Bann við innflutningi á matvælum til Rússlands frá Vesturlöndum, sem stjórn Vladímir Pútíns, forseta Rússlands, hefur samþykkt og komið í framkvæmd, getur haft víðtæk áhrif hér á landi. Útflutningur til Rússlands frá Íslandi hefur verið mjög vaxandi frá árinu 2008, en þá nam heildarverðmæti útflutnings þangað 6,2 milljörðum króna samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Árið 2013 var þessi tala komin upp í 20,4 milljarða króna, og munaði þar mest um makrílinn. Rússland er stærsta einstaka viðskiptaland Íslands þegar kemur að makríl, en árið 2013 fór um 47 prósent af makríl frá Íslandi til Rússlands, samkvæmt upplýsingum sem fram komu á vefsíðunni kvotinn.is, fyrr á árinu.
Enn er óljóst hvort aðgerðir Rússa muni hafa bein áhrif á íslensk fyrirtæki, en Ísland ku ekki vera á lista yfir þau lönd sem bannið nær til. Í ljósi umfangs aðgerðanna gæti það haft óbein áhrif á íslensk fyrirtæki.
Sjá má upplýsingar um útflutning til Rússlands inn á vef Hagstofu Íslands, hér.
Frekar umfjöllun erlendra fjölmiðla um aðgerðir Rússa má sjá á meðfylgjandi tenglum en hafa ber í huga að áhrifin af þessari aðgerð eru ekki komin fram nema að litlu leyti og erfitt að segja til um hver þau muni verða þegar fram í sækir. Viðbrögð á mörkuðum hafa þó verið neikvæð, ekki síst hjá litlum ríkjum sem eiga í miklum viðskiptum við Rússland, eins og t.d. í Noregi en hlutabréfaverð í sjávarútvegs- og matvælatengdum fyrirtækjum lækkaði skarplega eftir að tilkynnt var um aðgerðirnar.
Umfjöllun Quartz þar sem spurt er; hvernig munu Rússar fæða sig sjálfir?