Salka Margrét Sigurðardóttir er 23 ára og eini Íslendingurinn sem vinnur fyrir ráðherra í bresku ríkisstjórninni. Hún var ráðin sem einn þriggja aðstoðarmanna ráðherra internetöryggis, Joanna Shields barónessu, í september síðastliðnum, þá nýútskrifuð með mastersgráðu í heimspeki og opinberri stefnumótun frá London School of Economics and Political Science.
Frá Skaganum í Spilaborgina
Salka ólst upp á Akranesi og lauk fjölbrautarskólanum þar á þremur árum. Hún segist alltaf hafa verið mjög pólitískt þenkjandi og ákvað fljótt að flytja sig um set til Reykjavíkur þar sem hún ætlaði sér stóra hluti. Hún skráði sig í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og var virk í stúdentapólitíkinni og félagslífinu. En útlönd heilluðu, svo hún skellti sér til London í frekara nám.
„Ég hef alltaf verið háð því að prófa eitthvað nýtt. Þegar ég lauk náminu í London var ég ekki tilbúin til að fara heim í þægindarammann strax, enda er Ísland ekki að bjóða upp á bestu tækifærin fyrir ungt og nýútskrifað, metnaðarfullt fólk. Bretar styðja mjög vel við nýútskrifaða stúdenta. Þeir vilja ungt, öflugt fólk með enga reynslu, öfugt við Ísland,” segir Salka.
Salka fékk starfið sem hún sóttist eftir: Aðstoðarmaður ráðherra í ríkisstjórn Bretlands. Hún starfar sem eins konar hliðvörður á milli Shields, almennings og restarinnar af ráðuneytinu.
„Ég sé um dagbókina hennar, tölvupóstinn, símann og aðrar upplýsingar sem eru ætlaðar henni. Ég veg og met hvað er viðeigandi og hvað ekki, tek við óskum um viðveru hennar og hjálpa henni að velja hvað hún þiggur. Svo hjálpa ég henni við ræðuskrif og sé til þess að hún sé undirbúin fyrir alla fundi og viðburði,” segir hún.
Allt í einu komin með líf ráðherra í hendurnar
Mikið hefur verið rætt um aðstoðarmenn íslensku ráðherranna undanfarin misseri. Bæði hefur fjöldi þeirra verið gagnrýndur og nú síðast var ungur aldur nýjasta aðstoðarmanns Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra umtalsefni. Sá er 22 ára, ári yngri en Salka.
Salka segir mikinn eðlismun vera á milli starfi aðstoðarmanna ráðherra á Bretlandi og Íslandi. Í bresku ríkisstjórninni starfar teymi pólitískra ráðgjafa, sem aðstoðarmenn hérlendis sinna líka.
„Hér er þetta allt aðskilið. Ráðgjafar eru pólitískt ráðnir af flokkunum sem borgar þeirra laun. Við aðstoðarmennirnir eru ráðnir til ráðuneytanna sem ópólitísk og fylgjum þeim þó að ríkisstjórnin fari,” segir hún.
Salka segir það hafa verið svolítið yfirþyrmandi í fyrstu að mæta til vinnu á nýjum stað.
„Allt í einu var ég orðin hluti af þessu stórmerkilega batterí og kominn með líf og störf ráðherra í hendurnar,” segir hún. „Á öðrum vinnustöðum þar sem ég hef unnið gerði maður auðvitað mistök eins og allir, en ef ég geri mistök hér þá er ég kannski búin að flækja heilan dag í lífi ráðherra. En það er ofboðslega gaman í vinnunni, stórmerkilegt og krefjandi. Engir tveir dagar eru eins því það gerist allt svo hratt. Allt í einu segir forsætisráðherra kannski eitthvað og þá verða allir að hlaupa til og allt fer á fullt. Það er engin vissa í neinu. Það er æðislegt,” segir hún.
Vinna gegn ISIS og radikalisma
Shields er ráðherra í tveimur ráðuneytum; menningarmálaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu. Hún er sömuleiðis öldungardeildarþingmaður fyrir íhaldsflokkinn í House of Lords, sem skipað er í. Neðri deildin, House of Commons, er kosin eftir kjördæmum.
Salka segir Shields afar viðkunnalega og góðan yfirmann.
„Við vinnum mjög náið saman og erum orðnar góðar vinkonur. Hún er mjög flott kona og ég hef lært gríðarlega mikið af henni. Hún veit hvað hún vill og hvernig á að ná því fram,” segir hún.
Shields er bandarísk en var gerð að ráðherra netöryggismála í maí síðastliðnum.
„Við erum meðal annars að skoða radikalisma á netinu. Þá helst hvernig hryðjuverkasamtökin ISIS haga sér á samfélagsmiðlum og hvernig þeir fá fólk til liðs við sig til Sýrlands. Við vinnum náið með forsvarsmönnum samfélagsmiðla til að hjálpa þeim að finna út hvað þeir geta gert til þess að hjálpa til. Það er ljóst að ISIS væri ekki svona öflugt ef það væri ekki fyrir samfélagsmiðlana því það eru leiðirnar sem þeir nota til að eiga samskipti við fólk í vestrænum löndum. Við skoðum líka hvað ríkisstjórnin getur gert í samstarfi við fyrirtækin, rannsökum tölfræðina og hegðunina almennt. Þetta snýst um að halda öllum við borðið og finna út hvernig við getum leyst þetta saman,” segir Salka.
Yfirmaður hjá Google og Facebook
Shields er langt frá því að vera blaut á bak við eyrun á þessu sviði. Áður en hún fluttist yfir hafið til Englands og tók við ráðherrastöðu starfaði hún í Silicon Valley, meðal annars í yfirmannastöðum hjá Google og sem framkvæmdastjóri hjá Facebook og stjórnaði umsvifum fyrirtækisins í Miðausturlöndum, Evrópu og Afríku.
Salka segir Shields því meta mikils að geta átt í samskiptum við stjórnendur samfélagsmiðlanna og vinna með þeim að lausnum.
„Við hugsum ekkert mikið um öfgahyggju og radikalisma heima á Íslandi. Hér er hryðjuverkaógn álitin helsta samfélagshætta nútímans og tekin ofboðslega alvarlega. Það var svolítið súrrealískt að vera lent í miðri hringiðunni og átta sig á að það er þetta sem skiptir mestu máli í heiminum. Það var svolítið yfirþyrmandi þegar ég áttaði mig á hvað ég væri með mikilvægan málaflokk í höndunum,” segir Salka.
Fleiri netöryggismál eru á borði Shields og eitt það stærsta er öryggi barna á netinu. Ráðuneytið leiðir verkefni sem snýr að eyðingu barnaklámsmynda á netinu og hvernig tryggja á öryggi barna á netinu. Þá er annað stórt verkefni að fara í gang sem koma á í veg fyrir aðgang barna að klámi og rannsóknir sem skoða áhrif kláms á börn.
Stjórnmálin eins og í Scandal
Salka segir það lyginni líkast hvernig raunveruleikinn er á bak við tjöldin.
„Ég hef alltaf haft rosalega gaman af pólitískum sjónvarpsþáttum eins og House of Cards og Scandal. En mér datt aldrei í hug að raunveruleikinn gæti verið svona líkur þessu. Þetta er eiginlega alveg eins og í sjónvarpsþætti, bæði á góðan hátt og slæman. Öll valdabaráttan og dramað er raunverulegt og svo eru allir óyfirstíganlegu ferlarnir þar sem „Computer says no”,” segir hún. „Þegar svo margt fólk með ólíkar skoðanir kemur saman þá þarf að ná að búa til stefnu þar sem fólk mætist á miðri leið. Það er mjög áhugavert að sjá hvaða leiðir ráðherrar nota til að ná sínu fram og hve mismunandi þeir eru og sjá inn í hluti sem maður hefur aldrei pælt í.”
Hvert einasta skref útpælt
Salka er í töluverðum samskiptum við breska fjölmiðla í starfi sínu og segir bresku pressuna sérlega óvægna, eins og þekkt er, og aðrir séu mismóttækilegir eins og gengur. Hún vann sjálf sem blaðamaður á DV áður en hún fluttist til London, svo hún þekkir hvernig það er að vera þeim megin borðsins.
„Það eru svo ólíkir hagsmunir í gangi og það er magnað að sjá hvað fjölmiðlum tekst að spinna mikið. Við vinnum mjög náið með fjölmiðlum og pössum að þeir fái nægan aðgang að upplýsingum. Við erum mikið í samskiptum við BBC, Sky og fleiri miðla, en svo er auðvitað sér fjölmiðlateymi sem starfar með okkur líka. Ég er hlekkurinn á milli ráðherra og þess teymis,” segir hún. „En það er alltaf strategísk ákvörðun hvaða fjölmiðla maður talar við að hverju sinni, hvaða miðlar eru líklegir til að spinna málin á einhvern veg. Hvert einasta skref er útpælt.”
Salka mætir til vinnu í ráðuneytið um klukkan 9 að morgni en veit aldrei hvenær hún kemst heim eftir vinnudaginn. Hún fylgir dagskrá ráðherra í einu og öllu. Ef Shields þarf að fara í þinghúsið, sem er hinum megin við götuna frá ráðuneytinu, fara þær þangað. Ef þingið situr fram á kvöld, eins og algengt er, er Salka í vinnunni fram á kvöld. Svo þarf að ganga úr skugga um að ráðherrann kjósi á þinginu og oft er tíminn naumur því aðeins átta mínútur eru gefnar til að bregðast við þegar bjallan hringir.
„Ég tók andköf þegar ég sá húsin í fyrsta sinn og áttaði mig á að ég er að vinna í byggingunum sem ég hafði séð í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Ég er nákvæmlega þar - í miðri hringiðunni. Ég er að lifa bíómyndalífi.”