Fillon í þungum sjó

Nýjar upplýsingar um greiðslur til konu François Fillon og dóttur sem eiga sér ekki eðlilegar skýringar eru að valda forsetaframbjóðandanum miklum vandræðum.

François Fillon, frambjóðandi Lýðveldisflokksins. MYND:EPA
Auglýsing

Í tvær vikur hefur varla verið rætt um annað í stjórn­málum í Frakk­landi en greiðslur til eig­in­konu François Fillon, fram­bjóð­anda Repu­blikana­flokks­ins (Les Répu­blicains) fyrir for­seta­kosn­ing­arnar í apríl og maí. Pen­elope Fillon fékk nærri eina milljón evra í laun sem aðstoð­ar­maður eig­in­manns síns en hér í landi tíðkast að þing­menn hafi jafn­vel fleiri en einn aðstoð­ar­mann. Hund­rað þús­und af upp­hæð­inni var greiðsla fyrir vinnu við blað­ið La revue des deux monde sem er í eigu vin­ar Fillons, millj­óna­mær­ings­ins Marc Ladreit de Lacharrière, 32. rík­asta manns lands­ins. Í hvor­ugu til­vik­inu hefur orðið vart við vinnu Pen­elope FillonFrançois Fillon tók þá ákvörðun um síð­ustu helgi að leggja allt á borð­ið, boða til blaða­manna­fund­ar, birta upp­lýs­ingar um banka­reikn­inga og eignir og biðjast af­sök­un­ar á þessu máli til að hreinsa loft­ið.

Eftir blaða­manna­fund­inn á mánu­dag ætl­aði Fillon að taka upp þráð­inn að nýju og blása lífi í kosn­inga­bar­átt­una. Fyrst hélt hann fund með þing­mönnum á þriðju­dag þar sem hann þrum­aði yfir þeim og sagði að það væri ekk­ert val, hann væri fram­bjóð­andi og yrði áfram. Svo fór hann í heim­sókn í verk­smiðju. En síð­degis á þriðju­dag komu fram nýjar upp­lýs­ingar hjá skop­mynda­blað­in­u,  Le Can­ard enchaîné (Öndin hlekkj­aða) sem kom mál­inu fyrst í umræð­una. Þar kemur fram að Pen­elope Fillon hafi fengið 45.000 evrur frá Þjóð­þing­inu þegar hún hætti sem aðstoð­ar­mað­ur eig­in­mans síns. Það voru meðal ann­ars bætur vegna upp­sagn­ar, sem og laun frá Marc Jou­laud sem tók við af Fillon á þingi þegar hann varð ráð­herra 2002, og réði hana að nýju. Fillon segir að þessar upp­hæðir hafi komið fram á blaða­manna­fund­in­um. Hins vegar var ekki sagt eitt orð um það að eig­in­konan hefði verið á tvö­földum launum á þessu tíma­bili, bótum vegna sjálf­krafa starfs­loka, þar sem eig­in­mað­ur­inn var ekki lengur þing­mað­ur, og svo laun frá þeim nýja.  Ekki voru allir á eitt sáttir í verk­smiðj­unni sem Fillon heim­sótti og þótti mörgum illa til fundið hjá honum að koma þang­að. Þar voru konur sem sumar eru með um þús­und evrur í mán­að­ar­laun og því ekki að undra að á hann væri baulað, líkt og víðar í borg­inni Troyes þar sem hann var í heim­sókn. 

Auk Pen­elope Fillon var Marc Jou­laud þing­maður með annan aðstoð­ar­mann á sama tíma, Jeanne Robin­son-Behre. Launa­kjörin voru hins vegar ekki þau sömu, önnur fékk greiddar 6.000 evrur á mán­uði og hin 607 evr­ur. Þetta kom fram í dag­blað­inu Ouest France á mið­viku­dag.

Auglýsing

Tvö af fimm börn­um Fillons hafa dreg­ist inn í umræð­una þar sem þau fengu greiðslur fyrir lög­fræði­að­stoð meðan faðir þeirra var þing­maður í Öld­unga­deild­inni sem í sjálfu sér er ekki ólög­legt. Vanda­málið er bara það að þau voru ekki orðin lög­fræð­ingar á þeim tíma. Í vik­unni kom einnig fram, bæði í Le Monde og Le Can­ard enchaîné, að á meðan dóttir­in, Marie Fillon, var í starfs­þjálfun sem lög­fræð­ingur var hún ráðin í fulla vinnu sem aðstoð­ar­maður pabba síns og gamlir skóla­fé­lagar segj­ast ekki geta ímyndað sér hvernig hún gat sinnt hvort tveggja í einu. Marie og Charles Fillon elstu börn hans voru boðuð til rann­sókn­ar­dóm­ara á fimmtu­dag til að svara fyrir vinnu þeirra fyrir föður sinn.

Kosn­inga­bar­átta Fillons er því enn og aftur farin að snú­ast um að verja það óverj­an­lega. Fram­bjóð­and­inn sem kynnti sig sem von Frakk­lands sem væri með óað­finna­lega for­tíð, sá sem tal­aði um að Frakkar þyrftu að leggja meira á sig og vinna meira, sá sem vill fækka opin­berum starfs­mönnum og svo mætti áfram telja, allt til að koma land­inu á réttan kjöl, hefur ekki lengur hreinan skjöld. Allan þennan tíma virð­ist sem konan hans hafi verið heima, eins og hefur komið fram í fleiri við­tölum við hana, og rakað saman seðl­um. Reyndar hefur komið upp spurn­ing um hvort hún hafi yfir höfuð vitað af þessu. Það er ekk­ert ólög­legt við að ráða eig­in­konu sína sem aðstoð­ar­mann, þó það sé auð­vitað ákveðið sið­ferði­legt van­mat, en það telst vera fjár­dráttur ef hún innir enga vinnu af hendi. Nú hefur einnig komið fram að millj­óna­mær­ing­ur­inn sem réði Pen­elope Fillons í vinnu á tíma­rit­inu La Revue des deux mondes fékk orðu úr hendi Fillons 31. des­em­ber 2010 þegar hann var for­sæt­is­ráð­herra og að versla með orður er litið alvar­legum augum í Frakk­land­i. 

Eftir að Fillon fór úr emb­ætti 2012 og varð þing­maður Par­ísar stofn­aði hann ráð­gjaf­ar­fyr­ir­tæki sem var afskap­lega hljótt um. Á blaða­manna­fund­inum á mánu­dag lagði fram­bjóð­and­inn fram upp­lýs­ingar um að hann hefði unnið fyrir fyr­ir­tæki hins áður­nefnda orðu­þega. Einnig kom þar fram að Fillon hafi fengið 200.000 evrur í ráð­gjafa­laun frá trygg­inga­fyr­ir­tæk­inu AXA en eitt af því sem hann leggur til nú er að hann spara í sjúkra­trygg­inga­kerf­inu með því að opna meira á einka­trygg­ing­ar. Til­viljun eða ekki en það er einmitt eitt af því sem AXA sér­hæfir sig í. Fyrr­ver­andi for­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins er nú í kosn­inga­stjórn Fillons og er nefndur sem hugs­an­legt við­skipta­ráð­herra­efni. Hags­muna­á­rekstrar er eitt af því sem kemur upp í hug­ann. 

Fjöl­miðlar töl­uðu í vik­unni um svart tíma­bil hjá Repu­blikönum því Nicolas Sar­kosy, fyrr­ver­andi for­seti, verður vænt­an­lega að svara til saka fyrir ólög­lega fjár­mögnun kosn­inga­bar­áttu sinnar 2012 en hann eyddi tvisvar sinnum leyfi­legri upp­hæð, um 45 millj­ónum evra í stað 22,5, en mál­inu var vísað til dóm­stóla á mánu­dag. Lög­fræð­ing­ar Sar­kozys hafa nú þegar áfrýjað en þetta kemur fram á versta tíma fyrir flokk­inn.

Og lengi getur vont versnað gæti Fillon sagt. Gam­all miðju­mað­ur, François Bayrou, sem hefur þrisvar verið for­seta­fram­bjóð­andi, hugsar sér nú til hreyf­ings en hafði lýst því yfir að hann færi ekki fram ef Alain Juppé yrði fra­mjóð­andi hægri­manna, sem ekki varð. Hann segir ótækt að Fillon dragi sig ekki í hlé og það gætu orðið mik­il­væg pró­sentu­stig sem töp­uð­ust Fillon ef Bayrou færi fram en hann hefur nú fimm pró­sent í skoð­ana­könn­unum án þess að vera í fram­boð­i. 

Fjórar skoð­ana­kann­anir birt­ust í vik­unni um úrslit fyrri umferð­ar­inn­ar, 23. apr­íl, þær sýna allar að Fillon kæm­ist ekki í aðra umferð kosn­ing­anna 7. maí, það gerðu hins vegar Mar­ine Le Pen, sem fitnar eins og púk­inn á fjós­bit­anum eftir að þessi mál komu upp, og Emmanuel Macron. Fillon hefur fallið úr 30 pró­sentum í 18 síðan hann vann for­kosn­ing­arnar í nóv­em­ber á síð­asta ári. 

Pistill­inn birt­ist einnig á vef­­svæði Berg­þórs.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk
None