Árið 1910 var tímamótaár í sögu klassískrar tónlistar, þegar tónskáld hófu að nálgast tónlistina með ótal nýjum leiðum. „Hugmyndin um söguleg tímamót útheimtir vissulega sögulega fjarlægð og þekkingu á þeim straumum og hræringum sem fylgdu í kjölfarið,“ segir Benedikt Hjartarson, aðjúnkt í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands, í myndbandinu hér að ofan. Þar er einmitt fjallað um þetta ár í upphafi tuttugustu aldarinnar og reynt að varpa ljósi á menningarbreytingarnar sem það hafði í för með sér.
Á föstudag í næstu viku verða síðustu tónleikar vetrarins í föstudagsröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Á efnisskrá tónleikanna verður tónlist sem samin er á árinu 1910. Flutt verða verk eftir Claude Debussy, Anton Webern og Ígor Stravinaskíj. Hægt er að lesa meira um tónleikana á vef sinfóníuhljómsveitarinnar.
Föstudagsröð Sinfóníuhljómsvetarinnar heldur áfram næsta vetur með þremur tónleikum í Norðurljósasal Hörpu. Samkvæmt upplýsingum frá hljómsveitinni verða verk á borð við fjórðu sinfóníu Beethovens flutt, Daughters of the Lonesome Isle eftir John Cage, Komm, Jesu, Komm eftir Johann Sebastian Bach og fleira. Daníel Bjarnason mun stýra hljómsveitinni eins og í vetur.