Marine Le Pen er enn og aftur efst allra frambjóðenda í skoðanakönnunum fyrir fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi sem fram fara 23. apríl næstkomandi. Á fimmtudag birtust nýjar kannanir sem sýna að hún er langefst með 26 prósent atkvæða ef kosið væri nú og næsta örugg um að komast í aðra umferðina 7. maí. Þar á eftir kemur fyrrum viðskiptaráðherrann, Emmanuel Macron með 23 prósent og svo frambjóðandi Republíkana, François Fillon með aðeins 18,5 prósent og hefur tapað sex prósentum síðan að launagreiðslur frá Þjóðþinginu til eiginkonu hans og barna komust í hámæli.
En Adam var ekki lengi í paradís eða öllu heldur Eva í þessu tilviki. Marine Le Pen hefur samkvæmt skjölum frá eftirlitsnefnd Evrópuþingsins (OLAF), viðurkennt að hafa ráðið lífvörð sinn sem aðstoðarmann á Evrópuþinginu án þess að hann leysti þar af höndum nokkra vinnu. Einnig er hún sökuð um að hafa gert samning við Catherine Griset sem aðstoðarmann í Brussel en hún var í raun persónulegur aðstoðarmaður Le Pen. Griset vann á aðalskrifstofu flokksins frá 2010 og kom aldrei til Brussel sem er þó skilyrði fyrir því að þessi laun séu greidd. Þetta þýðir í raun að Marine Le Pen hafi gert falsaða starfssamninga við starfsfólk sitt.
Lífvörðurinn Thierry Légier fékk frá október til desember 2011 fjörtíu og eitt þúsund og fimmhundruð evrur eða litar sjö og hálfa milljón íslenskra króna í laun. Á dögunum hafði verið talað um að eftirlitsnefndin hefði krafið Le Pen um að endurgreiða 330.000 evrur, um fjörtíu milljón íslenskar krónur, til Evrópuþingsins. Á þeim tímapunkti komst það hins vegar ekki í hámæli vegna þess hversu margar mínútur og dálksentimetra mál Fillons tóku í fjölmiðlum og, hugsanlega, vegna þess að Le Pen var sökuð um að svíkja út fjármuni frá Evrópusambandinu en ekki franska þinginu sem virðist hneyksla minna.
Í gærmorgun var hins vegar tónninn aðeins annar og í fyrsta skiptið í langan tíma heyrðist í Le Pen í morgunfréttum útvarps sem og á sjónvarpsstöðvum þar sem hún fór í bullandi vörn og þurfti að verja gjörðir sínar í stað þess að stjórna umræðunni. Le Pen er vanari því að vera í sífelldri sókn og ráðast gegn stjórnmálamönnum jafnt til hægri sem vinstri og kallar þá alla óhæfa og spillta.
Þetta eru ekki einu málin í kringum Le Pen-fjölskylduna sem er forrík. Jean-Marie Le Pen, faðir Marine, sem á einnig sæti á Evrópuþinginu og var áður forseti Þjóðfylkingarinnar og forsetaframbjóðandi áður en dóttir hans rak hann úr flokknum, hefur einnig verið sakaður um misnotkun á fé Evrópuþingsins. Jafnframt hafa þau feðgin bæði verið sökuð um að vantelja fasteignir og að svíkjast undan skatti. Það sem er ótrúlegast í málinu er að Marine Le Pen, sem telur Evrópusambandið vera ástæðu allra hörmunga Frakklands og þó víðar væri leitað, skuli misnota aðstöðu sína til að svíkja út fé, sama stjórnmálakona og vill halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu Frakklands innan sambandsins og vill fara ganga úr samstarfinu um evruna.
Einhvern vegin hafa mál Le Pen-fjölskyldunnar aldrei náð að komast almennilega í umræðuna en nú gæti orðið breyting þar á. Spurningin er hvort að Marine Le Pen verði næsti frambjóðandinn sem fellur í skoðanakönnunum vegna spillingarmála líkt og François Fillon eða hvort hún nái enn að skauta yfir þau. Forsetakosningarnar í Frakklandi gætu því verið opnari en margur hefur haldið hingað til þar sem að Marine Le Pen hefur lengi talið sig örugga um að komast í aðra umferð.