Ársins sem er að líða verður líklega minnst í stjórnmálum fyrir óvænt úrslit. Hvort sem um er að ræða kosningar á Íslandi, Brexit eða Trump. Á margan hátt er hægt að segja það sama um undirbúning forsetakosninganna hér í Frakklandi sem fram fara í apríl og maí á næsta ári í tveimur umferðum. Mánuðum saman hefur sama stefið hljómað í fjölmiðlum. Fyrrum forsætisráðherra Jacques Chiracs forseta frá 1995, Alain Juppé átti að mæta Nicolas Sarkozy fyrrum forseta í seinni umferð forkosninga Lýðveldisflokksins. Juppé myndi svo vinna og sigra með glæsibrag seinni umferð forsetakosninganna í maí. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Sarkozy komst ekki einu sinni í aðra umferð og fyrrum forsætisráðherra hans frá 2007 – 2012, François Fillon vann forkosningarnar með 66 prósenta atkvæða. Þarna voru því tveir jaxlar í pólitík úr leik og næsta öruggt samkvæmt skoðanakönnunum að sigurvegarinn myndi mæta Marine Le Pen úr Þjóðernisfylkingunni í maí þar sem að vinstrivængur stjórnmálanna er í molum. Forsetinn með 7,5 prósenta stuðning í skoðanakönnunum og Sósíalistaflokkurinn klofinn í herðar niður. Margir hér í landi eru reyndar logandi hræddir um að Le Pen vinni kosningarnar eftir að hafa séð Trump sigra í Bandaríkjunum.
En þetta var áður en forsetinn, François Hollande, tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem var óvænt og sögulegt því aldrei áður hefur forseti setið eitt kjötímabil og ekki sóst eftir endurkjöri. Og nú þarf að stokka upp á nýtt. Marine Le Pen taldi leiðina að Elysée-höll greiðfæra en hefur nú fengið Fillon sem keppinaut en hann hefur fært Lýðveldisflokkinn langt til hægri og hræðir jafnvel suma af sínum eigin flokksmönnum sem telja sig vera svokallaða sósíal-Gaullista í ætt við Chirac. Fillon hefur talað um að lækka endurgreiðslur á lyfjum, einkavæða að hluta sjúkratryggingar og vill fækka opinberum starfsmönnum um fimmhundruðþúsund sem sérfræðingar telja ógerlegt. Fillon er nú kallaður „anti-social“ og er á harðahlaupum undan eigin stefnu úr forkosningunum. Því hefur nú opnast pláss á miðjunni og farið að hitna í kolunum á vinstri vængnum.
Eftir að forsetinn hætti við þurfa Sósíalistar nýjan frambjóðenda og ekkert sjálfgefið hver hann verður. Forsætisráðherrann Manuel Valls sagði af sér á dögunum til þess að einbeita sér að forkosningum Sósíalista. Hann er reyndar sakaður um að hafa ýtt Hollande út til þess að taka sæti hans og jafnvel kallaður Brútus. Vandamál Valls er hins vegar að hann hefur borið ábyrgð eins og forsetinn á þeirri póltík sem rekin hefur verið undanfarin ár. Hann hefur til dæmis sex sinnum notað grein 49.3 í stjórnarskránni sem gefur forsætisráðherra leyfi þegar um mikilvæg mál er að ræða sem varða hagsmuni lands og þjóðar að samþykkja lög án umræðu og atkvæðagreiðslu. Þetta gerðist í þrígang þegar mjög umdeild vinnulöggjöf var samþykkt í sumar. Á miðvikudag lýsti frambjóðandinn Valls því yfir að ef hann verði kosinn forseti þá muni hann fella þess grein úr stjórnarskránni. Óhætt að segja að viðbrögðin hafi verið blendin, milli hláturs og gráts. Valls kynnir sig nú sem mann sameiningar á vinstri vængnum. Sá sem er sakaður um að hafa verið óvæginn og harður við andstæðinga sína og því ábyrgur á klofningi eigin flokks. Helsti keppinautur hans Arnaud Montbourg fyrrum viðskiptaráðherra sem Valls einmitt rak úr ríkisstjórninni er líklegur til að verða í annarri umferð forkosninganna á móti Valls. Svo er sá þriðji Benoît Hamon sem er enn lengra til vinstri og hefur verið að sækja í sig veðrið. Sá eini sem hefur nýjar og ferskar hugmyndir og gæti blandað sér í toppbaráttuna.
Ekki má svo gleyma tveimur frambjóðendum sem eru nú þegar frambjóðendur í forsetakosningunum og neita að taka þátt í forkosningum Sósíalista, Jean Luc Mélenchon og Emmanuel Macron. Mélenchon er sá sem er lengst til vinstri en hefur hægt og býtandi verið að hækka í könnunum og eins og Macron langt fyrir framan alla hugsanlega frambjóðendur Sósíalista. Hann vill öllu breyta og stofna hið svokalla sjötta lýðveldi en eftir stjórnarskrárbreytingar De Gaulle 1958 er núverandi lýðveldi það fimmta í röðinni frá byltingunni 1789. Emmanuel Macron er hins vegar kannski sá sem vert er að fylgjast náið með í framtíðinni. Hann var ráðgjafi forsetans, síðan viðskiptaráðherra og hefur ýmsar nýjungar í framangreindum, þykir nokkuð frjálslyndur en neitar að láta stimpla sig til hægri og hefur engan flokk að baki sér sem gæti hjálpað á tímum þegar almenningur treystir ekki stjórnmálaflokkum. Macron er í dag þriðji frambjóðandinn í skoðanankönnum á landsvísu, á eftir Fillon og Le Pen. Hann ætlar sér að fylla tómarúmið á miðjunni vegna þess hversu hægrisinnuð þessi tvö fyrrnefnu eru. Einmitt á meðan að blóðug átök eiga sér stað í Sósíalistaflokknum. Sagan er því ekki skrifuð fyrir fram.