Jóhann Ásmundsson, bassaleikari Mezzoforte, er að vinna að fjármögnun sólóplötu með alþjóðlegum hóp meðspilara á Karolina Fund. Fimmtán ár eru síðan hann gaf út sína fyrstu sólóplötu So Low. Kjarninn hitti Jóhann og tók hann tali.
Hvenær byrjaðir þú í tónlist?
„Ég byrjaði frekar ungur í tónlist, ekki á bassa, ég spilaði á blokkflautu til að byrja með, sem krakki og var að læra á flautu og flautur alveg þangað til ég var kominn á 13 árið mitt. Það lá fyrir mér að verða flautuleikari og þá var ég svo heppinn að afi minn og amma í Borgarnesi sem eru reyndar bæði farin, þau gáfu mér bassa, fyrsta bassann minn. Það var bróðir hans pabba, frændi minn sem hvatti þau, af því að ég var áhugasamur um músík. Ég tengdi strax við þetta hljóðfæri og eftir það var ekki aftur snúið. Þó ég hefði nóturnar úr flautuleiknum þá gleymdi ég því bara þegar ég fór að spila á bassann því ég var að hlusta á lög og pikka upp og lærði á bassann þannig. Seinna þá rifjaði ég upp nóturnar. Bassinn kemur mjög frá hjartanu, mér fannst gaman að spila á bassann og svo ágerðist það.“
Þú minnist á það að vera búinn að vera í Mezzoforte frá unga aldri, er eitthvað búið að vera á takteinum hjá ykkur undanfarið?
„Ég var 15 ára gamall þegar við byrjum að spila saman árið 1976. Ég var með Gulla Briem í Réttarholtsskóla, og Eyþór Gunnarsson og Friðrik Karlsson voru saman í Vörðuskóla. Við kynntumst eiginlega þegar við vorum að þvælast í hljóðfæraverslunum. Fórum svo að finna okkur æfingapláss og byrjuðum að spila saman. Seinna fórum við að spila svona instrumental tónlist eins og Mezzoforte og stofnum hljómsveitina ári síðar, sem þýðir að á næsta ári erum við að halda upp á 40 ára afmæli hljómsveitarinnar. Því verður aldeilis fagnað með pompi og prakt með stórtónleikum í Hörpu.“
Þetta er ekki þín fyrsta plötuútgáfa, segðu mér aðeins frá So Low.
„Árið 2001 gaf ég út plötuna So Low, það var mín fyrsta sólóplata. Í upphafi Mezzoforte tímans þá samdi ég svolítið sjálfur og með öðrum. Svo leið einhver tími þar sem ég sinnti því lítið, en svo kom það aftur til mín að fara að semja og það komu til mín nokkur lög á Mezzoforte plötu og ég samdi meira en fór inn hjá Mezzoforte. Ég þurfti lengi að hugsa mig um hvort ég gæti gert heila plötu sjálfur og svo bara einn daginn var ég kominn með nógu mikið efni til að geta gefið út disk. Svo er það Ási sonur minn sem hvatti mig að drífa í að gefa út disk og ég ákvað að kýla á það.“
Hvernig tónlist er að finna á þessari plötu?
„Þetta er instrumental að mestu leyti, þetta er ekki ólík tónlist og Mezzoforte, það sem kallast Fusion Music, þ.e. bræðslumúsík. Þarna er að finna rokk, latín, smooth jazz og funk.“
Eru einhverjir fleiri sem koma að plötunni?
„Ég kynnst mikið af tónlistarfólki í gegnum tíðina, bæði sem hafa spilað með Mezzoforte og svona öðrum sem ég hef spilað með á öðrum vettvangi og hef kynnst og eru tónlistarmenn sem að ég held mikið upp á. Johan Oijen Gítarleikari og Jónas Wall saxafónleikari sem að spilar með Mezzoforte í dag. Andreas Andreasson einnig saxafónleikari frá Stokkhólmi, þýskur gítarleikar sem hefur einnig spilað með Mezzoforte, Bruno Mueller, annar sænskur gítarleikari sem heitir Staffan William Olson mun spila á plötunni, norskur trommuleikari sem heitir Ruben Dalen, Ásmundur sonur minn einnig á trommur og margir fleiri góðir.“
„Öll platan er tekin upp í Stúdíó Paradís, en það er fjölskyldufyrirtæki sem við stofnuðum árið 2012, ég og Sigrún konan mín og börnin okkar. Upphaflega kemur nafnið Paradís frá Pétri Kristjánssyni, bróður Sigrúnar. Hann var í hljómsveitinni Paradís og þaðan kemur nafnið Paradís á snyrtistofuna hennar Sigrúnar og svo nafnið á stúdíóið. Partur af verkefninu er svo diskurinn So Low sem hefur verið uppseldur í langan tíma og við erum að endurútgefa hann um leið.“
„Það sem mér finnst skemmtilegast er að spila með öðrum og það sem við höfum í Mezzoforte er alveg einstak. Við tengjumst svo vel músíklega og það er alveg æðislegt þegar það gerist. Það er líka það sem myndast á milli tónlistarmanna, dínamíkin sem er það sem er áhugaverðast í tónlist.“
Verkefnið er að finna hér.