Súrrealískur Tyrfingur – djarfur og áleitinn!

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Helgi Þór rofnar eftir Tyrfing Tyrfingsson.

_DSC7798.jpg
Auglýsing

Borgarleikhúsið: Helgi Þór rofnar

Höfundur: Tyrfingur Tyrfingsson

Leikstjóri: Stefán Jónsson

Leikmynd: Grétar Reynisson

Búningar: Stefanía Adolfsdóttir

Lýsing: Pálmi Jónsson

Tónlist: Magnús Jóhann Ragnarsson

Myndband: Elmar Þórarinsson

Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir

Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson

Leikendur: Hilmar Guðjónsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Erlen Isabella Einarsdóttir, Kári Gíslason.

Enn og aftur má segja að Tyrfingur Tyrfingsson hafi komið, séð og sigrað. Enn og aftur lætur hann frá sér fara sögu sem er stærri en söguefnið; Helgi Þór rofnar er kómísk tragedía – kómísk af því Tyrfingi tekst að bregða ljósi fáránleikans á persónur sínar, tragísk af því hann lætur þær mæta örlögum sínum, taka afleiðingum af fortíðinni og vera of máttvana til að bregða útaf viðjum vanans, sem iðulega snýst um undanlátssemi og meðvirkni. Þetta gerir Tyrfingur fremur áreynslulaust, saga hans rennur liðlega að ósi og flest ef ekki allt er rökrétt og skiljanlegt, áhugavert, kitlandi, ögrandi. Þótt Tyrfingur ýti persónum sínum út á ystu nöf þá þykir honum vænt um þær, mannssýn hans er húmanísk og uppfull af skilningi. Það er ekki lítils virði fyrir íslenska leikritun og leiklistarmenningu að hafa fengið slíkan liðsmann sem Tyrfing!

Helgi Þór rofnar er fimmta verk Tyrfings Tyrfingssonar sem sýnt er í Borgarleikhúsinu; hin fyrri voru Skúrinn á sléttunni, Bláskjár, Auglýsing ársins og Kartöfluæturnar. Það er svo einnig ánægjuefni að þessi verk eru óðum að rata á leiksvið hér og þar í Evrópu; útrás íslenskra leikskálda er að komast í endurnýjun lífdaga í samræmi við það sem áður var, þegar Jóhann Sigurjónsson og Guðmundur Kamban voru uppá sitt besta. Seint verður þó Tyrfingur sakaður um að líkjast þeim sem skáld, hvað þá að heimssýn – Tyrfingur er barn okkar tíma og hikar ekki við að rýna í það myrkur sem við okkur blasir þegar við lyftum brúnum og lítum okkar heimskringlu. Helgi Þór rofnar er síst undantekning frá því.

Sjálf leikmyndin verður að áhrifaríkri yrðingu – hér er sitt hvoru megin á sviðinu líkbrennslan til vinstra, og bakaríið til hægri. Tveir ofnar líkt og loka fyrir sviðsrýmið hvor sínu megin, líkbrennsluofninn og bakaraofninn, þar sem annar táknar dauða, hinn líf. Skemmtilegar andstæður og skarpari gerast þær varla. Grétar Reynisson hefur hannað haganlega og vel nýtanlega leikmynd þar sem allt gerist innan ramma, sem umlykur sviðið á milli sviðs og áhorfenda. Bakveggurinn er svo ekki allur þar sem hann er séður; þegar honum er hnikað til verður rýmið órætt og persónurnar geta átt inn- og útkomur eftir þörfum. Lýsing er hugvitsamleg og í samræmi við söguna; hið sama gildir um búninga og gervi. Það er í raun sama hvert litið er, Stefán Jónsson leikstjóri hefur unnið sitt verk af vandvirkni og listrænni smekkvísi og úr verður ákaflega heilsteypt og vönduð sýning sem allir aðstandendur mega vera stoltir af.

Auglýsing
Sagan snýst um Helga Þór, sem starfar í líkbrennslu- og líksnyrtistofu föður síns. Hann er í upphafi leiks að stússa yfir líki sem stendur til að jarða þegar dóttir líksins, Katrín,  birtist til að kynnast þessum föður sínum, sem hún hefur reyndar mátulegan áhuga á þegar allt kemur til alls. Hins vegar kvikna tilfinningar milli Helga Þórs og Katrínar, þau hafa hist áður og farið vel á með þeim. En Helgi Þór í allt annars konar sambandi við föður sinn, það byggir á kúgun og andlegu ofbeldi sem lýsir sér meðal annars í því þegar faðirinn birtist og spúir hryllilegum spádómum yfir þau skötuhjúin.Hilmar Guðjónsson og Bergur Þór Ingólfsson eru á meðal leikenda. Mynd: Borgarleikhúsið.

Þetta er súrrealískt eins og vænta má af Tyrfingi og hér er teflt saman andstæðum af alls konar tagi – en fyrst og fremst eru það andstæður lífs og dauða. Persónur verksins lúta örlögum sínum og fá þau ekki umflúið. Þetta er rétt eins og í klassískum grískum harmleik, nema þessi gerist í iðnaðarhverfi í Kópavogi, þar sem sameinast um húsnæðið líkbrennsla og líksnyrtistofa Jóns, föður Helga Þórs, og bakarí hins nafnlausa bakara – en reynist vera hvort tveggja, fyrrum ástmaður Helga Þórs og elskhugi móður hans. Þetta er auðvitað bæði súrrealískt og bráðfyndið og má skoða eins táknrænum skilningi og vill – en auðvitað gæti enginn nema Tyrfingur látið sér detta í hug að bakari og líksnyrtir gætu verið slíkt par sem hefði eitthvað að segja áhorfanda um lífið og veruleikann. En þannig er það í hugarheimi Tyrfings – Kópavogur er hin fasta stærð, allt annað er reikult, óvænt og óviðjafnanlegt.

Helgi Þór er leikinn af Hilmari Guðjónssyni, sem sannar hér enn og aftur hvílíkt vald hann hefur á gamanleik sem ber öll merki traustrar hefðar en hefur engu að síður það yfirbragð sem Hilmar einn býr yfir. Hann er, eins og flestir bestu gamanleikarar sögunnar, fullkominn „underdog“ eða minnipokamaður – hann er sá, sem öllum leyfist að lúskra á og kúga, hvort sem það er faðirinn eða ástmaðurinn fyrrverandi, og hann á sér engrar viðreisnar von fyrr en eitthvað það gerist í lífi hans sem hann hefur aðeins þorað að dreyma um. Hér er það Katrín, leikin af Þuríði Blæ Jóhannsdóttur, sem kveikir þá von að draumurinn geti ræst; hún er stúlkan sem Helgi Þór hitti fyrir nokkru og þau áttu sér eins konar hamingjustund sem birtist okkur í formi myndbands. Nú birtist hún á líkbrennslustofunni, full af lífi, fjöri og seiðandi þokka til að líta á föður sinn látinn, sem Helgi Þór er að snyrta fyrir jarðarförina. Og Helgi Þór lifnar við; atriðin milli þeirra tveggja einkennast af fegurð og von – en eins og í klassískum ástarsögum er þessum fallegu elskendum ekki skapað nema að skilja.Úr Helgi Þór rofnar. Mynd: Borgarleikhúsið

Adam var nefnilega ekki lengi í Paradís og svipað má segja um Helga Þór blessaðan. Faðir hans læðist að honum rétt eins og ormurinn forðum og kveður gleði hans niður með voveiflegum spádómi. Og spádómurinn nær tökum á Helga Þór og verður eins og spádómar gjarnan verða – að áhrínsorðum. Meira skal ekki sagt um það, en vissulega er ekki annað hægt en fylgjast með Helga Þór mæta örlögum sínum með spenningi.

Helgi Þór verður í meðförum Hilmars að áhugaverðri persónu – Hilmar tengir saman á rökréttan og trúverðugan hátt þá kúgun sem hann býr við af hendi föðurins og þann lífskraft sem með honum vaknar í samskiptum hans við hina tilfinningalega firrtu Katrínu. Þegar þess er gætt að texti Tyrfings er næsta súrrealískur og á köflum ekki nema tæpt á hvað hugsast getur verið orsök og afleiðing í karakter Helga Þórs, verður afrek Hilmars þeim mun magnaðra og óhætt að segja að hann vinni hér frækilegan leiksigur. Það hlýtur að vera óhætt að ljóstri því upp hér að aldrei hefur slagarinn vinsæli, sem tröllreið óskalögum sjúklinga og sjómanna um langa hríð á öldinni sem leið, verið fluttur jafn eftirminnilega og Hilmar gerir í hlutverki Helga Þórs. Það atriði eitt er gullkorn sem lifir.

Auglýsing
Þuríður Blær fylgir Hilmari fast á eftir og svipað má segja um bakarann, sem í meðförum Hjartar Jóhanns verður bæði ísmeygilegur og andstyggilegur – og alveg ómótstæðilegur! Faðirinn, kúgarinn og andlegi ofbeldismaðurinn er leikinn af Bergi Þór Ingólfssyni sem mætti draga úr mestu látunum – það hefur einatt verið sagt um vonskuna og grimmdina að þegar hún er á lágu nótunum er hún hvað hættulegust og spurning hvort ekki hefði farið betur á því hér. Erlen Isabella Einarsdóttir birtist sem hávaðasöm stúlka í tveimur innkomum og gerir það vel, samkvæm sjálfri sér í frekjunni og yfirganginum.

Það er full ástæða til að hvetja fólk að sjá verk Tyrfings Tyrfingssonar, Helgi Þór rofnar. Það er djarft, áleitið og vel skrifað, sýningin öll hin haganlegasta undir styrkri stjórn Stefáns Jónssonar og leikhópurinn skilar þessari sögu um tengingu nútímamannsins við sjálfan sig og aðra. Hér er ekkert dregið undan og það má vel skoða verkið sem spéspegil um okkur, sem sitjum í salnum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk