Gauti Geirsson er nýjasti og yngsti aðstoðarmaður ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ráðning hans sem aðstoðarmann Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í síðustu viku vakti mikla athygli og þá sérstaklega ungur aldur hans. Gauti er 22 ára og hefur ekki veitt fjölmiðlum viðtal um ráðningu sína fyrr en nú, þegar hann hitti þau Þorstein Másson, Gylfa Ólafsson og Tinnu Ólafsdóttir í hlaðvarpsþætti Kjarnans, Útvarp Ísafjörður.
Gauti bendir á að nýafstiðin vika hafi verið kjördæmavika og hann hafi verið á þeytingi víða um landið með Gunnari Braga, hvar símasamband var víða stopult. En hann kemur líka inn á þá miklu umfjöllun sem ráðning hans fékk í fjölmiðlum, misjákvæða.
Með Framsóknarflokkinn í blóðinu
„Þetta var ansi mikið fjölmiðlafár svo ég ákvað að hvíla nafn mitt aðeins úr umræðunni eftir vikuna. En ég er ánægður að vera kominn til ykkar,” segir Gauti. En bjóst hann við því að ráðning hans myndi vekja jafn mikla athygli og raun bar vitni?
„Ég átti alveg von á að ráðning 22 ára drengs, eða krakka, eða hvað sem maður hefur verið kallaður, krakkaskítur eða eitthvað, mundi vekja athygli,” segir Gauti og hlær. „En það var kannski meira fólkið í kring um mig, vinir og aðstandendur sem hafa verið meira í sjokki og tekið þetta meira inn á sig.”
Gauti er fæddur og uppalinn á Ísafirði og segist koma af mikilli og gamalli framsóknarætt - samvinnufélagshyggjuætt, eins og hann orðar það. Hann hefur mikinn áhuga á byggðamálum, mannréttindamálum og umhverfismálum og hefur stundað nám í verkfræði í Reykjavík undanfarin tvö ár. Hann hefur ferðast töluvert og hefur gaman af.
Verslar ekki í H&M eftir ferð til Kambódíu
„Ég sá að það voru einhverjir að froðufella yfir því að ég hafði farið í heimsreisu, eins og það væri eina reynsla mín frá útlöndum. En það er alveg hægt að fara í heimsreisu og taka myndir af sér á Instagram við Burj Kalifa eða hvað sem er,” segir hann. „En þegar ég var til dæmis í Kambódíu þá fór ég í fataverksmiðju hjá H&M og sá mannréttindabrotin þar. Talaði við þýska stelpu sem var með mannréttindavaktina og ég hef ekki keypt vörur úr H&M síðan, því ég er mjög meðvitaður um hvernig þetta er. Og í Afríku sökkti ég mér í nýlendutímana. Það er alveg hægt að fara í gegn um lífið og vera orðinn gamall en vera samt ekkert að pæla í svona hlutum. En aldurinn segir ekki alveg allt.”
Fólk ekki vel að sér um störf aðstoðarmanna
Gauti segir að á sama tíma og samfélagið kalli eftir ungum og ferskum vindum er gerð krafa á starfsmenn að þeir séu með 40 ára reynslu að baki. Það gangi einfaldlega ekki upp.
„Ég varð hissa þegar ég fékk þetta boð. En svo fannst mér þetta bara nokkuð djarft, að hleypa ungu fólki inn,” segir hann. „Og ég gat eiginlega ekki sagt nei við því að láta rödd okkar heyrast.”
Hann segir töluverðan misskilnings gæta varðandi starfslýsingu aðstoðarmanna ráðherra.
„Ég held að partur af þessu sé að fólk er ekki mjög vel að sér varðandi hlutverk aðstoðarmanna ráðherra. Umræðan er svolítið eins og það sé verið að ráða ráðuneytisstjóra eða eitthvað þannig,” segir hann. Aðstoðarmaður ráðherra sé í raun trúnaðarmaður ráðherra og geri það sem honum er falið.
„Þetta er eina starfið sem þarf ekki að auglýsa opinberlega samkvæmt lögum. Og aðstoðarmaður á að starfa í þeim verkefnum sem ráðherra felur honum. Þannig að ég held að það gæti ákveðins misskilning varðandi hvað aðstoðarmenn eru að gera. En auðvitað þarf maður að setja sig inn í mál sem manni er falið,” segir Gauti.
Hlustið á viðtalið við Gauta í heild sinni í nýjasta þætti af Útvarpi Ísafirði. Einnig er meðal annars rætt um vatnsbrask, fjölda kaffibolla sem æskilegt er að drekka og öryggi ferðamanna.