Sveinn R. Eyjólfsson hefur haft meiri áhrif á íslenskt fjölmiðlaumhverfi en flestir, ef ekki allir, Íslendingar. Hann er maðurinn sem stýrði Vísi, stofnaði Dagblaðið og sameinaði þau tvö svo saman í DV. Hann er maðurinn á bakvið stofnun Vísir.is, næst stærsta fréttavefs landsins. Og hann stofnaði Fréttablaðið, langmest lesna dagblað landsins síðasta einn og hálfan áratuginn. Þetta gerði Sveinn án þess að mikið bæri á honum persónulega.
Í nýútkominni æsku- og athafnasögu sinni, „Allt kann sá er bíða kann“ segir Sveinn enda að hann sé nánast mannafæla sem eigi í erfiðleikum með að mynda samband við fólk og líði ekki vel í margmenni.
Dómurinn birtist fyrst í nýjustu útgáfu Mannlífs.
Flugdólgurinn sem vildi stela beinagrind
Uppbygging sögunnar er sérstök. Fyrsti hluti hennar fjallar um uppvaxtarár Sveins, fjölskyldu hans, samferðarfólk og atvik sem mótuðu hann. Síðari hlutinn er síðan athafnasaga hans þar sem megin áherslan er á þátttöku hans í viðskiptalífinu og tengsl við fjölmiðlun. Sagan er því persónuleg framan af en verður síðan eins og önnur bók. Lýsing á ferðalagi um heima viðskipta og fjölmiðlunnar. Þetta er ekki endilega slæmt.
Ýmislegt er eftirminnilegt úr fyrri hluta sögunnar, af æskuárum Sveins. Þar ber til að mynda ástæðuna fyrir því að hann studdi ætið Gunnar Thoroddsen í öllu hans stjórnmálastarfi, hvert sem það leiddi hann. Hún er einföld, Gunnar, þá borgarstjóri, útvegaði móður hans félagslega íbúð. Þar eru líka skemmtilegar mannlýsingar á köflum. Til dæmis af Ómari Konráðssyni, sem var samnemandi Sveins í læknisfræði sem þeir flosnuðu síðar báðir upp úr. Í bókinni stendur: „Ómar varð frægur tannlæknir. Og seinna frægur fyrir að vera á náttslopp í flugvél og haga sér dólgslega.“ Þetta er einfalt, fyndið, hnífbeitt og tengir lesandann strax ljóslifandi við frægasta flugdólg Íslandssögunnar.
Sagan af Vísi og Dagblaðinu
Bitastæðustu frásagnirnar eru þó frá tíma Sveins sem blaðaútgefanda. Sá tími byrjaði þegar hann réð sig sem framkvæmdastjóra Dagblaðsins Vísis árið 1958 og lauk þegar hann missti frá sér Fréttablaðið sumarið 2002. Í millitíðinni kom Sveinn auk þess að fjölda annarra verkefna sem voru tilraunir til að brjóta upp fákeppni, einokun og ægivald Kolkrabbans á íslensku atvinnulífi, t.d. Hafskipum og Arnarflugi. Þá átti Sveinn líka jarðir víða og lýsir sér sem eins manns fasteignasölu sökum umsvifa á fasteignamarkaði.
Sveinn lýsir því vel hvernig stjórnmálamenn og annað áhrifafólk reyndi ítrekað að hafa áhrif á fjölmiðlarekstur eða að hreinlega bregða fæti fyrir þá sem í slíkum stóðu, og sýndu ekki blíðuhót gegn valdinu. Í bókinni rekur hann til að mynda hvernig Þorsteinn Pálsson var gerður að meðritstjóra Vísis á móti Jónasi Kristjánssyni til að skapa meira jafnvægi gagnvart samfélagsvaldinu, sem var auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn. Hann rekur hvernig hótanir bárust vegna leiðaraskrifa og hvernig Jónasi var á endanum bolað út frá Vísi vegna skrifa sinna og skoðana á mönnum og málefnum.
Það varð til þess að þeir tveir, Sveinn og Jónas, stofnuðu Dagblaðið og hófu beina samkeppni við Vísi, sinn gamla vinnustað. Þegar það gerðist var Sveinn boðaður á fund Geirs Hallgrímssonar, þá formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Þar bað Geir hann um að hætta við að stofna blaðið. Í bókinni er haft eftir Geir: „Ég stend ekki í orðaskaki við fólk, ef þú ferð ekki að tilmælum mínum hef ég ekkert meira um málið að segja[...]Eitt að lokum, Sveinn, gerðu ekkert sem getur skaða Sjálfstæðisflokkinn eða sjálfan þig.“
Að skera mann niður úr snöru
Það voru þó ekki bara áhrifamenn úr Sjálfstæðisflokknum sem voru að skipta sér að þar sem þeir áttu ekkert erindi. Sveinn rekur einnig frekar hjákátlega fjárkúgunartilraun sem hann varð fyrir af hendi formanns Alþýðuflokksins.
Það eru einnig sögur af fyrirgreiðslu. Til að mynda hjálpaði Albert Guðmundsson, þá áberandi stjórnmálamaður, Sveini eitt sinn þegar fjárhagsvandræði steðjuðu að og lét hann hafa eina milljón króna til að greiða laun. Sérstaklega var tekið fram að greiðinn yrði að vera á milli þeirra tveggja. Og Sveinn þagði yfir honum þar til hann skrifaði bókina.
Sveinn segir líka sögur af Davíð Oddssyni, einum fyrirferðamesta manni íslensks samtíma. Davíð hefur enda, á síðustu fjórum áratugum, náð að vera borgarstjóri, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og nú síðast ritstjóri Morgunblaðsins, þar sem hann situr enn og skrifar söguna um sjálfan sig eftir eigin höfði.
Davíð átti það til að boða Svein í morgunkaffi þegar hann var borgarstjóri og síðar forsætisráðherra. Munum að á þessum tíma, á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, var Sveinn einn umsvifamesti og áhrifamesti útgefandi fjölmiðils landsins. Í bókinni segir Sveinn: „Auðvitað sagði Davíð ýmislegt á þessum fundum en ég skildi ekki fyrr en seinna að hann var í raun og veru að senda mér skilaboð og leggja mér ákveðnar lífsreglur. Því miður lét ég undir höfuð leggjast að fara eftir þeim og það kom sér illa síðar meir.“
Önnur saga af Davíð, sem Sveinn hefur eftir fyrrverandi stjórnarmanni Árvakurs, er nánast komískt. Hún fjallar um það að Davíð vildi árum saman láta reka Styrmi Gunnarsson, þá ritstjóra Morgunblaðsins og æskuvin Sveins, úr starfi vegna skoðana hans á kvótakerfinu. Eftir síendurteknar kvartanir ákvað stjórn Árvakurs að kalla Styrmi á fund og segja honum upp. Í stuttu máli þá hringdi Davíð inn á fundinn, bað um að fá að tala við Styrmi, sem hann hafði ekki yrt á árum saman, og bauð honum að setjast í auðlindanefnd sem ríkisstjórnin hafði skipað. „Við þetta gerbreyttist viðhorf Styrmis til kvótakerfisins og síðan hefur hann étið úr lófa Davíðs. Þeir sem þekkja Davíð vel vita að þetta er sérgrein hans: Hann kemur manninum í gálgann en þegar á að fara að sparka undan honum stólnum þá sker hann manninn úr snörunni,“ segir Sveinn í bókinni.
Upphafið að endalokunum
Á áratugunum fyrir aldarmót náði Sveinn að byggja upp fjölmiðlaveldi á Íslandi. Útgáfufélagið sem hann átti stóran hlut í og stýrði, Frjáls fjölmiðlun, velti stórum fjárhæðum og þegar best lét störfuðu um 400 manns hjá því. Flaggskiptið var alltaf DV, sameinað blað Dagblaðsins og Vísis.
Árið 2001 seldi Sveinn ráðandi hlut í DV til hóps sem samanstóð af Ágúst Einarssyni, bróðursyni hans Einari Sigurðssyni (sem er sonur Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda m.a. Ísfélags Vestmannaeyja og Árvakurs) og Óla Birni Kárasyni, nú þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Óli Björn hafði áður ritstýrt Viðskiptablaðinu sem Frjáls fjölmiðlun hafði náð yfirráðum yfir. Í bókinni segir Sveinn að stærsta og brýnasta umbótaverkefnið sem ráðist var í eftir þá yfirtöku hafi verið að „skipta út ritstjóranum sem hafði starfað á blaðinu frá upphafi. Úr varð að gera hann að ritstjóra DV. Á ensku máli er þetta víst kallað „að sparka manni uppi stigann“ og var það heillaskref fyrir Viðskiptablaðið en til óheilla fyrir DV og okkur sjálfa.“
Í síðustu lestrarkönnuninni sem gerð var áður en að Sveinn seldi DV var meðallestur blaðsins yfir 40 prósent og lesturinn á helgarblaðinu yfir 50 prósent. „Þetta var staðan á blaðinu þegar við afhentum það nýjum eigendum. Blaðið hafði aldrei tapað peningum frá því að það var stofnað ef undan eru skilin misserin eftir að virðisaukaskatti var skellt á dagblöð. Auðvitað var ýmislegt framundan sem vitað var að hefði áhrif, stöðugur vöxtur netmiðla eins og Vísis og Fréttablaðið nýja en kaupendur DV vissu það líka og hrun blaðsins eftir að þeir tóku við verður tæplega skýrt með þessu[...]Það þarf ekki að hafa um þetta mörg orð. Þeir félagar tóku við blaðinu sem hafðiverið rekið með góðum árangri í tuttugu ár[..]Þeir ráku blaðið í rúmt ár, töpuðu hundrað milljónum á mánuði, fóru á hvínandi hausinn og vinir þeirra í Landsbankanum sátu uppi með líkið.“
Fréttablaðið fer
Sveinn hafði selt hluti í DV til að fjármagna nýjasta ævintýri sitt, fríblaðið Fréttablaðið. Fyrsta eintak þess kom út 23. apríl 2001. Á meðal þeirra sem komu að útlitshönnun blaðsins var Gunnar Smári Egilsson, sem Sveinn kallar galdramann á því sviði. Þótt viðskiptaáætlun Sveins, og Eyjólfs sonar hans sem starfaði með föður sínum á þessum tíma, hafi staðist að sögn Sveins þá rataði Fréttablaðið í fjárhagsleg vandræði. Því hafi verið leitað til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að kaupa blaðið. Upphaflega hafi staðið til að hann myndi greiða 400 milljónir króna fyrir það.
Frásögn Sveins af því sem gerðist í kjölfarið er nokkuð hörð gagnrýni á ýmsa einstaklinga, sérstaklega Gunnar Smára, sem hann segir að hafi skyndilega horfið úr vinnunni einn daginn, í miðjum samningsviðræðunum, og fengið „starfsfólkið til að hóta því að leggja niður störf ef við drifum ekki í að semja við traustan aðila sem þau sögðust vita að hefði áhuga á að taka yfir eignarhald og rekstur Fréttablaðsins.“ Síðar hafi verið upplýst að lögmaður Ragnar Tómasson, sem starfaði fyrir Jón Ásgeir, og Gunnar Smári hefðu gert með sér samkomulag. „Gunnar Smári sæi um að þvinga okkur til samninga en Ragnar sæi á móti um að Gunnar Smári yrði ráðinn yfirmaður blaðsins ef allt gengi eftir.“
Á endanum samþykktu feðgarnir að gefa eftir blaðið gegn því að gert yrði upp við blaðbera þess. Jón Ásgeir eignaðist því Fréttablaðið á 12-14 milljónir króna. Það er í dag í eigu eiginkonu hans. Eftir þessi viðskipti tók við margra ára uppgjör Sveins við kröfuhafa sem honum tókst þó að koma út úr standandi og án þess að verða tekinn til gjaldþrotaskipta.
Hræðsluástandið sem ríkti, og ríkir enn
Samandregið er saga Sveins mjög áhugaverð. Bókin er um margt merkileg heimild um mikilvægan þátt í íslenskri fjölmiðlasögu en ekki síður um heim sem var, og er að mörgu leyti til ennþá, þar sem eldveggirnir sem ættu að vera á milli stjórnmála, viðskipta og fjölmiðla eru lágir eða hreinlega tálsýn. Þá eru sögur af fyrirferðamiklu fólki af öllum þessum sviðum bæði stórskemmtilegar og mjög dapurlegar.
Sveinn lýsir þessu ástandi ágætlega í lok bókarinnar þar sem hann segir að undanfarna áratugi hafi hér „ríkt ákveðið hræðsluástand, einhvers konar pólitískur fasismi. Menn hafa ekki þorað að tjá hug sinn af ótta við blóðhundunum yrði sigað á þá, eins og dæmin sanna. Ég neita að taka þátt í þess háttar þöggun.“