Blaðamennskubækur eru samfélagslega mikilvægar. Séu þær vel gerðar, og umfjöllunarefni þeirra þannig að það eigi mikið erindi við almenning, þá ná þær að segja heildræna sögu mála sem hafa verið mikið í umræðunni yfir lengra tímabil.
Stundum verða mál einfaldlega það stór að það nægir ekki að segja frá brotakenndum atburðum þeirra í hefðbundnu fjölmiðlaformi. Það þarf að púsla sögunni saman.
Eitt slíkt mál er vöxtur og brotlending flugfélagsins WOW air.
Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, tók sér það verkefni fyrir hendur og Vaka- Helgafell gaf út bók hans, WOW – Ris og fall flugfélags, fyrir skemmstu. Í bókinni er viðskiptasaga Skúla Mogensen, mannsins sem stofnaði og stýrði WOW air upp fjallið og fram af bjargbrúninni, rakin frá því að hann skipulagði partí í Tunglinu og á Borginni með Björgólfi Thor Björgólfssyni sem kornungur maður.
Þar er farið yfir feril Skúla sem sölumanns körfuboltamynda og hæðir og lægðir OZ-ævintýrisins sem gerði hann á endanum, eftir mikla þrautseigju, að milljarðamæringi þegar Nokia keypti fyrirtækið 30. september 2008, viku fyrir neyðarlagasetningu á Íslandi.
Hrunið á Íslandi, og meðfylgjandi gengisfall íslensku krónunnar um tugi prósenta, gerði auð Skúla í íslenskum krónum enn umfangsmeiri og hann valdi að nýta sér þá stöðu. Fyrst leiddi hann hóp sem keypti MP banka og síðar stofnaði hann, þvert á flestar ráðleggingar, lágfargjaldaflugfélagið WOW air seint á árinu 2011, sem fór með himinskautum árin eftir, en háði svo afar æsilegt og dramatískt dauðastríð fyrir framan alþjóð frá sumrinu 2018 og fram til 28. mars 2019, þegar félagið fór í þrot.
Dýpkar meginatriði
Stefán Einar hefur mikla þekkingu á efninu eftir að hafa skrifað mikið um WOW air á undanförnum árum og á auðvelt með að raða upp sögunni þannig að hún fljóti vel og lesendur sem hafa ekki sett sig djúpt inn í viðskiptaævintýri Skúla Mogensen eða rússíbanareið WOW air ættu að geta áttað sig vel á atburðarásinni við lestur bókarinnar.
Fyrir þá sem hafa fylgst vel með baráttu WOW air síðustu tvö árin er kannski ekki margt nýtt fyrir stóru myndina sem fram kemur í bókinni en Stefáni Einari hefur þó tekist ágætlega að dýpka umfjöllun um mörg meginatriði, meðal annars með viðtölum við þá sem voru þar leikendur. Það sem helst stendur upp úr nýjum upplýsingum snertir hið fræga skuldabréfaútboð sem WOW air lokaði í september 2018. Höfundur birtir í bókinni áður óséðar upplýsingar um hverjir tóku þátt í því útboði og sýnir fram á að stór hluti þeirra voru kröfuhafar WOW air sem voru að breyta skammtímakröfum í langtímakröfur. Þ.e. aðilar sem voru í viðskiptum við WOW air sem flugfélagið hafði ekki getað greitt fyrir.
Þessir aðilar tóku ekki neina áhættu í skuldabréfaútboðinu. Þeir keyptu skuldabréf, greiddu fyrir þau og fjármunirnir sem þeir greiddu voru notaðir til að gera upp aðrar skuldir við sömu aðila. Þeir fjárfestar sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu, og lögðu til raunverulegt nýtt fjármagn, vissu margir hverjir ekki af þessu.
Stefán Einar greinir líka ágætlega orsök, ástæður og afleiðingar þess að svo fór sem fór hjá WOW air. Í flugfélaginu var allt of lítið eigið fé til að takast á við þann vöxt sem það rèðist í og til að takast á við óumflýjanlegar sveiflur í flugheimum, einum áhættusamasta rekstri sem fyrirfinnst. Hann fer vel yfir það þegar Kortaþjónustan fór í raun á hausinn haustið 2017 og hvernig fyrirgreiðslustarfsemi fyrirtækisins við WOW air, sem í fólst að mun stærri hluti af fyrirframgreiddum flugfargjöldum streymdu beint inn í kistur flugfélagsins, hætti og lausafjárstaðan varð þannig að hún bar ekki lengur umfang starfseminnar.
Stefán Einar fer einnig vel yfir það hvernig hlutafjáraukningar Skúla, sem greiddar voru með skuldajöfnun við hann sjálfan, fólu ekki í sér neina nýja innspýtingu á fé, heldur breytingu á bókuðum þóknanatekjum vegna ábyrgðar í nýtt hlutafé.
WOW air tók einfaldlega of mikla áhættu og var allt of seint að bregðast við þegar ljóst var að í óefni stefndi. Það var aldrei raunhæft að bjarga félaginu eins og það var orðið. Að þeirri niðurstöðu komust Icelandair, Indigo Partners, íslenska ríkið og allir hinir fjárfestarnir sem leitað var til á síðustu metrunum. Líkt og segir í bókinni þá var einfaldlega ekki forsvaranlegt að henda góðum peningum á eftir slæmum.
Landsnámshani og kampavínsflöskur
Samtímasögur af raunverulegum atburðum þurfa söguhetjur alveg eins og skáldsögur. Óumflýjanlega er Skúli Mogensen í algjöru aðalhlutverki í bók Stefáns Einars. Þar er að finna nokkrar áhugaverðar frásagnir af honum, sem sumar hafa lengi verið á margra vitorði en ekki ratað í opinberan texta. Þar ber til að mynda að nefna söguna af landnámshananum sem vinur Skúla gaf honum í fimmtugsafmælisgjöf í fyrra en var svo myrtur af Huskey-hundi eins veislugestsins. Önnur slík er af því þegar Skúli sendi nokkrum af æðstu stjórnendum Icelandair hanastélið Key Royal – þannig blandað að það var fagurfjólublátt – á Snaps skömmu eftir að tilkynnt hafði verið um mikinn vöxt WOW air árið 2017. Sú þriðja lýsingar af því hvers konar kampavínsflaska sé kölluð tvöfaldur Jeróbóam og hvað einkennir flösku sem kallast Rehóbóam.
Stefán Einar lýsir Skúla líka ágætlega, með hæfilegri blöndu af virðingu fyrir kostum hans og gagnrýni á augljósa bresti. Í frásögninni er Skúli ævintýramaður sem neitar að spila eftir takmörkunum sem aðrir telja rökréttar. Honum finnst Íslendingar að mörgu leyti heimóttalegir vegna þess að þeir þori ekki að stefna nægilega hátt. Skúli hefur enda ítrekað sagt það í viðtölum að honum hafi ekki nægt að verða „Íslandsmeistari“ í fluggeiranum, heldur vildi hann verða „heimsmeistari“. Sama hvernig áraði var Skúli alltaf bjartsýnn. Það er líkast til erfitt að finna nokkurn mann sem heldur á jafn hálffullu glasi og hann. Hann hefur lítinn tíma fyrir þá sem deila ekki með honum bjartsýninni. Þeir eru neikvæðir. Ekki nægilega léttir. Hælbítar sem þora ekki að láta sig dreyma.
Það er hins vegar munur á því að láta sig dreyma og því að lifa í draumaheimi.
Í bók Stefáns Einars segir á blaðsíðu 335: „En þegar horft er til baka, allt til áranna á Borginni og í Tunglinu, OZ, aðkomunnar að MP Banka og svo WOW air, þá stendur einn þáttur í fari Skúla upp úr og yfirskyggir í raun alla aðra. Það eru hinir óumdeildu og líklega veigamestu hæfileikar Skúla. Hann er sölumaður af Guðs náð og á betra en flestir með að hrífa fólk með sér og sannfæra um að sú leið, eða sýn sem hann boðar, sé hin rétta.“
Minnir á Theresu May
Það velkist enginn í vafa um það að Skúli Mogensen er ekki maður sem gefst auðveldlega upp. Þrátt fyrir að ansi margir sem höfðu kíkt undir húddið í rekstri WOW air síðsumars í fyrra hefðu komist að þeirri niðurstöðu strax þá að félagið ætti ekki möguleika á að lifa af, úr því sem komið væri, þá barðist hann eins og ljón fram á síðasta dag.
Vonandi gengur Skúla Mogensen líka vel í næsta verkefni, sem er nær örugglega ekki langt undan. Hann virðist strax vera búinn að endurheimta kraftinn til að gera, og kvartaði nýverið undir því að vera farið að leiðast aðgerðarleysið, tveimur mánuðum eftir gjaldþrot WOW air.
En vonandi lærir hann líka af reynslunni. Skúli gerði nefnilega stór mistök sem höfðu miklar afleiðingar fyrir fjölmarga aðra en hann sjálfan.
Þótt Skúli sé afar áhugaverður þá hefði það gætt söguna meira lífi ef fleiri persónur hefðu fengið meira pláss. Hún fer á flug þegar karakterar eins og Steve Udvar-Házy, stofnandi og eigandi Air Lease Corporation, kemur inn á sögusviðið. Lýsingarnar á honum eru afar skemmtilegar og eftirminnilegar.
Framhaldssagan ósögð
Það er afar vel gert að hafa skrifað þessa sögu á jafn skömmum tíma og Stefán Einar gerði og svo skömmu eftir að WOW air féll. Eina neikvæða við það er að enn eiga ýmis kurl eftir að koma til grafar. Þannig var til að mynda greint frá því á föstudag að ráðist verður í stjórnsýsluúttekt á aðkomu Isavia og Samgöngustofu að málefnum WOW air og að niðurstaðan sé væntanleg í haust.
Samandregið þá er „WOW – Ris og fall flugfélags“ prýðileg blaðamennskubók. Hún flæðir vel, það er lítið um endurtekningar, hún tengir saman upplýsingar á skiljanlegan hátt og greinir ferlið sem leiddi til gjaldþrots fjólubláa flugfélagsins með rökstuddum hætti. Vonandi erum við að horfa fram á að íslenskrar blaðamannabækur verði næsta æði í bókageiranum – að framundan sé nýtt vorafbrigði í þeim geira – og útgefendur hérlendis horfi í auknum mæli til að gefa þannig bækur út. Slíkt yrði gott fyrir íslenska fjölmiðlun og íslenskt samfélag. Það þarf nefnilega að skrá söguna með þessum hætti. Og Stefán Einar gerir það vel í bókinni.