Það er svo ótrúlegt hvernig mannslíkaminn berst gegn kvillum allan liðlangan daginn. Sennilega er ónæmiskerfið það varnarkerfi sem vinnur mesta vinnuna í því efnum.
Eitt af þeim kvillum sem ónæmiskerfið reynir eftir fremsta megni að koma í veg fyrir er hinn skæði sjúkdómur krabbamein. Það heppnast mun oftar en við höldum, en því miður þá getur ónæmiskerfið ekki alltaf haldið í við þann klóka sjúkdóm sem krabbamein eru.
Ónæmiskerfið sveimar um líkamann allan daginn í leit að frumum sem hafa misst heilbrigði sitt, t.d. vegna sýkinga eða krabbameina. Líkamsfrumur okkar vilja nefnilega lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt og láta því vita með boðum á yfirborði sínu um það hvort eitthvað hefur farið úrskeiðis.
Þannig láta krabbameinsfrumur, á fyrstu stigum, ónæmiskerfið vita þegar grípa þarf inn í. Frumur ónæmiskerfisins, svokallaðar T drápsfrumur, bindast þá við krabbameinsfrumurnar og eyða þeim. En á ákveðnum tímapunkti finna krabbameinsfrumurnar sér leið til að sneiða framhjá þessu varnarkerfi.
Tiltölulega nýlega fór virkjun á ónæmiskerfinu reyndar að verða vítt notuð meðferð gegn krabbameinum í blóði, þ.e. hvítblæði. Í slíkum tilfellum er T frumum safnað úr sjúkling eða heppilegum gjafa, þeim erfðabreytt til að ráðast á krabbameinið og síðan ræktaðar upp til að koma þeim aftur inn í líkama sjúklingsins.
Rannsókn sem birtist í Nature Immunology fyrr á þessu ári gefur núna vonir um að fljótlega verði komin sambærileg meðferðarúrræði sem hægt er að nota gegn krabbameinsæxlum, þ.e. krabbameinum ekki einungis krabbameinum í blóði.
Rannsóknin var unnin við Cardiff í Bretlandi. Rannsóknarhópurinn var að rannsaka ónæmisfrumur þegar þau rákust á gerð T frumna sem þekktu krabbameinsfrumur úr hinum ýmsu líffærum og eyddu þeim.
T frumurnar eru með sérstakan viðtaka sem þekkir prótín í krabbameinsfrumunum sem heitir MR1. MR1 er til staðar í líkamsfrumum okkar og frumurnar nota til að láta ónæmiskerfið vita ef sýking hefur náð bólfestu í frumunni. Þetta sama prótín nota T frumurnar til að þekkja krabbameinsfrumur, þó ekki á nákvæmlega sama hátt.
Rannsóknarhópurinn við Cardiff prófaði T frumurnar í frumurækt með krabbameinsfrumulínum úr hinum ýmsu mannalíffærum. Það virtist ekki skipta máli úr hvers konar krabbameini frumurnar komu, T frumurnar þekktu þær alltaf sem krabbameinsfrumur og eyddu þeim.
Þegar rannsóknarhópurinn prófaði svo að rækta heilbrigðar mannafrumur með T frumunum þá voru áhrifin ekki þau sömu. Það eru einstaklega góðar fréttir því það bendir til að T frumurnar geti með nokkuð góðum hætti gert greinarmun á krabbameinsfrumum og heilbrigðum frumum.
Þessi nýja týpa af T frumum vekur þó óhjákvæmilega fjölmargar spurningar líka. Er hugsanlega hægt að nota þennan viðtaka til að erfðabreyta T frumum úr sjúklingi of nota þær svo til að eyða krabbameinum? Hafa allir erfðaefnið (uppskriftina) sem þarf til að mynda viðtakann, en erum bara ekki að nota hann. Er kannski hægt að bólusetja fólk svo við myndum öll þessa týpu af T frumum og verðum þá nánast ónæm fyrir krabbameini?
Þó niðurstöður rannsóknarhópsins í Cardiff lofi sannarlega góðu þá er enn langt í land áður en við getum svarað þessum spurningum hér að ofan. Virkni í frumurækt er ekki það sama og virkni inn í líkama. Það gæti t.a.m. verið vandkvæðum háð að koma T frumunum á réttan stað í líkamanum svo þær gætu eytt krabbameinum sem eru til staðar.
Frekari rannsóknir eru í pípunum hjá rannsóknarhópnum í Cardiff til að skoða t.a.m. hvaða ferlar það eru sem fara í gang. Það verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með framgangi mála í þessum rannsóknum.