Fullnægingar karla hafa sennilega aldrei verið ráðgáta þróunarfræðinga. Bæði vegna þess að upphaflega voru þróunarfræðingar eingöngu karlar en líka vegna þess að tilgangur sáðláts er augljós þegar kemur að því að búa til nýjan einstakling.
Fullnægingar kvenna hafa hins vegar löngum verið ráðgáta, þ.e.a.s. tilgangur þeirra þar sem þær virðast ekki nauðsynlegar til að viðhalda stofninum. En nýjustu rannsóknir benda þó til annars.
Rannsóknarhópur við University of Cincinnati hefur unnið að rannsóknum á kynhegðun kanína í þeim tilgangi að skilgreina hvers vegna konur fá fullnægingar.
Rannsóknarhópurinn gengur út frá þeirri tilgátu að þar sem lífeðlisfræðin á bak við fullnægingu er mjög flókin, þá er mjög ólíklegt að hún hafi þróast fyrir tilviljun. Líklegast er að einhverjir þróunarfræðilegir kraftar togi í þá eiginleika sem gefa konum hæfnina til að fá fullnægingu.
Margir hafa haldið því fram að tilgangurinn sé einfaldlega að stuðla að því að konur stundi kynlíf, þar sem afleiðingar þess geta ekki bara verið sársaukafullar heldur einnig lífshættulegar (hér er vitnað í barnsfæðingar).
Hjá mörgum öðrum dýrategundum hefur kynferðisleg örvun kvendýranna þann tilgang að koma af stað egglosi. Rannsóknarhópurinn í University of Cincinnati gekk því út frá því að svipaðan tilgang væri að finna meðal mannfólks.
Í rannsókn sem birtist í vísindaritinu PNAS, er hópurinn að prófa hvaða áhrif það hefur á kvendýrin að þegar efnið fluoxetine er til staðar. Fluoxetine minnkar líkur á fullnægingu hjá konum og því vildi hópurinn skoða hvort efnið hefði þau áhrif á kanínur að egglos ætti sér ekki stað.
Þegar kanínunum var gefið fluoxitine daglega í tvær vikur fækkaði egglosum um 30%. Það gefur til kynna að ferlarnir sem fluoxitine hafa áhrif á, stjórni ekki bara fullnægingu kvenna heldur einnig getu kvenkyns kanína til að fjölga sér.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fullnæging kvenna sé arfleið frá samskonar kerfi og fyrirfinnast í kanínum. Þar er kynferðisleg örvun nauðsynleg til að egglos fari af stað. Þar af leiðandi er hún mikilvæg til þess að viðhalda tegundinni.
Eins og áður kom fram er frekar ólíklegt að jafn flókið ferli og fullnæging þróist ef enginn tilgangur er með því fyrir tegundina. Frekari rannsóknir munu þó væntanlega leiða í ljós hvort meiri þróunarfræðilegur ávinningur séu af þessum ferlum eða hvort fullnægingar kvenna séu í dag bara skemmtileg viðbót við lífeðlisfræðina okkar mannanna.
Umfjöllunin birtist líka á Hvatinn.is