Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) hefur borist markmið 135 ríkja heimsins í loftslagsmálum sem á að vera grundvöllur lagalega bindandi samnings um takmarkaða losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum til framtíðar. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að halda hækkun hitastigs á jörðinni undir 2°C sé miðað við meðalhita fyrir iðnbyltinguna.
Samóa varð 135. landið til að skila markmiðum sínum í morgun en markmið fjölmargra landa hafa borist Sameinuðu þjóðunum síðustu daga. Skilafresturinn rennur út í dag 1. október fyrir lönd heimsins að skila áætlunum sínum í loftslagsmálum. Sá frestur er hins vegar mjúkur og löndum frjálst að skila markmiðum fram að ráðstefnunni í París sem hefst 30. nóvember. Þau markmið sem berast síðar en í dag verða hins vegar ekki tekin til greina í samantekt UNFCCC.
Ísland hefur þegar skilað markmiðum sínum í loftslagsmálum. Við tökum þátt í markmiði Evrópusambandsins (ESB) um að minnka losun um 40 prósent til ársins 2030 miðað við 1990. Íslendingar, ESB og Norðmenn eiga eftir að semja innbyrðis um losunarheimildir en óvíst er hvenær því verður lokið. Þess vegna fylgir markmiðum Íslands sem send voru Sameinuðu þjóðunum fyrirvari.
Ríkisstjórn Noregs hefur þegar lýst því yfir að þar verði dregið úr losun um að minnsta kosti 40 prósent til ársins 2030. Eiginlegt marmkið Íslands hefur hins vegar ekki verið ákveðið og á vef Climateobserver þar sem búið er að taka saman markmið allra ríkja segir að Ísland taki á sig „réttláta hlutdeild“ (e. fair share) í sameiginlegu markmiði ESB.
Markmiðin duga skammt
Eins og Kjarninn hefur greint frá eru vísbendingar um að loftslagsmarkmið ríkjanna muni ekki duga til þess að halda hitastigi jarðar undir 2°C. Samkvæmt gögnum Climate Action Tracker duga stefnumótunarmarkmið stærstu mengunarlanda heims aðeins hálfvegis að meginmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.
Hér má sjá niðurstöður Climate Action Tracker grafískt. Rauða línan sýnir væntanlega þróun miðað við markmið ríkja heimsins, græna línan sýnir æskilega þróun og bláa lína sýnir afleiðingar óbreyttrar stefnumótunar.
Í samantekt Climate Action Tracker hefur verið tekið mið af 16 markmiðum 43 landa (þar eru aðildarríki ESB með eitt sameiginlegt marmkið) sem samanlagt bera ábyrgð á 78 prósent allrar losunar gróðurhúsaloftegunda. Í þessum löndum búa jafnframt 65 prósent mannkyns.
Undanfarið hafa áhrifamiklir leiðtogar heimsins látið í sér heyra hvað varðar loftslagsmálin og hvatt heiminn til að leggja sitt af mörkum. Frans páfi varð fyrsti páfinn til að opna Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á föstudag en þar lagði hann áherslu á loftslagsmálin og framtíðarsýn sína á jörðina. „Umhverfiseyðilegging gæti komið öllu mannkyninu í útrýmingarhættu,“ sagði páfi.
Frans páfi eyddi hins vegar ekki miklum tíma í að útskýra vísindalegar nálganir heldur ræddi hann um loftslagsmálin sem grunndvallar mannréttindi. „Í öllum trúarbrögðum er umhverfið grundvallargæði. Allur skaði við umhverfið er beint tjón fyrir mannkynið.“
Þá barst ríkisstjórnum heims opið bréf í gær, miðvikudag, frá hópi 28 framkvæmdastjórum og leiðtogum í flugiðnaði þar sem sagt er að greinin sé reiðubúin til að skuldbinda sig til að minnka losun eins mikið og hægt er í fluggeiranum. Árið 2013 var fluggeirinn í 13. sæti yfir þau lönd og greinar sem menga mest í heiminum.