Súrrealískur Tyrfingur – djarfur og áleitinn!

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Helgi Þór rofnar eftir Tyrfing Tyrfingsson.

_DSC7798.jpg
Auglýsing

Borg­ar­leik­hús­ið: Helgi Þór rofnar

Höf­und­ur: Tyrf­ingur Tyrf­ings­son

Leik­stjóri: Stefán Jóns­son

Leik­mynd: Grétar Reyn­is­son

Bún­ing­ar: Stef­anía Adolfs­dóttir

Lýs­ing: Pálmi Jóns­son

Tón­list: Magnús Jóhann Ragn­ars­son

Mynd­band: Elmar Þór­ar­ins­son

Leik­gervi: Mar­grét Bene­dikts­dóttir

Hljóð­mynd: Garðar Borg­þórs­son

Leik­end­ur: Hilmar Guð­jóns­son, Þur­íður Blær Jóhanns­dótt­ir, Bergur Þór Ing­ólfs­son, Hjörtur Jóhann Jóns­son, Erlen Isa­bella Ein­ars­dótt­ir, Kári Gísla­son.

Enn og aftur má segja að Tyrf­ingur Tyrf­ings­son hafi kom­ið, séð og sigr­að. Enn og aftur lætur hann frá sér fara sögu sem er stærri en sögu­efn­ið; Helgi Þór rofnar er kómísk tra­gedía – kómísk af því Tyrf­ingi tekst að bregða ljósi fárán­leik­ans á per­sónur sín­ar, tragísk af því hann lætur þær mæta örlögum sín­um, taka afleið­ingum af for­tíð­inni og vera of mátt­vana til að bregða útaf viðjum van­ans, sem iðu­lega snýst um und­an­láts­semi og með­virkni. Þetta gerir Tyrf­ingur fremur áreynslu­laust, saga hans rennur lið­lega að ósi og flest ef ekki allt er rök­rétt og skilj­an­legt, áhuga­vert, kitlandi, ögrandi. Þótt Tyrf­ingur ýti per­sónum sínum út á ystu nöf þá þykir honum vænt um þær, manns­sýn hans er húmanísk og upp­full af skiln­ingi. Það er ekki lít­ils virði fyrir íslenska leik­ritun og leik­list­ar­menn­ingu að hafa fengið slíkan liðs­mann sem Tyrf­ing!

Helgi Þór rofnar er fimmta verk Tyrf­ings Tyrf­ings­sonar sem sýnt er í Borg­ar­leik­hús­inu; hin fyrri voru Skúr­inn á slétt­unni, Blá­skjár, Aug­lýs­ing árs­ins og Kart­öflu­æt­urn­ar. Það er svo einnig ánægju­efni að þessi verk eru óðum að rata á leik­svið hér og þar í Evr­ópu; útrás íslenskra leik­skálda er að kom­ast í end­ur­nýjun líf­daga í sam­ræmi við það sem áður var, þegar Jóhann Sig­ur­jóns­son og Guð­mundur Kamban voru uppá sitt besta. Seint verður þó Tyrf­ingur sak­aður um að líkj­ast þeim sem skáld, hvað þá að heims­sýn – Tyrf­ingur er barn okkar tíma og hikar ekki við að rýna í það myrkur sem við okkur blasir þegar við lyftum brúnum og lítum okkar heimskringlu. Helgi Þór rofnar er síst und­an­tekn­ing frá því.

Sjálf leik­myndin verður að áhrifa­ríkri yrð­ingu – hér er sitt hvoru megin á svið­inu lík­brennslan til vinstra, og bak­aríið til hægri. Tveir ofnar líkt og loka fyrir sviðs­rýmið hvor sínu meg­in, lík­brennslu­ofn­inn og bak­ara­ofn­inn, þar sem annar táknar dauða, hinn líf. Skemmti­legar and­stæður og skarp­ari ger­ast þær varla. Grétar Reyn­is­son hefur hannað hag­an­lega og vel nýt­an­lega leik­mynd þar sem allt ger­ist innan ramma, sem umlykur sviðið á milli sviðs og áhorf­enda. Bak­vegg­ur­inn er svo ekki allur þar sem hann er séð­ur; þegar honum er hnikað til verður rýmið órætt og per­són­urnar geta átt inn- og útkomur eftir þörf­um. Lýs­ing er hug­vit­sam­leg og í sam­ræmi við sög­una; hið sama gildir um bún­inga og gervi. Það er í raun sama hvert litið er, Stefán Jóns­son leik­stjóri hefur unnið sitt verk af vand­virkni og list­rænni smekk­vísi og úr verður ákaf­lega heil­steypt og vönduð sýn­ing sem allir aðstand­endur mega vera stoltir af.

Auglýsing
Sagan snýst um Helga Þór, sem starfar í lík­brennslu- og lík­snyrti­stofu föður síns. Hann er í upp­hafi leiks að stússa yfir líki sem stendur til að jarða þegar dóttir líks­ins, Katrín,  birt­ist til að kynn­ast þessum föður sín­um, sem hún hefur reyndar mátu­legan áhuga á þegar allt kemur til alls. Hins vegar kvikna til­finn­ingar milli Helga Þórs og Katrín­ar, þau hafa hist áður og farið vel á með þeim. En Helgi Þór í allt ann­ars konar sam­bandi við föður sinn, það byggir á kúgun og and­legu ofbeldi sem lýsir sér meðal ann­ars í því þegar fað­ir­inn birt­ist og spúir hrylli­legum spá­dómum yfir þau skötu­hjúin.Hilmar Guðjónsson og Bergur Þór Ingólfsson eru á meðal leikenda. Mynd: Borgarleikhúsið.

Þetta er súr­r­eal­ískt eins og vænta má af Tyrf­ingi og hér er teflt saman and­stæðum af alls konar tagi – en fyrst og fremst eru það and­stæður lífs og dauða. Per­sónur verks­ins lúta örlögum sínum og fá þau ekki umflú­ið. Þetta er rétt eins og í klass­ískum grískum harm­leik, nema þessi ger­ist í iðn­að­ar­hverfi í Kópa­vogi, þar sem sam­ein­ast um hús­næðið lík­brennsla og lík­snyrti­stofa Jóns, föður Helga Þórs, og bak­arí hins nafn­lausa bak­ara – en reyn­ist vera hvort tveggja, fyrrum ást­maður Helga Þórs og elsk­hugi móður hans. Þetta er auð­vitað bæði súr­r­eal­ískt og bráð­fyndið og má skoða eins tákn­rænum skiln­ingi og vill – en auð­vitað gæti eng­inn nema Tyrf­ingur látið sér detta í hug að bak­ari og lík­snyrtir gætu verið slíkt par sem hefði eitt­hvað að segja áhorf­anda um lífið og veru­leik­ann. En þannig er það í hug­ar­heimi Tyrf­ings – Kópa­vogur er hin fasta stærð, allt annað er reikult, óvænt og óvið­jafn­anlegt.

Helgi Þór er leik­inn af Hilm­ari Guð­jóns­syni, sem sannar hér enn og aftur hví­líkt vald hann hefur á gam­an­leik sem ber öll merki traustrar hefðar en hefur engu að síður það yfir­bragð sem Hilmar einn býr yfir. Hann er, eins og flestir bestu gam­an­leik­arar sög­unn­ar, full­kom­inn „und­er­dog“ eða minni­poka­maður – hann er sá, sem öllum leyf­ist að lúskra á og kúga, hvort sem það er fað­ir­inn eða ást­mað­ur­inn fyrr­ver­andi, og hann á sér engrar við­reisnar von fyrr en eitt­hvað það ger­ist í lífi hans sem hann hefur aðeins þorað að dreyma um. Hér er það Katrín, leikin af Þur­íði Blæ Jóhanns­dótt­ur, sem kveikir þá von að draum­ur­inn geti ræst; hún er stúlkan sem Helgi Þór hitti fyrir nokkru og þau áttu sér eins konar ham­ingju­stund sem birt­ist okkur í formi mynd­bands. Nú birt­ist hún á lík­brennslu­stof­unni, full af lífi, fjöri og seið­andi þokka til að líta á föður sinn lát­inn, sem Helgi Þór er að snyrta fyrir jarð­ar­för­ina. Og Helgi Þór lifnar við; atriðin milli þeirra tveggja ein­kenn­ast af feg­urð og von – en eins og í klass­ískum ást­ar­sögum er þessum fal­legu elskendum ekki skapað nema að skilja.Úr Helgi Þór rofnar. Mynd: Borgarleikhúsið

Adam var nefni­lega ekki lengi í Para­dís og svipað má segja um Helga Þór bless­að­an. Faðir hans læð­ist að honum rétt eins og orm­ur­inn forðum og kveður gleði hans niður með voveif­legum spá­dómi. Og spá­dóm­ur­inn nær tökum á Helga Þór og verður eins og spá­dómar gjarnan verða – að áhríns­orð­um. Meira skal ekki sagt um það, en vissu­lega er ekki annað hægt en fylgj­ast með Helga Þór mæta örlögum sínum með spenn­ingi.

Helgi Þór verður í með­förum Hilm­ars að áhuga­verðri per­sónu – Hilmar tengir saman á rök­réttan og trú­verð­ugan hátt þá kúgun sem hann býr við af hendi föð­ur­ins og þann lífs­kraft sem með honum vaknar í sam­skiptum hans við hina til­finn­inga­lega firrtu Katrínu. Þegar þess er gætt að texti Tyrf­ings er næsta súr­r­eal­ískur og á köflum ekki nema tæpt á hvað hugs­ast getur verið orsök og afleið­ing í karakter Helga Þórs, verður afrek Hilm­ars þeim mun magn­aðra og óhætt að segja að hann vinni hér fræki­legan leik­sig­ur. Það hlýtur að vera óhætt að ljóstri því upp hér að aldrei hefur slag­ar­inn vin­sæli, sem tröll­reið óska­lögum sjúk­linga og sjó­manna um langa hríð á öld­inni sem leið, verið fluttur jafn eft­ir­minni­lega og Hilmar gerir í hlut­verki Helga Þórs. Það atriði eitt er gull­korn sem lif­ir.

Auglýsing
Þuríður Blær fylgir Hilm­ari fast á eftir og svipað má segja um bak­arann, sem í með­förum Hjartar Jóhanns verður bæði ísmeygi­legur og and­styggi­legur – og alveg ómót­stæði­leg­ur! Fað­ir­inn, kúg­ar­inn og and­legi ofbeld­is­mað­ur­inn er leik­inn af Bergi Þór Ing­ólfs­syni sem mætti draga úr mestu lát­unum – það hefur einatt verið sagt um vonsk­una og grimmd­ina að þegar hún er á lágu nót­unum er hún hvað hættu­leg­ust og spurn­ing hvort ekki hefði farið betur á því hér. Erlen Isa­bella Ein­ars­dóttir birt­ist sem hávaða­söm stúlka í tveimur inn­komum og gerir það vel, sam­kvæm sjálfri sér í frekj­unni og yfir­gang­in­um.

Það er full ástæða til að hvetja fólk að sjá verk Tyrf­ings Tyrf­ings­son­ar, Helgi Þór rofn­ar. Það er djarft, áleitið og vel skrif­að, sýn­ingin öll hin hag­an­leg­asta undir styrkri stjórn Stef­áns Jóns­sonar og leik­hóp­ur­inn skilar þess­ari sögu um teng­ingu nútíma­manns­ins við sjálfan sig og aðra. Hér er ekk­ert dregið undan og það má vel skoða verkið sem spé­spegil um okk­ur, sem sitjum í saln­um.

Kanntu vel við Kjarnann?

Við á Kjarnanum þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sýn krefur Jón Ásgeir og Ingibjörgu, 365 miðla og Torg um meira en milljarð
Kaup Sýnar á 365 hafa dregið dilk á eftir sér. Deilur eru nú komin inn á borð dómstóla.
Kjarninn 26. febrúar 2020
Sýn tapaði 1,7 milljörðum í fyrra
Rekstrarafkoma Sýnar versnaði mikið milli ára. Niðurfærsla á viðskiptavild litaði afkomu ársins í fyrra.
Kjarninn 26. febrúar 2020
Samherji er grunaður um að hafa greitt mútur fyrir aðgang að ódýrari kvóta í Namibíu.
Skattrannsóknarstjóri fékk gögn um Samherja fyrir Kveiksþáttinn
Yfirvöld í Namibíu höfðu sent skattrannsóknarstjóra gögn um Samherja áður en viðskiptahættir fyrirtækisins í Namibíu voru opinberaðir í fjölmiðlum. Embættið fundaði með háttsettum aðilum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu 18. nóvember 2019.
Kjarninn 26. febrúar 2020
Bjarni Benediktsson er fjármála- og efnahagsráðherra.
Þurfa að afhenda minnisblöð skattayfirvalda um Samherja
Fjármála- og efnagagsráðuneytið mátti ekki synja fréttamanni um aðgang að gögnum sem það fékk frá skattayfirvöldum vegna rannsóknar á Samherjamálinu.
Kjarninn 26. febrúar 2020
Þórður Snær Júlíusson
Það sem sjávarútvegurinn þarf að gera til að byggja upp traust
Kjarninn 26. febrúar 2020
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Yfir helmingur landsmanna styður verkfallsaðgerðir Eflingar
Í nýrri könnun Maskínu kemur fram að 59 prósent Íslendinga segjast styðja Eflingu í yfirstandandi launadeilu við Reykjavíkurborg og 56 prósent eru hlynnt verkfallsaðgerðum.
Kjarninn 26. febrúar 2020
Yfir fimm þúsund hryssur notaðar í blóðmerahald á síðasta ári
Hægt er að vinna hormón úr blóði hryssa á ákveðnu tímabili meðgöngu og vinna úr því frjósemislyf. Hestahald þar sem framkvæmd er blóðtaka úr hrossum til framleiðslu afurða var stundað á vegum 95 aðila árið 2019.
Kjarninn 26. febrúar 2020
Samkeppniseftirlitið samþykkir kaup Nordic Visitor á Terra Nova
Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Nordic Visitor á ferðaskrifstofunni Terra Nova Sól. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Kjarninn 26. febrúar 2020
Meira úr sama flokkiFólk