Á þessum degi fyrir réttum 105 árum, hinn 12. febrúar árið 1912, var Hsian-T‘ung keisari þvingaður til afsagnar eftir uppreisn lýðveldissinna undir stjórn Sun-Yat-sen. Hsian-T‘ung var aðeins sex ára gamall þegar hann var settur af og hafði ríkt í fjögur ár eftir að Kuang-hsu, föðurbróðir hans lést í embætti.
Þegar Hsian-T‘ung hrökklaðist úr Drekahásætinu var bundinn endir á 2000 ára keisaraveldi í Kína og 267 ára valdatíð Mansjú-ættbálksins. Hann tók upp nafnið Henry Pu Yi og fékk að búa í Forboðnu Borginni, hýbýlum keisarans, næstu tólf ár, en þá var hann gerður útlægur. Raunar var hann settur í keisarastólinn á ný árið 1917 í skjóli stríðsherra nokkurs, en nokkrum dögum síðar rann það aftur út í sandinn.
Fjarar undan stórveldi
Rætur kínverskrar siðmenningar liggja djúpt og hafa Kínverjar haft mikil áhrif, til dæmis á sviðum tækni, lista, hernaðar og heimspeki. Lengi vel einangruðu kínverskir ráðamenn landið frá umheiminum, en þegar komið var fram á miðja nítjándu öld fór smátt og smátt að fúna í undirstöðum Kína og keisaraveldisins.
Eftir að hafa fengið slæma útreið í stríðum gegn erlendum ríkjum og miklar róstur innanlands varð sífellt ljósara að stjórnkerfið var meingallað. Illa gekk að færa samfélagið í átt að nútímavæðingu og óánægja fór sífellt vaxandi.
Andspyrnuhreyfingar spruttu víða upp og hófu virka uppreisn gegn keisarastjórninni. Xinhai-uppreisnin hófst árið 1911 og var Sun Yat-sen fyrsti forseti Kína, en var ýtt til hliðar áður en Pu Yi hafði sagt af sér og Yuan Shikai tók við.
Leppur Japana í Mansjúríu
Pu Yi flúði til Tianjin-borgar, sem þá var á valdi Japana, en Japanir áttu eftir að hertaka stóran hluta af austurhluta Kína. Árið 1932 stofnuðu Japanir svo leppríkið Mansjúkó í Mansjúríuhéraði og settu Pu Yi yfir það og krýndu hann keisara. Þar ríkti Pu Yi allt til loka seinni heimsstyrjaldar þegar hann var tekinn höndum af herliði Sovétríkjanna þar sem hann var við það að stíga um borð í flugvél til Japans.
Réttað var yfir honum vegna stríðsglæpa, en hann sagðist saklaus og aðeins hafa verið viljalaust verkfæri Japana. Rétturinn sá framvinduna ekki sömu augum og dæmdi hann sekan.
Pu Yi var framseldur til Kína árið 1950, skömmu eftir að lýðveldið leið undir lok og kommúnistaflokkurinn undir stjórn Maó Zedong komst til valda, og sat í fangelsi í níu ár, frá 1950 til 1959.
Friðsamt ævikvöld keisarans
Eftir það flutti hann til Beijing þar sem hann hóf nýtt líf sem almennur borgari, hét Kommúnistaflokkinum hollustueið, gekk í hjónaband og vann meðal annars á verkstæði og í grasagarði borgarinnar. Árið 1964 hóf hann störf hjá Kommúnistaflokknum og gegndi því til æviloka, en hann lést úr nýrnakrabbameini og hjartasjúkdómi árið 1967.
Jarðneskum leifum hans var komið fyrir í kirkjugarði þar sem háttsettir menn í kommúnistaflokknum voru jarðaðir, en árið 1995 fann ekkja hans honum stað í öðrum kirkjugarði í nágrenni við grafhýsi keisaraættarinnar.
Aðrir markverðir atburðir sem gerðust 12. febrúar: