Eldskírn bifreiðarinnar - Kappaksturinn frá Peking til Parísar

Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur rýndi í magnaða kappaksturssögu.

Kristinn Haukur Guðnason
Spyker
Auglýsing

Í upphafi seinustu aldar tóku nokkrir ofurhugar þátt í kappakstri þvert yfir allt meginland Evrasíu. Þetta gerðu þeir á bílum sem biluðu sífellt og voru álíka kraftmiklir og utanborðsmótorar eru í dag. Þeir kynntust óvægnu landslagi og veðri, slæmu eða engu vegakerfi og svo öðrum ófyrirséðum uppákomum á leið sinni. Þetta var prófsteinn á hina nýju uppfinningu – bílinn.

Hver þorir?

Í janúar árið 1907 birtist eftirfarandi tillaga eða áskorun í frönsku dagblaði sem nefndist Le Matin.[ http://www.unmuseum.org/autorace.htm]

Við beinum þessarar spurningar til bílaframleiðanda í Frakklandi og erlendis: Er einhver sem vill taka það að sér að ferðast nú í sumar frá París til Peking í bifreið? Hver sem hann er, sá sterki og áræðni maður, sem tugir þjóða munu fylgjast með á sínum glæsilega bíl, hann mun verðskulda það að verða þekkt nafn í öllum fjórðungum jarðarinnar.

Auglýsing

Þetta þótti áskorun í lagi þar sem bílar höfðu einungis verið til í um 20 ár og voru langt því frá almenningseign. Fyrsta sjálfrennireiðin, Benz Patent-Motorwagen, var smíðuð í Þýskalandi árið 1886 en fyrsti bílinn sem almenningur hafði ráð á að kaupa, hinn ameríski Ford Model T, var ekki smíðaður fyrr en ári eftir hina umræddu frönsku áskorun. Á fyrstu áratugum bifreiðanna urðu miklar framfarir í hönnun og framleiðendur prófuðu sig áfram með ýmsa hluti en engu að síður var notagildið frekar takmarkað. Krafturinn var lítill, endingin slæm, bilanatíðnin há og vegirnir ekki hannaðir fyrir slíkar nýjungar. Fólk leit jafnvel á bifreiðar sem nokkurs konar brellu eða leikföng sem myndu aldrei taka við af hestinum og gufulestinni sem hentugasti ferðamátinn. En smám saman byggðist upp spenna og eftirvænting hjá mörgum. Hvers er bifreiðin megnug?

Fjórir bílaframleiðendur svöruðu kallinu og var ákveðið að 5 bílar myndu keppa í júní þetta sama ár. Forsvarsmenn Le Matin ákváðu snemma að hafa sem fæstar reglur. Það eina sem keppendur þurftu að gera var að komast milli borganna tveggja á bifreið sinni. Bein fluglína milli borganna eru rúmlega 8200 km, en keppendur höfðu sett upp eldsneytisstöðvar víðs vegar norðan við hana. Þannig að vegalengd keppenda var í raun mun nær 15.000 km. Það var einnig ákveðið að snúa keppninni við, þ.e. að hún myndi hefjast í Pekíng og enda í París. Þetta var gert af veðurfræðilegum ástæðum, til að sleppa við monsún rigningarnar í Asíu. Leiðin var nógu erfið fyrir, sérstaklega yfir svæði í Síberíu þar sem fólk hafði aldrei séð bíl, hvað þá byggt vegi fyrir þá. Ljóst var að keppnin yrði mikill prófsteinn á bílana þar sem keyrt yrði utan vegar í alls kyns landslagi, s.s. fjalllendi, eyðimörkum og skóglendi. Eitthvað var um stíga en þeir voru margir hverjir þröngir og oft blautir.

Keppendur voru eftirfarandi:

Auguste Pons                    Frakki sem keppti fyrir franska framleiðandann Contal. Fyrirtækið var skammlíft og framleiddi aðallega bíla á þremur hjólum. Bíllinn sem Pons keyrði var með einu afturhjóli.

Scipione Borghese           Ítalskur aðalsmaður (titlaður prins) og ævintýramaður frá Flórens í Toscana héraði. Keppti fyrir ítalska framleiðandann Itala sem sameinaðist Fiat á fjórða áratugnum.

Charles Godard                 Franskur ævintýramaður og knapi sem keppti fyrir hollenska framleiðandann Spyker. Godard hafði oft komist í kast við lögin fyrir fjárglæfrastarfsemi og nokkrum sinnum setið inni.

Georges Cormier             Fyrrum hermaður og kappakstursmaður frá Frakklandi. Hann keyrði annan bíl franska framleiðandans De Dion sem var leiðandi á heimsvísu á þessum tíma.

Victor Collignon                Frakki sem keppti einnig fyrir De Dion, á nákvæmlega eins bíl og Cormier.

 

Í öllum bílunum voru farþegar (í þeim ítalska tveir), annað hvort bifvélavirkjar eða fréttamenn sem sendu reglulega út fréttir af gengi liðsins. Bílarnir voru mjög misvel hannaðir og búnir fyrir keppnina. Itala bíll prinsins var sá langkröftugasti með 40 hestafla og fjögurra sílindra vél. En hann var einnig sá þyngsti og vó um 2 tonn. Þar á eftir kom hinn 15 hestafla Spyker bíll Godards. Fyrirfram var talið að keppnin myndi standa milli þeirra tveggja. De Dion bílarnir voru 10 hestafla en Contal þríhjólið einungis 6 hestafla. Það var þó lang léttasta farartækið, einungis 700 kg.

Hægt af stað

Vitað var að keppnin yrði erfið og örðugleikarnir hófust strax áður en keppnin hófst við franska sendiráðið í Pekíng. Sérstaklega átti þetta við Charles Godard sem var algjörlega vanbúinn til keppninnar. Hann var blankur og þurfti að selja mest alla varahlutina úr bílnum til þess eins að koma sér til Pekíng, en sigldi reyndar á fyrsta farrými. Þegar hann kom til Pekíng þurfti hann að betla fé út úr hollenska sendiráðinu. Eitthvað virðist skipulagning keppnishaldara einnig hafa farið úr böndunum. Tvívegis var keppninni frestað og þegar loksa var flautað til leiks neituðu yfirvöld í Kína að veita keppendum vegabréfsáritanir til Mongólíu. Keppendurnir ákváðu þó allir að halda af stað án pappíranna þann 10. júní. Fjöldi fólks hafði safnast saman til að kveðja keppendur. Frönsk herlúðrasveit spilaði og kínverjar voru sprengdir til heiðurs ökuþórunum er þeir óku út úr borginni.

Vandamálin voru ekki einungis bundin við fjármögnun og skipulagningu. Mikil rigning hófst strax og þeir komu út úr Pekíng og vegurinn breyttist í drullusvað. Fyrsti hluti leiðarinnar var norður, yfir fjöll og yfir á mongólsku slétturnar. Vegirnir voru þröngir og lélegir og sums staðar beinlínis hættulegir þar sem þverhnípt var niður hlíðar eða ofan í gil. Vélarnar í bílunum réðu oft einfaldlega ekki við þessar aðstæður og því var gripið til þess ráðs að draga bílana upp hlíðarnar, annað hvort með múlösnum eða mannafli. Borghese prins á hinum þunga og breiða Itala bíl átti í sérstaklega miklum erfiðleikum þessa leið. Í eitt skipti munaði litlu að illa færi þegar bremsurnar gáfu sig á leiðinni niður fjallshlíð. Contal bíllinn bifaðist varla á tímabili og því fékk hann að geyma nauðsynlegan farangur (og þyngd) í öðrum bílum. Ferðin yfir fjöllin tók alls 5 daga, mun lengur en með hefðbundnum ferðamátum s.s. hestvögnum.

Bjargað af hirðingjum

Þegar komið var út á hina víðáttumiklu Gobi eyðimörk í Mongólíu tóku önnur vandamál við. Pons á Contal bílnum varð eldsneytislaus og hann og félagi hans þurftu að freista þess að ganga til byggða og skilja bílinn eftir. Þeir voru næstum dánir úr hita og þorsta þegar hirðingjar fundu þá og björguðu þeim. Þeir ákváðu að halda ekki áfram keppni. Nokkru seinna varð Spyker bíll Godards einnig bensínlaus. Hann fékk smáræði lánað hjá De Dion liðunum en það dugði skammt. Godard og félagi hans biðu í tvo daga í eyðimörkinni eftir hjálp. Þeir áttu einungis 2 lítra af vatni, örlítið súkkulaði, maðkaðan kjúkling og annað lítilræði. Eftir að þeir gripu til þess ráðs að drekka vatnið af bílnum ákvað Godard að reyna að finna hjálp sem hann og gerði. Godard hitti fyrir hirðingja sem drógu bílinn með úlföldum og komu honum að næsta þorpi. Spyker bíllinn náði svo hinum bílunum skömmu seinna. Hitinn á eyðimörkinni var geigvænlegur og vélarnar þoldu hann illa. Keppendurnir þurftu að hella eigin drykkjarvatni á vélarnar til að kæla þær. En í eyðimörkinni kom samt einn helsti kostur bifreiðarinnar fram, hraðinn. Á sléttunum komust bílarnir mjög hratt yfir, sérstaklega hinn öflugi Itala bíll. Hann komst yfir eyðimörkina á fjórum dögum, leið sem tekur hestvagn næstum þrjár vikur. Keppendur höfðu komið sér saman um það að halda hópinn þar til komið var að þýsku landamærunum en prinsinn sveik það samkomulag. Borghese var því kominn með nokkuð forskot á keppinauta sína þegar komið var yfir eyðimörkina að rússnesku landamærunum.

Síbería var næst á dagskrá og helsta vandamálið þar var óáreiðanleikinn. Þau kort sem keppendur höfðu voru gömul og landslagið hafði breyst mjög mikið eftir að hinir miklu Trans-Síberíu lestarteinar (sem liggja frá Moskvu til Vladivostok) voru lagðir. Sums staðar var enginn vegur eða það sem verra var, engar brýr. Þær brýr sem stóðu voru oft mjög lélegar og fúnar. Keppendur tóku stundum áhættur, sérstaklega Borghese, sem keyrði eins hratt og hann gat yfir brýr sem voru að hruni komnar. Í eitt skipti voru liðsmenn Itala stálheppnir að lifa af þegar brú brotnaði undan þeim og ökumennirnir féllu úr bílnum í gegnum brúnna. Þeir voru einnig heppnir að bíllinn komst nokkuð óskaddaður frá fallinu. Þetta var ekki eina hættan sem Itala liðið lenti í í Síberíu. Þegar veginn skorti brugðu þeir á það ráð að keyra á lestarteinunum. Í eitt skipti festist bíllinn í teinunum í þann mund sem lest kom aðvífandi. Liðsmenn hömuðust við að losa bílinn og tókst það á síðustu stundu. Úr kappakstrinum. Hann gekk ekki stórslysalaust.Seinastu alvarlegu vandræðin sem ítalska liðið lenti í var þegar eitt hjólið brotnaði í mél. Þeir fundu þó rússneskan kerrusmið í nærliggjandi bæ sem gat smíðað nýtt hjól undir bílinn. Spyker bíllinn bilaði einnig alvarlega nálægt borginni Irkutsk. Senda þurfti mann frá Amsterdam með varahluti austur til Síberíu en Godard ákvað að flytja bílinn með lest á móti honum. De Dion félugunum fannst þetta vitaskuld vera svindl og heimtuðu að Spyker liðið yrði dæmt úr keppni. Godard fór því aftur til baka á staðinn þar sem bíllinn hafði bilað og keyrði svo eins og brjálaður maður til að ná hinum bílunum. Algerlega örmagnaður náði hann De Dion liðunum og þeir urðu samferða til Þýskalands.

Í júlílok voru Borghese prins og hans menn komnir til Moskvu, um 17 dögum á undan keppinautunum. Leiðin í gegnum Evrópu var silkimjúk en þeir voru stöðvaðir af lögregluþjóni í Belgíu fyrir hraðaakstur. Lögreglumaðurinn trúði ekki að þeir væru að koma frá Kína. Þann 10. ágúst, nákvæmlega tveimur mánuðum eftir að keppnin hófst, ók Borghese prins inn í Parísarborg og vann þar með keppnina. Mikill fjöldi var samankominn við götur borgarinnar til að fylgjast með honum keyra síðasta spölinn. Þegar hin þrjú liðin komu til Þýskalands var Spyker bíllinn stöðvaður og Charles Godard handtekinn. Hann hafði verið dæmdur í Frakklandi fyrir fjárplógsstarfsemi og frönsk yfirvöld kröfðust þess að hann yrði framseldur. Spyker fengu mann að nafni Frilling til að aka bílnum frá Þýskalandi til Parísar. Godard, laus úr haldi, reyndi þó að komast yfir Spyker bílinn rétt áður en hann kom inn í Parísarborg þegar Frilling sá ekki til en lögreglumenn náðu að yfirbuga hann og færa í járn. Bílarnir þrír komu í mark 30. ágúst, 20 dögum á eftir sigurvegaranum. Verðlaun Borghese voru fyrst og fremst heiðurinn en að auki fékk hann flösku af G.H. Mumm kampavíni.

Keppendur hlutu allir heimsfrægð um stund og þá sérstaklega sigurvegarinn Borghese prins. Sumir héldu áfram ævintýramennsku og kepptu í hinum ýmsu kappökstrum og öðrum keppnum. Bæði Borghese og Cormier börðust svo fyrir bandamenn í fyrri heimsstyrjöldinni. En mestu frægðina hlaut tækið sjálft, bíllinn. Ef keppnin hefði mistekist og enginn bíll komist í mark, eða jafnvel ekki út fyrir kínversku landamærin, þá hefði það staðfest trú margra að bifreiðar væru gagnslaust dót fyrir milljónamæringa. En þrátt fyrir alla erfiðleikana komust allir bílarnir nema þríhjólið í mark og það opnaði augu margra fyrir því hvers tækin voru megnug. Tveir af keppnisbílunum eru ennþá til í dag og til sýnis á samgönguminjasöfnum, þ.e. bílar Borghese og Godards. Mikill áhugi var á því að endurtaka leikinn en það var ekki hægt á tímum Sovétríkjanna. Eftir að þau liðuðust í sundur upp úr 1990 hefur kappaksturinn verið endurgerður nokkrum sinnum, annað hvort á nútímabílum eða eftirlíkingum af þeim upprunalegu.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None