Pure Natura er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á bætiefnum úr lambainnmat, lambakirtlum og jurtum. Fyrirtækið var stofnað í september 2015 af frumkvöðlunum Hildi Þóru Magnúsdóttur, Rúnu Kristínu Sigurðardóttur og Sigríði Ævarsdóttur og er staðsett á Sauðárkróki.
Hugmyndina má rekja til hugmyndafræði sem nú er að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum og víðar og snýr að því að betri og nýtanlegri vítamín og bætiefni komi úr mat en úr gerviefnum sem búin eru til á tilraunastofum. Þessi nýja tegund bætiefna er því unnin úr raunverulegum matvælum, með öllum þeim efnum og samvirkni sem í þeim finnast og sett fram sem heildarpakki en ekki sem einstök, einangruð efni.
En af hverju innmatur, hvað gerir hann að ákjósanlegu hráefni?
„Þegar við fórum af stað með að þróa vörurnar okkar, ákváðum við að nota innmat sem uppistöðu í þeim öllum því þar er vannýtt auðlind á ferð. Þrátt fyrir að innmaturinn sé einhver næringarríkasta fæða sem völ er á, þá hefur dregið mjög úr neyslu hans á undanförnum áratugum. Það má nánast segja að hann sé að detta alveg út hjá yngri kynslóðum hins vestræna heims,“ segir Hildur Þóra einn frumkvöðlanna sem standa að þessu verkefni.
„Það er eins og hann hafi hreinlega gleymst í umræðunni um hollustu sem verið hefur í gangi undanfarna áratugi, en það er raunverulega ekkert sem kemur þó í staðinn fyrir nákvæmlega þennan mat þó margt gott sé til. Lifur, hjörtu og fleiri líffæri eru í raun eins og risastór fjölvítamíntafla með öllu tilheyrandi og innmatur inniheldur á bilinu 10-100 sinnum meira magn næringarefna en vöðvar sama dýrs. Þessi matur var áður mikilvægur hluti mataræðis okkar, þeir sem komnir eru af barnsaldri muna það að þeir þurftu að borða lifur reglulega þó þeim þætti hún oft vond en mæður okkar og ömmur tóku ekki annað í mál, enda aldar upp við að nýta allt og vissu að þessi matur var hollur þó þær hefðu ekki í höndum rannsóknarniðurstöður þar um. Auk þess eru efnin á formi sem líkaminn þekkir og getur nýtt næringarefnin úr, sem ekki er alltaf raunin með tilbúin vítamín.“
„Pure Natura leggur áherslu á að best sé að neyta matar og fá næringarefni úr sem ferskustum matvælum og sem minnst unnum. Hins vegar sé það staðreynd að allt of margir borði ekki innmat og því sé í raun nauðsynlegt að auka aðgengi og áhuga á slíkri ofurfæðu með öðrum hætti en hingað til hefur tíðkast. Pure Natura býður því uppá afurð sem hægt er að taka inn sem hylki og gleypa með mat eða vatnsglasi og fá þannig skammtinn sinn reglulega af öllum þeim góðu næringarefnum sem í þessu hráefni er að finna.“
Eru einhverja sérstöðu þá að finna í íslenskum innmat, sem ekki finnst í innmat frá öðrum löndum?
„Fyrirtækið nýtir eins og áður sagði innmat og kirtla úr íslenskum lömbum í sína framleiðslu auk þess að nýta einnig íslenskar handtýndar villijurtir eins og fíflarót, ætihvannafræ, birki, vallhumal, burnirót, baldursbrá og fl. í blöndur sínar. Íslenska lambakjötið er í sérflokki hvað varðar hreinleika og það sama má segja um villtu jurtirnar okkar. Við höfum hreint vatn, loft og jarðveg, hér er sýklalyfjanotkun og notkun á skordýraeitri lítil sem engin og má því í raun bera því við að íslenska hráefnið sé á heimsklassa.“
Hvaða vörur eru þið að vinna úr þessu hráefni? Fyrir hverja eru þær hugsaðar?
„Fyrirtækið hefur unnið að þróun bætiefnanna í rúm tvö ár og eru fjórar vörutegundir afrakstur starfsins. Pure Liver sem er hugsað sem blanda af lifur og völdum jurtum til styrkingar fyrir lifrina, Pure Heart er samskonar blanda nema fyrir hjartað, Pure Nutrition sem hentar vel sem næringaruppbót fyrir alla og Pure Power sem sérstaklega er hugsuð fyrir fólk sem vill meiri orku, er í líkamlegri erfiðisvinnu, líkamsrækt og þess háttar.“
Hvað er það sem drífur ykkur áfram í þessu frumkvöðlastarfi?
„Við viljum að sjálfsögðu gefa fólki kost á því að hugsa sem best um sig sjálft og þá sem því þykir vænt um. Það gerum við með því að bjóða upp á hágæða bætiefni sem innihalda mikið magn næringarefna í bland við þekktar lækningajurtir sem eru án allra aukaefna og lyfjaresta. Einnig hefur það skipt okkur máli að í dag eyða sláturhús töluverðu fjármagni árlega í förgun á hráefni eins og innmat og kirtlum sem Pure Natura vill nýta í vörur sínar. Í stað þess að farga þessu hráefni er hægt að vinna úr því hágæða fæðubót og búa þar með til pening í stað sóunar. Við viljum styðja við aukna sjálfbærni í dilkaslátrun. Minnka sóun, auka meðvitund neytenda og stuðla að fullnýtingu afurðanna í heimabyggð“ segir Hildur.
Einnig bendir hún á að verkefni sem þetta sé atvinnuskapandi og það sé mikilvægt að finna lausnir til að fjölga störfum í byggðum sem hafa átt við fólksfækkun að etja. „Ef sala afurðanna gengur vel skilar það, og vonandi bóndanum, hærri greiðslum fyrir hvert lamb sem hann leggur inn til slátrunar. Hugmyndin er sú að ef allt gengur upp þá græði allir á þessu verkefni,“ segir Hildur.
Hver eru svo næstu skref hjá Pure Natura?
„Svona frumkvöðlastarf kostar heilmikla vinnu og fjármuni og nú er farið í fjármögnunarverkefni á Karolina fund til að standa straum af fyrstu framleiðslulotu fyrirtækisins. Við höfum fengið vel á annan tug milljóna í styrki til þess að þróa vörurnar okkar. Auk þess lánaði Byggðastofnun félaginu fyrir uppsetningu á vinnslulínunni, en annar kostaður eins og laun og rekstur hefur verið greiddur af eigendum. Nú eru vörurnar hins vegar tilbúnar og tími til komin að fá fjárfesta að borðinu með okkur, svo hægt sé að leggja út fyrir í markaðssetningu á erlenda markaði. Vörurnar verða að sjálfsögðu einnig til sölu innanlands þó þær séu ekki komnar í verslanir ennþá. Þeir sem vilja nálgast þær núna eða styðja við þetta áhugaverða verkefni er bent á áheitasöfnun okkar á Karolina fund, en þar getur fólk tryggt sér vörur úr fyrstu framleiðslulotunni okkar og stutt við bakið á okkur.“
Söfnunin á Karolina fund stendur yfir til 10. febrúar og er hægt að kynna sér hana betur og taka þátt á síðu verkefnisins hjá Karolina fund.