Besta platan með The Beatles – Revolver

Gefin út af Parlophone þann 5. ágúst 1966, 14 lög á 35 mínútum og 1 sekúndu.

bibbinnnnnnn12.JPG
Auglýsing

Hugmyndin um bestu plötuna hverju sinni byggist eingöngu á skoðun minni og þekkingu. Skoðunin er oftast mjög sterk en þekkingin getur verið allavega. Þannig hika ég ekki við að tilnefna bestu plötuna og þá skiptir engu hvort ég þekki allar útgáfur viðkomandi mjög vel eða bara þessa einu – já eða eitthvað þar á milli.

Ég er þess vegna alltaf til í rökræður og uppfræðslu frá lesendum sem annað hvort vita betur eða telja sig vita betur. Aðalmálið er að hlusta á og ræða hljómplötur sem heild, bestu plötuna í hvert skipti.

Hljómsveitin The Beatles var stofnuð árið 1960 í Liverpool á Englandi og hætti störfum árið 1970. The Beatles gaf út 13 breiðskífur á ferlinum:

Auglýsing

Please Please Me (1963)

With the Beatles (1963)

A Hard Day's Night (1964)

Beatles for Sale (1964)

Help! (1965)

Rubber Soul (1965)

Revolver (1966)

Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band (1967)

Magical Mystery Tour (1967)

The Beatles (The White Album) (1968)

Yellow Submarine (1969)

Abbey Road (1969)

Let It Be (1970)

Revolver var sjöunda stóra plata Bítlana á þremur árum og þá áttu þeir eftir að gefa út sex til viðbótar á þeim fjórum árum sem bandið tórði. Tíu ára ferill, 13 breiðskífur á sjö árum (sem reyndar má toga upp í 23 ef tilteknar eru allar furðuútgáfur af þessum þrettán fyrir aðra heimshluta og þá aðallega Bandaríkin) frægð, frami og áhrif sem ekkert tónlistarfólk hefur komist í námunda við fyrr, síðar eða mun gera eftirleiðis. Nákvæmlega þarna má skipta ferlinum í tvennt, fyrir og eftir Revolver því eftir útgáfu plötunnar tók við síðasta tónleikaferð þeirra og eftirleiðis unnu þeir aðeins í hljóðverinu.

Það er auðvelt að hlusta á The Beatles

Ég man ekki hvenær ég heyrði Revolver fyrst. Og sennilega veit ég það bara ekki. Þessar plötur voru ekki til á heimilinu og ég varð ekkert sérstaklega mikið var við þær sem slíkar. En eins og hvert annað mannsbarn heyrði ég auðvitað Bítlalög í löngum bunum. Ég var hinsvegar kominn yfir tvítugt þegar ég tók fyrstu skipulegu yfirferðina á ferlinum. Þá setti ég Please Please Me á fóninn, síðan With the Beatles og svo koll af kolli þangað til ég hafði klárað Let It Be. Til ykkar sem ekki hafa prófað að hlusta svona krónólógískt á Bítlana vil ég nefna sérstaklega hversu auðvelt það er. Plöturnar eru langflestar undir 35 mínútum að lengd og engin nema Hvíta albúmið sem ruggar þeim báti alvarlega, tvöföld og meira en einn og hálfur tími. En það tekur bara um það bil 10 tíma að hlusta á allar 13 plöturnar að viðbættum tímanum sem tekur að skipta um skífur á fóninum og snúa þeim við. Og það er gaman. Þetta er allt svo auðvelt. Og það er mjög skýr bogi á ferlinum.

Rauða platan og Bláa platan

Við eigum þær öll. Og við eigum öll að eiga þær. Þær eru frábærlega heppnaðar og með betri safnplötum allra tíma.


En ég held að það sé vinsældum þeirra að kenna hversu mörg okkar þekkja ekki einstakar plötur Bítlanna. Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum ekki öll vita meira en við vitum. Það var það sem fékk mig til að rúlla í gegnum þær í réttri röð og þær negldu mig svo gersamlega að ég man hvar ég var þegar ég var að hlusta á hverja og eina þeirra í dag. Jæja, kannski ekki alveg. En alltaf þegar ég hlusta á Rubber Soul man ég eftir sól úti á svölum. Help! er tengd við tré og ég er nokkuð við um að ég hafi verið á rölti með Discman þegar ég hlustaði á hana. Abbey Road, herbergið mitt og ég löðrandi á fingrunum að borða eitthvað. Já ok, þetta eru nú greinilega ekki heilar minningar en ég fæ þessar sömu myndir upp í hugann í hvert skipti. Og vegna þess að ég hlustaði svona harkalega í röð þá hef ég líka alltaf mjög sterka tilfinningu fyrir upphafinu, miðju og endi.

Þetta byrjar allt af gríðarlegum frumkrafti og Please Please Me er eiginlega hálfgert brjálæði. Hún er tekin upp á innan við 13 klukkutímum og eðlisávísun látin ráða för frekar en eitthvað annað. Þar eru mörg tökulög og allt eins hrátt og hægt er að hugsa sér, gredda, viljinn til að sigra heiminn, óáskyggjanleg gleði og áhyggjuleysi fjögurra manna sem héldu hópinn eins og hersveit. Á hinum enda ferilsins er Let It Be og hún er allt það sem Please Please Me er ekki. Jú, hún er auðvitað frábær, því allar Bítlaplöturnar eru það. 

En hún er þaulhugsuð og kannski of. Hún er búin til af mönnum sem höfðu ekkert að sanna, voru ekki lengur þessi sameinaða heild, áttu allt of mikla peninga og allan tíma heimsins, voru með hausinn á kafi í útsetningum og nýjustu hljóðupptökutækni og stundum fær maður á tilfinninguna að þeir hafi verið að drepa tímann eða að fylla upp í eitthvert hlutverk sem þeim hafði verið skaffað. Höfum í huga að við erum að tala um 13 plötur sem allar eru ótrúleg verk og innan þess skala verðum við að dæma þær. Þannig eru sumar síðri en aðrar og fyrir mér eru það þessar endaplötur sem eru verstar. Hápunktur ferils Bítlanna er um miðbikið þegar allt þetta ofangreinda fer saman í réttu hlutfalli. Rubber Soul, Revolver og Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band. Þetta eru bestu verkin þeirra. Rubber Soul er á rétt að verða komin á tindinn, Sgt. Pepper’s er komin nokkur skref niður hinum megin. Og Revolver er þarna á milli, fullkomið jafnvægi af frumkrafti, sköpun, kunnáttu, forvitni, sjálfsöryggi, monti, samheldni og sannfæringu.

Lögin sem aldrei hljómuðu á tónleikum

Bítlarnir spiluðu aldrei eitt einasta lag af Revolver á tónleikum. Þau voru einfaldlega of flókin eða víðfem og ekki útsett fyrir fjögurra manna hljómsveit. Þar að auki nutu þeir þessara mánaða á túrnum alls ekki vegna þess að hljóðkerfi og magnarar þess tíma voru ekki tæki sem réðu við að koma hljóði til svona margra einstaklinga í einu. Bítlarnir voru orðnir fyrsta leikvangaband veraldar og ómögulegt að fólk fengi að heyra þá og sjá þannig að sómasamlegt væri. Þeir voru orðnir svo stórir að þeir heyrðu hreinlega ekki í sjálfum sér. Og aðrir heyrðu enn minna.


Eftir þetta spiluðu þeir bara saman í hljóðverinu. En þeir urðu líka meistarar hljóðversins og fundu upp stóran hluta af þeirri tækni sem búið er að þróa til muna og notuð er enn í dag. Ef ekki væru Bítlarnir hefðu seinnitímarisar tónlistarsögunnar ekki hljómað eins og þær gerðu. Queen er þar gott dæmi og nærtækast að tala um söngupptökurnar og sándið sem einkennir margt sem Freddie setti inn á teip. Bítlarnir höfðu lengi barist við að tvöfalda sönginn við upptökur, sem sagt taka upp nákvæmlega eins söng ofan í þann sem fyrir var. 

Þetta var bæði tímafrekt og erfitt því til þess að slíkt hljómi vel þarf framkvæmdin að vera afar nákvæm, en þá er uppskeran líka góð. Upptökustjóri Bítlanna einfaldaði þessa aðgerð þegar þeir unnu að Revolver. Honum datt í hug að tengja saman tvær teipvélar, notast bara við eina söngtöku en senda hana í gegnum báðar vélarnar áður en hann sameinaði hljóðmerkin á ný. Vegna þess að hljóðið var örlítið lengur á leiðinni í gegnum aðra vélina en hina (hér einfalda ég sannleikann aðeins) voru þessi tvö hljóðmerki ekki alveg samtaka þegar á hinn endann var komið og því hljómaði söngurinn tvöfaldur. Þessu fylgir þó algerlega sérstakur hljómur sem fæst ekki með öðrum aðferðum og nákvæmlega þetta nýttu Queen-liðar sér ákaft á sínum ferli. Bohemian Rhapsody er gríðarlega gott dæmi um þetta.


Annað blað brutu þeir í upptökutækni við gerð Revolver og það var sú aðferð að setja hljóðnemana alveg upp að því sem taka átti upp. Fram að þessu höfðu míkrófónar verið hugsaðir sem ígildi eyrna, þeim var stillt upp á stað sem hægt var að hugsa sér sem þægilegan stað fyrir tilvonandi kaupanda plötunnar, hefði hann verið á staðnum. Þannig skyldi upplifunin flutt beint úr hljóðverinu í eyru okkar. 

En með því að setja hljóðnemana alveg upp að gítarmagnaranum, trommum, píanóum, orgelum og öllu hinu fékkst ákveðin einangrun og auðveldara var að útiloka umhverfishljóð. Öll eftirvinnsla er með þessu móti talsvert auðveldari og í dag er þessi aðferð notuð í 99% tilvika. Þarna þótti þetta hins vegar svo fjarstæðukennt að tæknimaður hljóðversins var skammaður af yfirboðurum og eigendum fyrir að fara illa með hljóðnemana og auðvelt að setja sig í spor þessara jakkafatamanna sem vitanlega sáu fyrir sér manneskju með eyrað klesst upp við sneriltrommu sem Ringo barði síðan í erg og gríð. Fyrst slíkt skemmdi mannseyrað hlaut það að skemma hljóðnemann.

183.000.000 eintök seld

Revolver undir nálinni.Þetta er rosaleg tala. Bítlarnir hafa selt 183 milljónir eintaka platna í heildina og eru langsöluhæsta band allra tíma. Hvíta albúmið er langstærst, 24.000.000 eintök seld og þótt ótrúlegt megi virðast er hún eina plata þeirra sem fer á topp 10 yfir mest seldu breiðskífur heims, hún er í fjórða sæti á eftir Thriller með Michael Jackson og Hotel California og Their Greatest Hits (1971–1975) með Eagles. Revolver er hvergi nálægt þeirra vinsælustu verkum og hefur „aðeins“ selst í rúmlega 6 milljón eintaka.

Guli kafbáturinn í herberginu

Besta lagið á Revolver er I'm Only Sleeping en þau eru öll meistaraverk. Nema eitt. Helvítis Yellow Submarine. Það er eiginlega bara ógeðslegt. Sennilega átti þetta að vera fyndið en þetta er ekkert fyndið. Þeir sögðu síðar í viðtölum að lagið hefði verið smíðað sérstaklega til þess að Ringo gæti sungið það, hann býr jú ekki yfir neitt sérstaklega víðu raddsviði. En kommon, þið eruð Bítlarnir. Hvernig var þetta leiðin til þess að leysa málið?

Annað sérlega markvert er að Harrison kemur þremur frábærum lögum á blað. Þeirra best er upphafslag plötunnar, Taxman. Það er auðvitað eitthvað brjálað við það að semja lag í stíl við þemalög ofurhetjumynda samtímans og kvarta undan því að skatturinn sé grimmur við þig þegar þú ert er George Harrison í Bítlunum árið 1966. Og til að bæta ofan á pirringinn tekur Paul þarna eitt brjálaðasta gítarsóló í sögu Bítlana, metalskotið og gauðrifið. Bassaleikarinn sjálfur sem aldrei tók sóló.


Ég er aðeins minna hrifinn af sítaræfingum Harrison en læt það þó ekkert fara í taugarnar á mér. Ekkert mikið.

Lögin sem víst hljómuðu á tónleikum

Við niðurlag þessara pistla þykir mér gaman að velta fyrir mér stöðu viðkomandi bands eða listafólks í dag. Hér er því auðvitað ekki að heilsa. Einnig finnst mér gaman að skoða hvernig lög af plötunni sem um ræðir hafa ratað inn á tónleikarprógröm á þeim árum sem síðan eru liðin. Þar er sömu sögu að segja, þessi lög hafa aldrei verið spiluð á tónleikum. Ekki af Bítlunum. Og þá komum við að þeirri svakalegu staðreynd að öll lögin af Revolver og öllum hinum plötunum af hljóðverstímabilinu hafa verið spiluð á tónleikum um víða veröld, oftar og fyrir fleiri en næstum öll lög önnur sem samin hafa verið. Flutt af óteljandi listafólki við allar aðstæður.


Eleanor Rigby er einmitt fyrsta lagið sem rataði inn á Bítlaplötu þar sem þeir sjálfir spila ekki á eitt einasta hljóðfæri. Og svo gerir Ray þetta bara blindandi.

Ég hvet ykkur öll til að hlusta á þetta meistaraverk í heild. Hér er mín skoðun en ég skal glaður rökræða hana: Revolver er besta platan með The Beatles.

Lagalisti:

Hlið A

01 – Taxman

02 – Eleanor Rigby

03 – I'm Only Sleeping

04 – Love You To

05 – Here, There and Everywhere

06 – Yellow Submarine

07 – She Said She Said

08 – Good Day Sunshine

09 – And Your Bird Can Sing

10 – For No One

11 – Doctor Robert

12 – I Want To Tell You

13 – Go To Get You Into My Life

14 – Tomorrow Never Knows



Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk