Þjóðarleiðtogarnir sem söfnuðust saman á Glasgow á fyrstu dögum Cop26-ráðstefnunnar eru nú flestir á bak og burt, en þau fyrirheit sem gefin hafa verið um aðgerðir í loftslagsmálum standa eftir. Verði þau öll uppfyllt, gæti það leitt til þess að hlýnun jarðar haldist innan við tvær gráður fyrir lok aldarinnar.
Það segja hið minnsta loftslagsvísindamenn við Melbourne-háskóla í Ástralíu, sem hafa rennt nýjasta loforðaflaumi leiðtoganna inn í líkan sitt og fengið út þá niðurstöðu að ef allt gangi fullkomlega eftir sem sett hafi verið fram nú þegar séu meira en 50 prósent líkur á að hlýnun jarðar frá upphafi iðnbyltingar og fram að næstu aldamótum fari ekki yfir 2°.
Ný fyrirheit sveigja kúrfuna
Langtímamarkmið um kolefnishlutleysi, fyrir árið 2070 frá Indlandi og fyrir árið 2060 frá Kína, eru í stöðuskýrslu vísindamannanna sögð hafa haft mikil áhrif á þær niðurstöður sem líkanið sýnir fram á. Auk þess hafi ellefu ríki uppfært markmið sín um samdrátt í losun (NDCs) frá 18. október, er vísindamennirnir keyrðu spálíkanið í síðasta skipti fyrir ráðstefnuna í Glasgow.
Loftslagsvísindamennirnir segja að þetta sé „sögulegt augnablik,“ enda sé þetta í fyrsta skipti sem fyrirheit 194 ríkja hafi meira en helmingslíkur á að halda hlýnun jarðar innan við tvær gráður við loka aldarinnar.
Það eru þó enn 37 prósent líkur á að það markmið náist ekki og meðalhitastig muni hafa hækkað um meira en tvær gráður fyrir lok aldar – og það þrátt fyrir að öll fyrirheit yrðu uppfyllt að fullu og gangi eftir eins og vonir standa til.
Þetta er þó skárri staða en var sett fram í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum, UNEP Gap Report, sem birtist í síðasta mánuði. Þar var gert ráð fyrir því að núverandi fyrirheit ríkja um samdrátt í losun myndu setja jörðina á braut í átt að 2,7° hlýnun við lok aldarinnar.
Í skýrslu sinni um þessar niðurstöður segja vísindamennirnir að enn sé langur vegur í átt að því, sem er markmið Parísarsamkomulagsins, að hlýnun jarðar verði hamin við 1,5°. Til þess hafi ekki nægilega háleit markmið verið sett fram.