranna sinna eða bandamanna þeirra (einkum Bandaríkjanna). Skemmst er að minnast viðbragðanna á Íslandi við áhuga Huang Nubo á jarðnæði á Grímsstöðum og við áhuga Kína almennt á samstarfi um þróun norðurslóða.
Þá komum við að „mjúka valdinu“ eða því sem sumir myndu kalla „ímyndinni út á við“. Stjórnmálafræðingurinn Joseph S. Nye hefur skilgreint það sem hæfileika ríkja til að tryggja hagsmuni sína án þess að beita þvingunum eða narra með peningum. Uppspretta þessa valds sé það aðdráttarafl sem menning, pólitísk hugmyndafræði og utanríkisstefna viðkomandi ríkis hefur á íbúa annarra landa. Ljóst er að á síðustu árum hafa kínversk stjórnvöld ausið út peningum í mjúkt vald. Þeir reka t.d. 475 Konfúsíusarstofnanir í 120 löndum til að kynna og breiða út kínversk gildi og menningu, þ. á m. við Háskóla Íslands. Margt bendir hins vegar til að fjárútausturinn hafi hingað til skilað litlum sem engum árangri. Á nýlegum nýlegum lista Portland Communications þar sem 30 löndum er raðað upp eftir því hve mikið mjúkt vald þau hafa lenti Bretland í fyrsta sæti, Þýskaland í öðru, Bandaríkin í þriðja – en Kína hafnaði í neðsta sætinu. Almennt séð virðast viðhorf almennings í N-Ameríku, Evrópu, Japan og á Indlandi fremur neikvæð til Kína. Viðhorfin eru eitthvað jákvæðari í Afríku og S-Ameríku.
Nye hefur sagt að það sé einkum tvennt sem útskýrir slaka frammistöðu Kína hvað þetta varðar. Annars vegar sé það sá undirtónn þjóðernishyggju sem stjórnvöld ali á (í bland við fyrirheit um hagvöxt) til að tryggja frið innanlands. Rembingurinn ýti undir óþarfa yfirgang á S-Kínahafi og kalli fram beina andúð almennings í löndum eins og Japan, Filippseyjum og Víetnam. Hitt atriðið, sem dregur úr mjúku valdi Kína, er hve mjög hefur verið þrengt að borgaralegu samfélagi í landinu. Flokkurinn er upphaf og endir alls. Frjáls félagasamtök eiga afar erfitt uppdráttar. Málfrelsi er stórlega heft. Ímynd landsins út á við hefur þannnig tilhneygingu til að vera eintóna og óáhugaverð. Það sem fleytir Bretlandi í efsta sæti á lista Portland er einmitt hin seiðmagnaða mósaík iðandi mannlífs sem stórt, opið og frjálslynt samfélag getur af sér. Er annars ekki eitthvað öfugsnúið við það að á meðan „heimsveldið sem var“ getur boðið okkur upp á BBC, Oxford, LSE, Amnesty International, Oxfam, Save the Children, British Airways, Rolls Royce, Richard Branson, Jamie Oliver, Bítlana, Adele, enska boltan ... þá hefur það sem sumir kalla „heimsveldi 21. aldarinnar“ ekki upp á mikið meira að bjóða en Fréttastofu Nýja-Kína, CCTV og Konfúsíus gamla?
Þetta er hitt sviðið þar sem afþreyjingariðnaður getur augljóslega ráðið miklu um framtíð Kína. Hann er ekki bara iðnaður sem er fær um að knýja hagvöxt og leggja grundvöll að nýjum sáttmála milli ríkis og almennings. Hann er ein meginuppspretta mjúks valds á alþjóðavísu sem rísandi stórveldi hefur ekki efni á að vanrækja. Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvort borgaralegt samfélag í Kína muni fá nógu mikið svigrúm til að þessi iðnaður nái flugi og vinni sigra í öðrum löndum. Væri það yfir höfuð mögulegt án þess að hrófla um leið við valdastöðu Flokksins? Verður næsti áfangi í ferðalagi Kína inn í nútímann um leið svanasöngur Flokksins? Eða markar hann endurnýjun hans og endanlegan sigur byltingarinnar 1949? Verður Episode X í boði Kommúnistaflokks Kína?
Cogito ergo sum
Ég er staddur inni á skrifstofu Xi Jinping forseta Kína. Klossaðar viðarinnréttingar hverfast um olíumálverk af Kínamúrnum. Undir því veglegt skrifborð sem forsetinn hallar sér fram á til að leggja áherslu á orð sín. Ég veit ekki til þess að Xi veiti innlendu pressunni nokkurn tíma viðtöl. Hef bara séð hann flytja ávörp. Kannski er þetta „stúdíó“ sem hann situr inni í tilraun til að setja fram með myndrænum hætti eitt og annað sem ekki rúmast innan þess forms tjáningar: Mannlega þáttinn, áhugamálin, lífsmottóin. Ég verð því að viðurkenna að ég varð fyrir nokkru áfalli að koma ekki auga á neitt fótboltadót þarna. Ekki einu sinni hina skemmtilegu „selfie“ er Sergio Aguero tók af sér David Cameron og Xi saman á Etihad nú í haust. Hef ég verið að ofmeta boltann sem umbreytingarafl í Kína? Boðbera frjálslyndis og fjölbreytileika? Síðar las ég um það í blöðunum að nokkrum Xi-aðdáendum, er legið höfðu yfir upptökunni af nýársávarpi hans, tókst að greina merkan grip í einni bókahillunni inni í stúdíóinu: Rúmfræði Rene Descartes frá 1637. Þó þetta verk flokkist kannski ekki undir hversdagsbókmenntir eða popp-kúltúr þá er mér þó huggun að vita að einn af frumkvöðlum nútímahugsunar á Vesturlöndum eigi pláss í hugarfylgsnum leiðtogans.