Í tvær vikur hefur varla verið rætt um annað í stjórnmálum í Frakklandi en greiðslur til eiginkonu François Fillon, frambjóðanda Republikanaflokksins (Les Républicains) fyrir forsetakosningarnar í apríl og maí. Penelope Fillon fékk nærri eina milljón evra í laun sem aðstoðarmaður eiginmanns síns en hér í landi tíðkast að þingmenn hafi jafnvel fleiri en einn aðstoðarmann. Hundrað þúsund af upphæðinni var greiðsla fyrir vinnu við blaðið La revue des deux monde sem er í eigu vinar Fillons, milljónamæringsins Marc Ladreit de Lacharrière, 32. ríkasta manns landsins. Í hvorugu tilvikinu hefur orðið vart við vinnu Penelope Fillon. François Fillon tók þá ákvörðun um síðustu helgi að leggja allt á borðið, boða til blaðamannafundar, birta upplýsingar um bankareikninga og eignir og biðjast afsökunar á þessu máli til að hreinsa loftið.
Eftir blaðamannafundinn á mánudag ætlaði Fillon að taka upp þráðinn að nýju og blása lífi í kosningabaráttuna. Fyrst hélt hann fund með þingmönnum á þriðjudag þar sem hann þrumaði yfir þeim og sagði að það væri ekkert val, hann væri frambjóðandi og yrði áfram. Svo fór hann í heimsókn í verksmiðju. En síðdegis á þriðjudag komu fram nýjar upplýsingar hjá skopmyndablaðinu, Le Canard enchaîné (Öndin hlekkjaða) sem kom málinu fyrst í umræðuna. Þar kemur fram að Penelope Fillon hafi fengið 45.000 evrur frá Þjóðþinginu þegar hún hætti sem aðstoðarmaður eiginmans síns. Það voru meðal annars bætur vegna uppsagnar, sem og laun frá Marc Joulaud sem tók við af Fillon á þingi þegar hann varð ráðherra 2002, og réði hana að nýju. Fillon segir að þessar upphæðir hafi komið fram á blaðamannafundinum. Hins vegar var ekki sagt eitt orð um það að eiginkonan hefði verið á tvöföldum launum á þessu tímabili, bótum vegna sjálfkrafa starfsloka, þar sem eiginmaðurinn var ekki lengur þingmaður, og svo laun frá þeim nýja. Ekki voru allir á eitt sáttir í verksmiðjunni sem Fillon heimsótti og þótti mörgum illa til fundið hjá honum að koma þangað. Þar voru konur sem sumar eru með um þúsund evrur í mánaðarlaun og því ekki að undra að á hann væri baulað, líkt og víðar í borginni Troyes þar sem hann var í heimsókn.
Auk Penelope Fillon var Marc Joulaud þingmaður með annan aðstoðarmann á sama tíma, Jeanne Robinson-Behre. Launakjörin voru hins vegar ekki þau sömu, önnur fékk greiddar 6.000 evrur á mánuði og hin 607 evrur. Þetta kom fram í dagblaðinu Ouest France á miðvikudag.
Tvö af fimm börnum Fillons hafa dregist inn í umræðuna þar sem þau fengu greiðslur fyrir lögfræðiaðstoð meðan faðir þeirra var þingmaður í Öldungadeildinni sem í sjálfu sér er ekki ólöglegt. Vandamálið er bara það að þau voru ekki orðin lögfræðingar á þeim tíma. Í vikunni kom einnig fram, bæði í Le Monde og Le Canard enchaîné, að á meðan dóttirin, Marie Fillon, var í starfsþjálfun sem lögfræðingur var hún ráðin í fulla vinnu sem aðstoðarmaður pabba síns og gamlir skólafélagar segjast ekki geta ímyndað sér hvernig hún gat sinnt hvort tveggja í einu. Marie og Charles Fillon elstu börn hans voru boðuð til rannsóknardómara á fimmtudag til að svara fyrir vinnu þeirra fyrir föður sinn.
Kosningabarátta Fillons er því enn og aftur farin að snúast um að verja það óverjanlega. Frambjóðandinn sem kynnti sig sem von Frakklands sem væri með óaðfinnalega fortíð, sá sem talaði um að Frakkar þyrftu að leggja meira á sig og vinna meira, sá sem vill fækka opinberum starfsmönnum og svo mætti áfram telja, allt til að koma landinu á réttan kjöl, hefur ekki lengur hreinan skjöld. Allan þennan tíma virðist sem konan hans hafi verið heima, eins og hefur komið fram í fleiri viðtölum við hana, og rakað saman seðlum. Reyndar hefur komið upp spurning um hvort hún hafi yfir höfuð vitað af þessu. Það er ekkert ólöglegt við að ráða eiginkonu sína sem aðstoðarmann, þó það sé auðvitað ákveðið siðferðilegt vanmat, en það telst vera fjárdráttur ef hún innir enga vinnu af hendi. Nú hefur einnig komið fram að milljónamæringurinn sem réði Penelope Fillons í vinnu á tímaritinu La Revue des deux mondes fékk orðu úr hendi Fillons 31. desember 2010 þegar hann var forsætisráðherra og að versla með orður er litið alvarlegum augum í Frakklandi.
Eftir að Fillon fór úr embætti 2012 og varð þingmaður Parísar stofnaði hann ráðgjafarfyrirtæki sem var afskaplega hljótt um. Á blaðamannafundinum á mánudag lagði frambjóðandinn fram upplýsingar um að hann hefði unnið fyrir fyrirtæki hins áðurnefnda orðuþega. Einnig kom þar fram að Fillon hafi fengið 200.000 evrur í ráðgjafalaun frá tryggingafyrirtækinu AXA en eitt af því sem hann leggur til nú er að hann spara í sjúkratryggingakerfinu með því að opna meira á einkatryggingar. Tilviljun eða ekki en það er einmitt eitt af því sem AXA sérhæfir sig í. Fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins er nú í kosningastjórn Fillons og er nefndur sem hugsanlegt viðskiptaráðherraefni. Hagsmunaárekstrar er eitt af því sem kemur upp í hugann.
Fjölmiðlar töluðu í vikunni um svart tímabil hjá Republikönum því Nicolas Sarkosy, fyrrverandi forseti, verður væntanlega að svara til saka fyrir ólöglega fjármögnun kosningabaráttu sinnar 2012 en hann eyddi tvisvar sinnum leyfilegri upphæð, um 45 milljónum evra í stað 22,5, en málinu var vísað til dómstóla á mánudag. Lögfræðingar Sarkozys hafa nú þegar áfrýjað en þetta kemur fram á versta tíma fyrir flokkinn.
Og lengi getur vont versnað gæti Fillon sagt. Gamall miðjumaður, François Bayrou, sem hefur þrisvar verið forsetaframbjóðandi, hugsar sér nú til hreyfings en hafði lýst því yfir að hann færi ekki fram ef Alain Juppé yrði framjóðandi hægrimanna, sem ekki varð. Hann segir ótækt að Fillon dragi sig ekki í hlé og það gætu orðið mikilvæg prósentustig sem töpuðust Fillon ef Bayrou færi fram en hann hefur nú fimm prósent í skoðanakönnunum án þess að vera í framboði.
Fjórar skoðanakannanir birtust í vikunni um úrslit fyrri umferðarinnar, 23. apríl, þær sýna allar að Fillon kæmist ekki í aðra umferð kosninganna 7. maí, það gerðu hins vegar Marine Le Pen, sem fitnar eins og púkinn á fjósbitanum eftir að þessi mál komu upp, og Emmanuel Macron. Fillon hefur fallið úr 30 prósentum í 18 síðan hann vann forkosningarnar í nóvember á síðasta ári.