Endurkoma róttækra stjórnmála með Jeremy Corbyn

Sviptingar hafa einkennt bresk stjórnmál undanfarið og má telja ris frægðarstjörnu Jeremy Corbyns meðal þeirra. Rithöfundurinn Richard Seymour hélt nýverið fyrirlestur um Corbyn á Íslandi og spjallaði við Kjarnann um framtíð sósíalískra hugmynda í pólitík

Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins í Bretlandi.
Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins í Bretlandi.
Auglýsing

Töluverðar vendingar hafa orðið í breskum stjórnmálum undanfarin misseri og hafa fáir farið varhluta af skyndilegum vinsældum stjórnmálamannsins Jeremy Corbyn formanns Verkamannaflokksins þar í landi. Seint verður sagt að Corbyn sé nýr í hettunni og þess vegna vekur furðu að hugmyndir hans um sósíalisma fái þann hljómgrunn sem raun ber vitni, sérstaklega hjá ungu fólki. Margar ástæður virðast liggja þar að baki og margir samhangandi þættir hafa leitt Corbyn á þann stað sem hann er á í dag. 

Rithöfundurinn Richard Seymour hélt hádegisfyrirlestur í Þjóðminjasafninu á vegum Sósíalistaflokksins þann 14. ágúst síðastliðinn um þennan þaulreynda en umdeilda stjórnmálamann en Seymour skrifaði bók um hann fyrir tveimur árum, Corbyn: The Strange Rebirth of Radical Politics. Til stendur að endurútgefa bókina vegna atburða síðustu tveggja ára í breskum stjórnmálum. Kjarninn náði tali af Seymour og spjallaði við hann um stöðu vinstri manna, ástæður vinsælda Corbyns, kosti hans og galla og framtíð stjórnmála í Bretlandi.

Ný von fyrir vinstrimenn

Seymour hefur lengi verið viðloðandi pólitíska umræðu. Hann var í Sósíalíska Verkalýðsflokknum (SWP) en sagði sig úr honum árið 2013. Skrif hans hafa verið birt í fjölda tímarita og hefur hann haldið úti vinsælu bloggi og skrifað fjölmargar bækur. Hann stofnaði tímaritið Salvage í byrjun árs 2015 ásamt öðrum en tilgangurinn með því, að hans sögn, var að benda á og vera á móti ákveðnum smáborgarahætti í breskum stjórnmálum sem lýsir sér meðal annars í mótþróa gegn fræðimennsku og fagurfræði. 

Auglýsing

Richard Seymour Mynd: Bára Huld Beck


Á sínum yngri árum trúði Seymour því að hver einustu mótmæli myndu breyta heiminum en fljótlega komst hann að því að svo er ekki. Hann segir að við þessa uppgötvun hafi hann orðið mun bölsýnni en áður. „Sögulega séð er vinstrið veikt og það mun taka heila kynslóð að byggja það upp á ný,“ segir hann. Þó hafi atburðir síðustu missera breytt stöðunni, þ.e. gefið honum von um að mögulegt sé að endurbyggja hugsjónir vinstrimanna. Að hans mati eru nýir möguleikar í kortunum eftir síðustu kosningar í Bretlandi. 

Bjóst ekki við að Corbyn yrði svo stór

Jeremy Corbyn kom eins og stormsveipur inn í bresk stjórnmál og líkja margir velgengni hans við hreyfinguna í kringum Bernie Sanders í Bandaríkjunum. Hann fæddist í Chippenham árið 1949 og byrjaði ungur í stjórnmálum. Hann hefur lengi verið í Verkamannaflokknum en þrátt fyrir það hefur hann oft siglt á móti straumnum, til að mynda var hann á móti Íraksstríðinu og ögraði forystu flokksins við hin ýmsu tilefni. Hann var kjörinn formaður Verkamannaflokksins árið 2015 eftir að hafa verið á jaðrinum áratugum saman. 

Ég hélt samt ekki að hann yrði eins stór og raun bar vitni. Ég tali hann ekki hafa þokkann í það

Seymour segist alltaf hafa vitað af Corbyn enda ekki annað hægt verandi á vinstri væng stjórnmálanna í Bretlandi. Hann hafi þannig alltaf verið áberandi í umræðunni. „Ég hélt samt ekki að hann yrði eins stór og raun bar vitni. Ég tali hann ekki hafa þokkann í það,“ segir Seymour. Hann segir að fyrr á árum hafi Corbyn verið of íhaldsamur í Verkamannaflokknum fyrir hans smekk. „Ég hugsaði með mér að ef þú vilt hafa áhrif á samfélagið þá verður þú að vera utanaðkomandi, popúlisti eða eitthvað slíkt. En svo kom í ljós að hann er hálfgerður utangarðsmaður og hefur velgengni hans komið mörgum okkur á óvart. Þar á meðal honum sjálfum,“ segir hann. 

Eftirspurn eftir alvöru fólki í stjórnmálum

„Ég tel að Corbyn sé vinsæll meðal þeirra sem líkar við hann vegna þess að Bretar eru orðnir leiðir á karlegóinu á vinstri vængnum,“ segir Seymour. Þannig geti góðir ræðumenn komist til valda án þess að meina í raun það sem þeir segja. Hann segir að Corbyn sé ekki heillandi á þennan máta, þ.e. hann sé ekki fagurgali heldur í reynd andstæðan við það. Hann sé ekki að huga að eigin frama og sé sama um eigin ímynd. Það telur Seymour honum núna til happs og framdráttar. 

Ég tel að Corbyn sé vinsæll meðal þeirra sem líkar við hann vegna þess að Bretar eru orðnir leiðir á karlegóinu á vinstri vængnum

„Hann er í raun nörd, hann einbeitir sér stanslaust að pólitík. Ef þú lest um hann þá er honum lýst sem viðkunnalegum manni en hann eyðir öllum sínum tíma á pólitískum fundum og les mikið,“ segir hann og bætir við að stjórnmál séu líf hans. Hann sé algjörlega óspilltur og ekki sé til græðgi í honum en á móti sé hann örlítið litlaus. Þannig lítur Seymour á að eiginleikar sem voru óheppilegir áður fyrr séu það ekki lengur. Núna sé eftirspurn eftir alvöru fólki í stjórnmálum. 

Corbyn er einskonar leppur fyrir ýmsar vonir almennings, að mati Seymours. Hann segir að Corbyn njóti trausts í ljósi þess að hann er ekki með persónutöfra; hann sé málhaltur og komi stundum hlutunum illa frá sér. En á móti íhugi hann alltaf það sem hann segir og hann segi það sem hann meinar. Hann sé aldrei með fyrirframgefna frasa til að matreiða fyrir fólkið og það leggist vel í almenning. Seymour segir að Theresa May hafi gert þau mistök að vera með slagorð fyrir síðustu kosningar en ekkert innihald. Það hafi orðið henni að falli.

Jeremy Corbyn á sínum yngri árum.

Nýr veruleiki stjórnmálanna

Seymour segir að ástæður fyrir breyttu viðhorfi hjá almenningi gagnvart stjórnmálum séu meðal annars breyttur efnahagur fólks. Einnig telur hann að samfélagsmiðlar hafi haft sín áhrif. Fólk sé á netinu að lesa og skrifa og þrátt fyrir dökkar hliðar samfélagsmiðla þá hafi þeir þau áhrif að fleiri taka þátt í pólitískri umræðu. Henni sé ekki stjórnað lengur af fáum aðilum í gegnum hefðbundna miðla eða af stjórnmálamönnunum sjálfum. Nú sé hægt að nálgast upplýsingar eftir svo mörgum leiðum. 

„Ég man þegar ég var fyrst að byrja í stjórnmálum og fór á mótmæli og hugsaði með mér að tíu þúsund manns væri að mótmæla. Ég velti því einnig fyrir mér hvort mótmælin myndu komast í fréttirnar. Ef þau komust ekki í fréttirnar þá höfðu þau ekki þau áhrif sem þú vildir,“ segir hann. En núna skipti minna máli hvort helstu fréttaveitur fjalli um mótmæli, mikilvægara sé hversu margir deila þeim á samfélagsmiðlum. Þetta breytir forsendunum gríðarlega, að mati Seymours, og er frelsandi á marga vegu. 

Í fjölda mörg ár hefur fólk sleppt því að fara á kjörstaði og stjórnmálakerfið sjálft hefur orðið einangraðra, að sögn Seymours. Hann segir að sumir stjórnmálaflokkar hafi beinlínis treyst á ákveðna tegund af kjósendum til að styðja þá og orðið öruggir og værukærir í því ástandi. Hann segir að Corbyn hafi farið aðrar leiðir. Hann hafi t.d. unnið mikið grasrótarstarf og það henti honum mjög vel. Seymour telur að einungis róttækir vinstri menn hafi þennan eiginleika ennþá. Hinir hafi gefist upp á að ná til fólksins með sama hætti og áður en værukæran kom til skjalanna. 

„Alt-right“ ræðst á frjálslynd yfirsjálf

Seymour segir erfitt að skilgreina „alt-right“ eða „hitt hægrið“ sem einhverja heildstæða hugmyndafræði. Það lýsir sér meðal annars í svokölluðum tröllum á netinu þar sem samfélög hafa myndast í kringum skoðanir hægri öfgamanna. Þær séu fjandsamlegar minnihlutahópum, konum, samkynhneigðum og öðrum kynþáttum en hvítum. Hann bendir á að í kosningabaráttu Trumps hafi slíkar skoðanir blómstrað hjá þessum hópi sem kapítalíska kerfið hefur ýtt á jaðarinn. 

Oft er hægt að sjá menntað ungt fólk sem ætti að vera í millistéttinni en er það ekki. Það vinnur í skítastörfum; að hreinsa klósett eða bara hvað sem er eða er atvinnulaust

Hann segir að munurinn milli hægri og vinstri sé að „hitt hægrið“ er byggt á þeirri menningu að ráðast á frjálslyndu yfirsjálfin. Samkvæmt þeim er margt bannað og margt pólitískt rangt að gera eða haga sér á ákveðinn máta. „Hitt hægrið“ nærist á því að gagnrýna þessi viðhorf og þetta fólk vilji ekki endilega vera pólítískt rétthugsandi. 

Á hinum pólnum, eða það sem Seymour kallar Corbynista, leiti gremjan aftur á móti í að vera á móti valdi. Hann segir að orkan fari ekki í fjálslynd yfirsjálf heldur efnahagslegt vald. Ungt menntað fólk sem oft er atvinnulaust sé mikilvægasti hópurinn á vinsti vængnum og að þetta sé hópurinn sem muni hafa mikil áhrif í framtíðinni. „Oft er hægt að sjá menntað ungt fólk sem ætti að vera í millistéttinni en er það ekki. Það vinnur í skítastörfum; að hreinsa klósett eða bara hvað sem er eða er atvinnulaust,“ segir hann. Skilaboð Corbyns ná vel til þessa hóps, að mati Seymours. 

Jeremy Corbyn á Glastonbury. Mynd: EPA

Einangrun og fjarlægð frá valdi ein orsök gremju

Hann telur að hugmyndafræði Corbyns höfði alls ekki til hægri öfgamanna. Orkan þeirra fari í aðra hluti sem fela í sér ofbeldi eða vald yfir öðru fólki, eins og á konum, samkynhneigðum eða fólki af öðrum kynþætti. Eftir að hafa rýnt í tölur frá forsetakosningum í Bandaríkjunum þá segir Seymour að sjá megi að helstu kjósendur Trumps séu ekki endilega þeir fátækustu heldur þeir einangruðustu. Þannig sé þetta fólk menningarlega, efnahagslega og pólitískt útskúfað frá valdinu eða valdstýringunni. „Þau eru ekki endilega fátæk en þeim finnst eins og þau séu skilin útundan,“ bætir hann við. Vegna þessa grasseri ákveðin gremja sem kemur út með þessum hætti. Hann segir að fólkið vilji að einhver verndi hagsmuni þeirra eins og Trump hafi lofað þeim. 

Þau eru ekki endilega fátæk en þeim finnst eins og þau séu skilin útundan

Seymour segir að Theresa May hafi notað sömu aðferð fyrir kosningarnar í Bretlandi. Sama sé upp á teningnum þar varðandi fólkið sem kýs hægri flokkana. Kjósendur þeirra séu sambland af verkamönnum í lægri miðstétt og millistjórnendum. Þetta fólk hefur það ágætt og býr margt á afskekktum svæðum en í mörgum af þessum borgum og svæðum hefur sá iðnaður sem var ríkjandi farið dalandi, eins og kola- eða stálvinnsla. Þetta hefur haft miklar afleiðingar í för með sér. „Þessir staðir hafa verið skildir eftir til að deyja og þeir eru að ryðga,“ segir hann. Verkamannaflokkurinn hafi örlítið náð að tengja við þessa staði með því að koma með þá uppástungu að stofna banka sem myndu starfa á svæðunum og fjárfesta sérstaklega þar. Hugmyndin sé að störfum muni fjölga með auknu fjármagni. Seymour telur aftur á móti að sumir þessara öfgamanna á hægrivængnum muni aldrei kjósa vinstri flokka þar sem þeir séu of fjandsamlegir hugmyndafræðinni. Þeir séu of tengdir ákveðinni þjóðernishyggju og félagslegri stjórn. 

Corbyn mætti vera sókndjarfari

Þrátt fyrir að hann telji Jeremy Corbyn margt til tekna þá segir Seymour að hann sé ekki hafinn yfir gagnrýni. Í fyrsta lagi finnst honum Corbyn ekki vera nógu aðgangsharður í einstaka málum, sérstaklega fyrstu tvö árin í embætti formanns Verkamannaflokksins. Að hans mati ætti hann að vera sókndjarfari gagnvart öðrum flokkum. Corbyn hefur talað um stjórnmál góðmennskunnar [e. politics of kindness] og tekur Seymour undir með Corbyn að mörgu leyti. Þau snúast um að gefa öllum rými til að tjá sig og útloka engan í pólitískri umræðu. Honum finnst aftur á móti þetta ekki eiga alltaf við. Það séu alltaf ákveðin mörk sem verði að setja, því ákveðnir hópar muni nýta sér þessa góðmennsku og valta yfir andstæðinginn.

Við eigum að verja innflytjendur, frjálsar ferðir milli landa, opna landamærin eins og við getum og bjóða alla velkomna

Í öðru lagi telur Seymour að Corbyn hafi ekki verið með nægilega skýra stefnu eftir Brexit. Hann segir að hann hafi haft á réttu að standa að taka verði niðurstöðuna sem gefna en aftur á móti sé hann ósammála honum varðandi opin og lokuð landamæri í Bretlandi. Corbyn hafi verið undir ákveðinni pressu frá flokknum að taka afstöðu eftir Brexit og segir Seymour að hann hefði átt að standa með opnum landamærum, sem hann gerði ekki. Að loka landamærunum mun ekki leysa vandamálið, að mati Seymours. Innflytjendum muni ekki fækka heldur verði fleiri réttindalausir með enga tryggingu. Slíkt hefði í för með sér að laun munu lækka og þá sérstaklega verkafólks. Hann segir að þetta sé því slæmt fyrir alla, ekki bara innflytjendur. Þess vegna telur hann að Corbyn eigi að taka skýrari afstöðu í þessum málum. 

„Við eigum að verja innflytjendur, frjálsar ferðir milli landa, opna landamærin eins og við getum og bjóða alla velkomna,“ segir Seymour. Þessi mál hafi fært Bretland til hægri á síðustu árum og segir hann að lausnin liggi ekki í að loka landamærum eða útskúfa fólki. Innflytjendur hafi lagt mikið til breskrar menningar og skipti máli fyrir samfélagið og þess vegna ættu menn ekki að láta glepjast af áróðri. Hann segir að þrátt fyrir þessa afstöðu Corbyn þá telji hann að ef annar leiðtogi væri við stjórnvölinn í Verkamannaflokknum þá væri afstaða flokksins enn máttlausari en hún er í dag í innflytjendamálum. Hann er þó bjartsýnn að grasrótin beiti sér og skapi þrýsting á Corbyn til að taka skýrari afstöðu. 

Þörf fyrir tvö kjörtímabil

Richard Seymour. Mynd: Bára Huld BeckEn hvernig sér Seymour framtíð Corbyns og Verkamannaflokksins fyrir sér? Hann segir að ef hann hefði verið spurður út í þetta fyrir tveimur árum síðan þá hefði hann sagt að útlitið væri slæmt. Þegar hann hafi gefið bókina um Corbyn út hafi aðstæður verið allt aðrar en nú. Hann taldi á þessum tíma að líkurnar væru Corbyn ekki í hag, að hann væri hetja fyrir að reyna en að of margir þættir spiluðu inn í til að hann og hans hugsjónir myndu halda velli. Viðhorf Seymours hefur aftur á móti breyst síðustu tvö árin. Nú telur hann að von sé fyrir Corbyn og að líklega muni hann vinna næstu kosningar. 

Mikilvægt sé þó að Corbyn ynni stórt til að geta haldið sigrinum í allavega tvö kjörtímabil. Til þess að breyta Bretlandi þarf tíma og telur Seymour ekki sé nóg að vera við völd í fjögur ár. Meira þurfi til og sé þetta því ákveðin áskorun fyrir Corbyn. Ríkisstjórnin sé of veik með lítinn meirihluta í eitt kjörtímabil, sérstaklega á erfiðum tímum með Brexit hangandi yfir hausamótunum á þeim. 

Corbyn gæti einangrast

Seymour telur einnig að Verkamannaflokkurinn þurfi að vera vel undirbúinn ef hann ætli að gera róttækar breytingar og gera ráð fyrir margs konar breytum. Besta mögulega útkoman fyrir Corbyn, að mati Seymour, er að róttækar breytingar yrðu á bresku samfélagi til vinstri. Seymour segir að auðvitað sé hætta á að ef Verkamannaflokkurinn kæmist til valda þá yrði hann veikur og ekki ná í gegn þessum róttæku breytingum sem Corbyn boðar í átt að sósíalísku samfélagi. Þá yrðu stjórnmálamennirnir of hlutlausir eða óvirkir og tæku ekki mark á grasrótarhreyfingu flokksins. Þeir myndu treysta um of á leiðtogann og verða værukærir. Það væri ekki góð staða fyrir Corbyn að vera í. 

Í þriðja lagi telur Seymour mögulegt að Corbyn tapi næstu kosningum og þurfi að gefa keflið áfram til annarra leiðtoga. Þá þurfi flokkurinn að vera með einhvern álitlegan tilbúinn að taka við, einhvern sem væri ástríðufullur og kæmi ekki úr elítunni. En þrátt fyrir að framtíð Corbyns sé óráðin og sama hvernig fer fyrir Verkamannaflokknum á næstu misserum þá telur Seymour að hann hafi skapað rými fyrir vinstri hugsjónir í breskum stjórnmálum. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk