Alls greindust 167 kórónuveirusmit innanlands í gær. Aldrei hafa jafn mörg smit greinst á einum degi frá því að faraldurinn braust út hér á landi í lok febrúar 2019. Fyrri metfjöldi var 154 en svo margir greindust 30. júlí síðastliðinn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í pistli sínum á covid.is að faraldurinn sé í miklum vexti og hafi náð að dreifa sér um allt land. Alls hafa 319 einstaklingar greinst smitaðir af COVID-19 innanlands síðustu tvo daga og er það mesti fjöldi á tveimur dögum frá því að faraldurinn hófst hér á landi. 15 einstaklingar eru á Landspítala með COVID-19 og þar af fjórir á gjörgæsludeild. Auk þess liggur einn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri og er sá í öndunarvél. Þórólfur telur að búast megi við fleiri innlögnum á næstunni vegna vaxandi fjölda smita í samfélaginu sem mun auka enn frekar á vanda spítalakerfisins.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum eru allir sjúklingar sem eru þar inniliggjandi vegna COVID-19 fullorðnir og er meðalaldur þeirra 57 ár. Sex eru óbólusettir og fjórir eru á gjörgæslu, þrír þeirra í öndunarvél. Alls eru 1.088 sjúklingar, þar af 243 börn, í COVID göngudeild spítalans. Nýskráðir þar í gær voru 137 fullorðnir og 22 börn. Frá upphafi fjórðu bylgju, 30. júní 2021, hafa 162 lagst inn á Landspítalann vegna COVID-19.
„Nú gildir að sýna samstöðu og viðhafa þær sóttvarnir sem við vitum að skila árangri. Forðumst hópamyndanir, virðum eins metra nándarreglu, notum andlitsgrímu ef ekki er hægt að viðhafa eins metra nánd við ótengda aðila og/eða í illa loftræstum rýmum, þvoum og sprittum hendur, höldum okkur til hlés ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 og mætum í PCR próf. Einnig er mikilvægt að viðhafa góða smitgát þar til niðurstaða úr PCR prófi liggur fyrir,“ segir sóttvarnalæknir í pistli sínum.
Minnisblað sóttvarnalæknis er til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi sem nú stendur yfir og búast má við að greint verði frá innihaldi þess, sem felist í hertum aðgerðum innanlands, að honum loknum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að innihald minnisblaðsins sé sögulegt að því leyti að þar reki Þórólfur sögu faraldursins og þeirra sóttvarnaaðgerða sem gripið hefur verið til.