Bókin Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi kom út á vegum Almenna bókafélagsins, BF – útgáfu og GAMMA Capital Management ehf. árið 2017. Bókin er skrifuð af sænskum sagnfræðingi, Johan Norberg, kom upprunalega út árið 2016 á ensku og er þýdd yfir á íslensku af Elínu Guðmundsdóttur.
Bókin er mjög aðgengileg. Efni hennar er sett fram með skýrum og auðlesanlegum hætti. Þessar tíu ástæður til þess að taka framtíðinni fagnandi fá hver sinn kafla þar sem framfarir á viðkomandi sviði eru raktar en þær eru; 1) fæða, 2) heilsa, 3) lífslíkur, 4) fátækt, 5) ofbeldi, 6) umhverfið, 7) læsi, 8) frelsi, 9) jafnrétti og 10) næsta kynslóð. Hver kafli telur um 20 bls., sem er þægilegur blaðsíðufjöldi aflestrar og telur bókin í heild 242 bls. með heimildatilvísunum.
Það er mikilvægt að halda á lofti þeim undraverðu framförum sem orðið hafa á sviði tækni, mannkyninu til heilla og Norberg ferst almennt vel úr hendi að tína til margvísleg dæmi til þess að gefa yfirlit yfir þróunina í hverjum viðfangskafla, til að mynda um mikilvægi Haber-Bosh ferlisins til áburðarframleiðslu, Hina grænu byltingu dr. Normans Borlaugs og bólusetningarlyf Maurice Hillemans.
Brengluð sýn á samtímann
Í blábyrjun bókarinnar telur Norberg upp margvísleg dæmi um bölsýni í samtímanum, og vitnar ýmsar heimildir því til stuðnings. Árið 1955 töldu 13% Svía aðstæður sínar óbærilegar, hálfri öld seinna var meira en helmingur Svía þessarar skoðunar. Einn helsti punktur bókarinnar, að það sé í eðli fjölmiðla leggja ofuráherslu á einstaka neikvæða hluti, sem brengli skynjun okkar á ástandi heimsins. “Slík skynjun elur á óttanum og fortíðarhyggjunni sem Donald Trump beitti í kosningabaráttu sinni fyrir nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum.” (Bls. 11)
Norberg bendir á að meðal almennings virðast vera við lýði ansi þrálátir neikvæðir fordómar um stöðu heimsins og þá sérstaklega virðist fólk í þróuðum löndum telja stöðuna í svokölluðum þróunarlöndum verri en hún í raun og veru er. Árið 2005 vann Norberg könnun fyrir hönd frjálshyggjuhugveituna Timbro sem sýndi að Svíar töldu stöðu fátæktar í heiminum og loftgæði í Svíþjóð mun verri en þau voru (enda þótt úrtakið hafi aðeins verið 1000 manns). "Þeir sem hlotið höfðu æðri menntun vissu enn minna um árangurinn sem náðst hafði í baráttunni við hungur og fátækt sem varð til þess að ég velti fyrir mér hversu gamlar og úreltar kennslubækurnar sem þeir lásu væru." (bls. 210). Þetta er áhugaverður punktur sem Norberg bendir á og samlandi hans, Hans Rosling hefur einnig sýnt fram á.
Það er umhverfið, auli!
Það er auðvelt að finna alvarleg aðsteðjandi umhverfismál. Hér eru tvö nýleg dæmi. Alvarlegur þurrkur í Cape Town, höfuðborg Suður-Afríku, hefur leitt til skömmtunar og því er spáð að vatnsbólin tæmist 18. apríl næstkomandi. Sífellt er að koma betur og betur í ljós hversu alvarlegt vandamál plastmengun er, vísindamenn eru í raun rétt að byrja að skilja umfang vandans.
Framfarir á níu af þessum tíu sviðum sem bókin fjallar um eru tiltölulega óumdeildar og auðvelt að finna heimildir því til stuðnings. Í miðri bókinni, í kaflanum Umhverfið, bregst Norberg hins vegar alvarlega bogalistin. Hann er augljóslega ekki sérlega fróður um umhverfismál og reiðir sig of mikið á bók bandaríska umhverfisvárskeptíkersins Ronald Baileys, The End of Doom: Environmental Renewal in the Twenty-first Century.
Þá eyðir Norberg töluverðu púðri í að gagnrýna í Rómarklúbbinn, einn fyrsta hóp umhverfisverndarsinna sem árið 1972 hlaut mikla athygli fyrir spár sínar um að auðlindir jarðar myndu hreinlega klárast innan skamms. Vandinn er að þó svo að stórgallaðar spár Rómarklúbbsins hafi ekki ræst þá segir það okkur ekkert um framfarir á sviði umhverfismála né stöðu umhverfismála í dag.
Hér á eftir ætla ég að rýna betur í sumar fullyrðingar Norbergs um stöðu umhverfismála í heiminum í dag og rökstyðja álit mitt á trúverðugleika þeirra. Ég hef þann háttinn á að vitna í málsgreinina í heild - svo lesandinn sjái heildarsamhengi tilvitnunarinnar, feitletra tiltekin atriði sem mér finnast aðfinnsluverð og fylgja þeim eftir með umfjöllun.
Gagnrýnisraddir hundsaðar
Einn helsti galli bókarinnar er að höfundurinn greinir lítt eða ekki sjónarmið þeirra sem líta framtíðina gagnrýnni augum. Á blaðsíðu 12 nefnir Norberg tvo rithöfunda sem hafa verið áberandi í umræðu um ástand heimsins og hvert við stefnum. Annars vegar vitnar hann í orð aðgerðasinnans Naomi Klein um að “siðmenningin stefni í óefni og að við séum að grafa undan lífsskilyrðum okkar á jörðinni”. Klein er þekkt fyrir að gagnrýna alþjóðlegan kapítalisma og neysluhyggju í bókum sínum No Logo og The Shock Doctrine sem áhugavert væri að heyra viðbrögð Norbergs við. Norberg velur hins vegar með klaufalegum hætti að vitna í viðtal við hana vegna nýjustu bókar hennar um um hlýnun jarðar, This Changes Everything. Erfitt er að skilja hvað nákvæmlega Norberg finnur að orðum Kleins sem hann vitnar í því Norberg segir sjálfur að hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga séu "alþjóðlegar hörmungar".
Hins vegar vitnar hann í blaðagrein frá árinu 2002 eftir breska heimspekinginn, John Gray, þar sem mannskepnan er sögð “homo rapiens tegund sem rænir, tortímir og siglir hraðbyri að endalokum siðmenningar.” Líkt og Klein, hefur Gray skrifað gagnrýnt um alþjóðlegan kapítalisma, bók hans False Dawn: The Delusions of Global Capitalism kom út 1998 og var endurútgefin eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Áhugavert hefði verið að heyra viðbrögð Norbergs við gagnrýni Grays í þeirri bók en aftur velur Norberg klaufalega tilvísun til þess að vitna í án samhengis því áðurnefnd grein Johns Grays fjallar einmitt um líffræðilegan fjölbreytileika og tíðni tegundadauða. Er það undarlegt að tala um mannskepnuna sem "homo rapiens" í því samhengi að tegundir deyji út 100 falt tíðar af völdum hennar?
Norberg útskýrir ekki tilvitnanir sínar í skrif þeirra heldur virðist ganga út frá því að orðin ein og sér beri með sér hvers vegna ekki þurfi að taka mark á þeim. Þetta sé neikvætt tal - verið er að tala mannkynið niður. Það er synd því að bæði Klein og Gray hafa ýmislegt fram að færa, Gray kannski ekki síst hvað varðar heimspeki framfara hjá mannkyninu en hann gerir skýran greinarmun á tæknilegum framförum annars vegar og félagslegum hins vegar. En þetta reddast, segir Norberg, í niðurlagi kafla hans um umhverfið sýnir hann jákvæðni gagnvart framtíðinni sem jaðrar við óskhyggju: "Frumvandinn við hlýnun jarðar – hungur okkar í orku – er í reynd líka lausnin." (bls 133)
Úrvinnslu aðeins ábótavant
Það má setja lítillega út á einstaka stafsetningavillur og sömuleiðis uppsetningu heimildaskrár. Ef flett er upp á heimild byggt á fótnótunúmeri þá er í sumum tilfellum vísað í endurteknar heimildir með seinna nafni höfundar og ártali. Heimildir eru hins vegar skráðar eftir hinu íslenska kerfi þannig að fyrra nafnið kemur á undan og þarf þá að lesa áfram til þess að finna eftirnafnið. Þetta getur verið þreytandi, sér í lagi ef fleiri en ein heimild er í undir sömu fótnótu.
Heilt yfir nýtir Norberg ágætt safn heimilda. Þrjár bækur er vísað í öðrum fremur, sem Norberg viðurkennir tekur sjálfur fram í bókinni.
- The Great Escape: Health, Wealth, and the Origins of Inequality (2015) eftir Angus Deaton
- The Better Angels of Our Nature: A History of Violence and Humanity (2012) eftir Steven Pinker
- The End of Doom: Environmental Renewal in the Twenty-first Century (2015) eftir Ronald Bailey
Einstaka óvandvirkni kemur fram í umfjöllun Norbergs. Sem dæmi má nefna að í kaflanum um hreinlæti (bls 40) segir Norberg frá skrautlegu en í raun sorglegu slysi (nefnt Erfurter Latrinensturz á þýsku) sem gerðist “árið 1183 [þegar] Friðrik II, keisari Hins heilaga rómverska ríkis, [hélt] mikla veislu þegar hirð hans dvaldist í kastala í Erfurt í Þýskalandi. Þegar borðhaldið stóð sem hægt tók gólfið að gefa sig og fjölmargir virðulegir gestur duttu niður í safnþróna. Margir drukknuðu í óþverranum.” Hið rétta er í fyrsta lagi að þetta gerðist árið 1184 og í öðru lagi að tilefnið mun ekki hafa verið veisla sem Friðrik II. hélt (hann fæddist ekki fyrr en 1194) heldur sáttafundur sem Heinrich VI. hélt til þess að sætta deilur um land á milli Lúðvíks III og Erkibiskupsins Konráðs I. Þessi ónákvæmni er auðvitað ekkert aðalatriði en sýnir óvandvirkni líkt og fleiri atriði úr bók hans.