Kvikmyndagerðarmennirnir Ómar Örn Sverrisson og Friðrik Grétarsson hafa þekkst frá æsku og ólust upp í Efra-Breiðholti. Þeir félagar hafa undanfarin ár unnið að heimildamynd um tónlistarmanninn Herbert Guðmundsson. Kjarninn hitti þá félaga og tók tali.
„Okkur hafði lengi langað að gera eitthvað verkefni saman og árið og árið 2011 var Friðrik staddur í brúðkaupi systur sinnar þar sem Herbert var fenginn til að koma fram. Herbert og Friðrik hittust og eftir stutt spjall ákváðu þeir að gera myndband við lagið Time af þá nýútkominni plötu Tree of Life með Herbertson. Eftir það kom upp hugmynd að gera heimildarmynd um Hebba og bar Friðrik hugmyndina upp við mig, sem sló strax til.“
„Við fórum strax í smá rannsóknarvinnu og komumst fljótt að því að það er miklu meira á bak við persónuna Herbert en margan grunar. Við erum búnir að vinna að myndinni í 5 ár með hléum en nú sér fyrir endann á henni. Þetta hefur verið mjög áhugavert og lærdómsríkt ferli allt saman, að standa í þessu án þess að hafa haft neitt fjármagn til verkefnisins. Nú er þetta allt að smella saman og stefnum við á að sýna hana með haustinu. Við settum af stað söfnun á Karolina Fund til að fjármagna eftirvinnsluna og þurfum við á ykkar stuðning að halda.“
Hvert er sjónarhornið í heimildamyndinni?
„Þetta er ferðasaga tónlistarmanns sem hefur mátt þola töluvert mótlæti og nánast alltaf verið með vindinn í fangið. Hann leggur allt sitt í það sem hann er að gera og fær kannski ekki alltaf þá viðurkenningu sem hann á skilið. Áhorfendur fá að kynnast fleiri hliðum á Herberti og teljum við okkur gera honum góð skil. Þetta er heiðarleg mynd þar sem við ræðum við ýmsa þekkta einstaklinga sem hafa þekkt Herbert frá upphaf tónlistarferlis hans ásamt því að Herbert segir sjálfur frá sögu sinni allt til nútímans. “
Hvaða gögn notuðu þið við vinnslu myndarinnar?
„Við notum einnig efni úr gömlum tímaritum, viðtölum, internetinu og gögnum úr einkasafni Herberts sem er talsvert. Einnig var eitthvað gramsað í safni Rúv þar sem við fundum upptökur af ungum Herberti. Það hefur verið frábært að fylgjast með Herberti og þrautseigja hans er öðrum til fyrirmyndar. Það var líka skemmtilegt að sjá hvað yngri kynslóðir kunna að meta 80's lögin hans enn þann dag í dag.“
Hverju teljið þið að tónlist Herberts Guðmundssonar og ferill hans hafi breytt fyrir íslenska tónlistarflóru?
„Hinn ódauðlegi smellur Can't Walk Away lifir mjög góðu lífi og nær svo sannarlega kynslóða á milli. Það er án efa lagið sem kom honum rækilega á kortið á sínum tíma. Hann hefur sýnt fram á það að það er vel hægt að lifa á þessu tónlistarstússi. Það gerir hann með því að koma fram á skólaböllum, árshátíðum og í heimahúsum. Svo gefur hann út sína eigin tónlist og selur hana að mestu leiti sjálfur.“
„Núna erum við búnir að vinna í myndinni í 5 ár með hléum en nú sér loks fyrir endann á henni. Þetta hefur verið mjög áhugavert, lærdómsríkt og krefjandi ferli, enda staðið í þessu með fullri vinnu þar sem ekkert fjármagn var til verkefnisins. Nú er þetta allt að smella saman og stefnum við á að sýna hana með haustinu. Okkur hlakkar mikið til að heiðra Herbert með þessarri mynd, hann á svo sannarlega skilið að sagan hans sé sögð. Við settum af stað söfnun á Karolina Fund til að aðstoða okkur við að fjármagna eftirvinnsluna og hefur söfuninn farið ágætlega af stað. Vonumst við til þess að sem flestir sjái sér fært að styðja við verkefnið okkar svo að við komum Herberti á hvíta tjaldið.“
Verkefnið má finna hér.